Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 14:20:22 (3007)

1996-02-14 14:20:22# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[14:20]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þó að hv. síðasti ræðumaður hafi ekki gert það þá hafa ýmsir aðrir talað um hræðsluáróður og jafnvel hrollvekjumyndir sem þeir sem mælt hafa varnaðarorð í sambandi við þessi mál hafa fengið á sig. Ég held að ef einhver hefur virkilega dregið hér upp hrollvekjandi mynd og verið með nánast hræðsluáróður þá sé það samt hv. síðasti ræðumaður þegar hann útmálaði það hversu skelfilegt það væri að sjávarútvegsfyrirtæki tækju fé að láni og það jafnvel erlendis. Ég fékk ekki annan botn í ræðu hv. þm. hvað þetta snertir en þann að það væri verra og meiri áhætta fólgin í því að taka fé að láni heldur en að fjárfest væri beint í fyrirtækjum og útlendingar ættu þau. Ég tel þetta alveg fráleitan málflutning. Ég veit ekki betur en að svo fremi sem viðkomandi fjárfesting sé skynsamleg og geti borgað af lánunum og skili arði þá skipti í sjálfu sér ekki sköpum hvaðan lánsféð kemur og það hafi verið talið svo frá sjónarhóli fyrirtækisins. Það getur gegnt öðru máli þjóðhagslega séð.

Ég mótmæli því líka að einasta úrræði íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja nú um stundir til að sækja fram eða styrkja sinn fjárhag sé að sækja sér erlent áhættufjármagn. Þetta er bara rangt. Og þó hv. þm. Pétur H. Blöndal eigi í hlut þá leyfi ég mér að segja að þetta byggir þá á vanþekkingu á aðstæðum á íslenskum fjármagnsmarkaði í dag. Ég veit ekki betur en að nánast undantekningarlaust hafi öll hlutafjárútboð stórra íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja á síðustu missirum selst upp og yfirleitt til forkaupsréttarhafa. Það hefur ekki staðið á því að sæmilega rekin íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafi ekki getað styrkt stöðu sína með hlutafjárútboði á innlendum markaði upp á síðkastið nema síður sé. Það hafa jafnvel verið slagsmál um hlutabréf í ýmsum sjávarútvegsfyrirtækjum og gengi bréfa margra þeirra hafa farið hækkandi þannig að þessi málflutningur á ekki við. Og sem betur fer eru skuldir margra sjávarútvegsfyrirtækja heldur að lækka, loksins. Og svo fremi sem þeim verði ekki drekkt í einhverri nýrri vitleysu gengisskráningar eða skellt á þau auðlindaskatti þá eru sæmilegar líkur til að þessi þróun geti haldið áfram. Að mínu mati tala flutningsmenn frv. þegar þeir grípa til svona málflutnings og raka út frá mynd sem átti kannski að einhverju leyti við fyrir fimm árum en á það ekki í dag.