Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 14:42:28 (3018)

1996-02-14 14:42:28# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[14:42]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi að hugleiðingar mínar áðan hefðu verið mjög skýrar. Ég setti það fram sem spurningu hvort nokkur munur væri á fiskvinnslufyrirtækjum, sem ekki ættu aflahlutdeildir og þar sem verðlagningin og verðmyndunin frjáls, og öðrum iðnaði. Ef það væri fiskvinnslufyrirtæki sem væri alveg bannað að eiga aflahlutdeildir, hvað mælti þá gegn því að útlendingar væru þar frekar en í öðrum íslenskum iðnaði þar sem þeim er leyfilegt að vera? Það er ekki verið að mæla með því að við slítum veiðar og vinnslu í sundur. Náttúrlega getur hver ráðið því sem vill vera í þessari atvinnugrein hvar hann er niður kominn, hvað hann gerir og hvað hann vill láta framtak sitt leiða í ljós.

Íslensk fiskvinnsla er mjög fullkomin og það er mjög rangt ef menn halda að hún sé fyrst og fremst fólgin í því að verja fisk skemmdum. Íslendingar standa mjög framarlega í fiskvinnslu, framar á sumum sviðum en aðrir, að vísu mismunandi framarlega. Ég bendi líka á að það er mikill mismunur á því hvernig við markaðssetjum fiskvinnsluafurðir. Það er rétt að við erum frekar aftarlega, við höfum t.d. aldrei náð tökum á ákveðnum þáttum matvælaframleiðslu eins og niðurlagningu og niðursuðu. Hvað væri að því þó aðili sem vildi koma til Íslands og reyna fyrir sér í þeim iðnaði settist hér að? Ég get ekki komið auga á það og það er mjög mikill misskilningur hjá hv. þm. að ég sé að tala gegn félögum mínum í fiskvinnslu. Við höfum velt þessu mjög opinskátt fyrir okkur undanfarin missiri. Enda þótt ég viti ekki og hafi ekki vitað til þess að menn hafi gert neinar samþykktir um það er það mál margra að þetta hljóti að geta komið til greina og rétt eins og ég var að hafa orð á hér áðan.