Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 14:00:49 (3005)

1996-02-14 14:00:49# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[14:00]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Hér eru til umræðu þrjú frumvörp sem öll lúta að því að heimila erlendum aðilum ýmist beint eða óbeint að eignast hlut í útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum hér á landi. Ég ætla að ræða um frv. okkar fjögurra þingmanna Sjálfstfl. á þskj. 549, en ég ætla ekki að taka þátt í því ómálefnalega karpi sem hér hefur orðið um tilurð þessa frv. Sú umræða hefur farið út um víðan völl og meira að segja talaði hv. þm. Magnús Stefánsson sig upp í það að líkja frv. okkar við umsókn að Evrópusambandinu, hvorki meira né minna. Og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson lét svo ummælt hér áðan að við hefðum orðið okkur til skammar og ég vil segja að þau ummæli eru hv. þm. einum og sjálfum til skammar.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir þeirri grundvallarbreytingu að heimila erlendum aðilum eignaraðild að íslenskum fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækjum, en til þessa hefur það verið bannað og strangt tiltekið mega íslensk fyrirtæki sem að hluta eru í eigu útlendinga ekki eiga hlut í útgerðarfyrirtækjum hér á landi. Þetta er mikil breyting og kann að virðast róttæk en verður að skoðast í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á þessum vettvangi að undanförnu, bæði með miklum samruna og samstarfi fyrirtækja í sjávarútvegi vítt og breitt um landið og harðri samkeppni tveggja helstu viðskiptablokka í landinu um hlut í þessum fyrirtækjum og svo þeirri auknu sókn íslenskra útvegsfyrirtækja sem orðið hefur í að eignast sambærileg fyrirtæki í öðrum löndum. Þar má t.d. nefna fjárfestingu Granda í Chile og kaup Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa á stórum hlut í þýskum togaraútgerðum. Þessi sókn íslenskra útgerða á erlendum vettvangi byggist auðvitað fyrst og fremst á þeirri miklu reynslu og þekkingu sem okkar fólk býr yfir á þessu sviði og mun þessum verkefnum trúlega fjölga á næstu árum.

Þegar minnst er á fjárfestingar okkar á þessu sviði erlendis má náttúrlega ekki gleyma hinni miklu fjárfestingu íslensku fisksölufyrirtækjanna í Bandaríkjunum og einnig í Frakklandi og Bretlandi, en þessi starfsemi hefur tvímælalaust skapað okkur sterka markaðsstöðu. Við Íslendingar getum varla vænst þess að geta einhliða og takmarkalaust fjárfest í sjávarútvegi annarra landa. Það hlýtur að koma að því að viðkomandi geri kröfu um að geta með sama hætti fjárfest hér á landi. Þetta frv. gerir ráð fyrir að leyfa slíkt, en þó því aðeins að sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtækin verði alltaf að meiri hluta í eigu Íslendinga.

Ég held að við munum fljótlega þurfa að velja á milli tveggja leiða, annars vegar að íslensk fyrirtæki haldi áfram að fjárfesta í útgerð erlendis og að við leyfum erlendar fjárfestingar hér eða þá að við bönnum þær og hættum jafnframt fjárfestingum í sjávarútvegi annarra landa.

Það hafa orðið miklar breytingar í íslenskum sjávarútvegi og fiskvinnslu á undanförnum árum, ekki síst vegna þess mikla samdráttar sem orðið hefur á þorskveiðum og leitt hefur til þess að allt of lítið hefur verið til skiptanna handa allt of mörgum skipum. Að þessu hefur útvegurinn orðið að laga sig og tekist það að mörgu leyti vel þó að lengi megi deila um einstaka þætti fiskveiðistjórnunarinnar. En miðað við þessar miklu breytingar fer það ekki á milli mála að sóknarfæri íslenskra útvegsfyrirtækja um þessar mundir eru ekki síst erlendis. Íslendingar hafa mikla tiltrú á þessu sviði og gott dæmi um það er risaverkefni Íslenskra sjávarafurða á Kamtsjatka þar sem starfsmenn fyrirtækisins stjórna veiðum og vinnslu stórs flota á fjarlægum slóðum.

Ég er ekki í vafa um það að reynsla og þekking Íslendinga á sviði útgerðar og fiskvinnslu mun nýtast vel í þeirri sókn sem þessi grein atvinnulífsins hefur hafið á erlendri grund. Við erum t.d. í fararbroddi með framleiðslu á flæðilínum og búnaði tengdum þeim og seljum þessa framleiðslu víða um lönd. Ég hitti nýlega ungan mann sem var að koma frá Lófóten þar sem hann vann við uppsetningu á slíkum vinnslubúnaði sem var framleiddur hér á landi. Hann hafði mörg orð um það hvað Norðmenn væru langt á eftir okkur á þessu sviði þrátt fyrir risastyrki til fiskvinnslunnar sem m.a. væru notaðir til að kaupa þennan búnað frá Íslandi. Kannski er það svo að þessir styrkir letji menn frekar en hvetji og kannski erum við Íslendingar í fararbroddi á þessu sviði vegna þess að við byggjum afkomu okkar að stærstum hluta á sjávarútvegi og verðum að standa okkur á þessu sviði.

Íslenskur sjávarútvegur er mjög skuldsettur eftir erfiðleika undanfarinna ára. Einhvers staðar heyrði ég nefnda töluna 100 milljarða í því sambandi og við hljótum að spyrja okkur að því hvort ekki sé betra að fá nýtt hlutafé erlendis frá í stað þess að hlaða erlendum lánum á fyrirtækin. Nýtt fjármagn mundi styrkja sjávarútvegsfyrirtækin og gera þau færari til nýrra átaka og aukinnar starfsemi. Fiskvinnslan er um þessar mundir rekin með verulegum halla í mörgum greinum og í greinargerð með þessu frv. er bent á að erfiðleikar greinarinnar hafi bitnað á fiskvinnslufólki sem leitt hefur til þess að það leitar til útlanda í sambærileg störf.

Það heyrist oft þegar minnst er á að heimila erlendum aðilum eignaraðild að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum að það muni leiða til þess að útlendingar muni flytja fiskinn óunninn úr landi og að vinnsla hans og verðmætasköpun verði að stærstum hluta erlendis. Það er ástæðulaus ótti. Fyrirtækin lúta eftir sem áður íslenskum lögum og þeim leyfisveitingum og takmörkunum sem eru á útflutningi á ferskum fiski.

Þegar EES-samningurinn var til umræðu á Alþingi á síðasta kjörtímabili, óttuðust margir andstæðingar hans að erlendir fjárfestar mundu hellast yfir okkur ef við samþykktum samninginn. Sú varð aldeilis ekki raunin og allur sá ótti reyndist ástæðulaus. Það hefur hins vegar verið svo um langt árabil að við höfum gengið eftir erlendum aðilum til að fá þá til að fjárfesta hér á landi, sérstaklega í stóriðju, en án teljandi árangurs. Erlendir aðilar eiga þó hlut í margs konar rekstri hér á landi, svo sem verksmiðjum sem framleiða ál, járnblendi, kísilgúr og steinull og einnig verktakafyrirtækjum, fiskeldi, olíufélögum og sjónvarpsstöð, svo eitthvað sé nefnt. Það hefur ekki heyrst af neinum sérstökum vandræðum vegna þessarar eignaraðildar og ástæðulaust að ætla að svo yrði frekar þó um hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum yrði að ræða.

Í þessari umræðu hefur verið bent á það að lögum um eignaraðild útlendinga að íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum var breytt á árinu 1992, lögum sem þá höfðu gilt í hvorki meira né minna en 70 ár var breytt á Alþingi 1992, en í þeim lögum var þetta heimilað því þar stóð, með leyfi forseta:

,,Hlutafélög hafa því aðeins rétt til að reka fiskveiðar og fiskverkun í landhelgi, að allt hlutaféð sé í eign íslenzkra ríkisborgara. Þó mega hlutafélög, er ríkisborgarar annarra ríkja eiga hlut í, reka fiskveiðar í landhelgi, ef meira en helmingur hlutafjárins er eign íslenzkra ríkisborgara, félagið á heimili á Íslandi, stjórn þess skipuð íslenzkum ríkisborgurum og sé helmingur þeirra búsettur þar.``

Þetta var í okkar ágætu lögum frá 1922--1992 og ég held að það hafi enginn orðið var við að þetta ákvæði skapaði nein vandræði varðandi gleypugang útlendinga í íslenskum sjávarútvegi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. að sinni en vil að lokum taka undir það sem Morgunblaðið sagði í forustugrein sinni á sunnudaginn en þar segir, með leyfi forseta:

,,Það voru á sínum tíma full rök fyrir þeirri afstöðu að erlend fjárfesting í íslenskum sjávarútvegi kæmi ekki til greina. En tímarnir eru breyttir. Íslensku sjávarútvegsfyrirtækin sjálf hafa skapað ný viðhorf. Við megum ekki loka okkur inni í viðhorfum liðins tíma.``