Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 15:00:27 (3022)

1996-02-14 15:00:27# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[15:00]

Flm. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf að gera eina athugasemd við ræðu hv. þm. Það er varðandi það þegar hann vitnaði í dæmi mitt um Olís. Ég vil í fyrsta lagi taka fram að það tók ég sem dæmi um afleiðingar frv. Lögmaður Texaco og stjórnarformaður Olís hefur komið fram á opinberum vettvangi og sagt m.a. að þetta eigi ekki við Olís á því marki sem viðvíkur eldri fjárfestingum. Þetta er lagatúlkun hans. En að mínu mati er það ekki rétt. Vegna þess að ef hv. þm. skoðar frv. þá er það alveg fortakslaust að erlendur aðili má ekki eiga meira en 33%. Nýrri lög taka náttúrlega þau eldri af. Texaco á 35% í Olís. Þetta þýðir einfaldlega að þarna verður að koma til annaðhvort sala á hlutabréfum Olís í sjávarútvegsfyrirtækjum eða minnkun hlutdeildar Texaco í Olís. Hins vegar er málið flóknara en það vegna þess að fram til 1992 voru slíkar fjárfestingar heimilaðar. Texaco gerist aðili í Olís, án þess að ég vilji gera það fyrirtæki mjög að umtalsefni, 1990 ef ég man rétt. Þetta er matsatriði. Alla vega er frv. ríkisstjórnarinnar alveg fortakslaust um þennan þátt. Ég sé ekki að hægt sé að halda öðru fram vegna laganna eins og þau eru. Það er ekkert ákvæði þar til bráðabirgða. Hins vegar, og ég tek undir með hv. þm. hvað það varðar, verða menn að skoða þennan þátt sérstaklega í umfjöllun nefndarinnar. Það getur ekki verið ætlun og ég skil það svo að það er ekki ætlun ríkisstjórnarinnar að mismuna einu einasta fyrirtæki á Íslandi varðandi þennan þátt. Menn eiga að segja það ef svo er. Ég held að svo sé ekki. Það verður því að skoða það sérstaklega gagnvart þessu tiltekna fyrirtæki. En ef frv. verður samþykkt óbreytt gæti vafalítið komið til kasta dómstóla varðandi túlkun á ýmsum efnum. Það eina sem ég vil ítreka í þessu sambandi er að frv. er alveg afdráttarlaust í sínum takmörkunum varðandi 33%.