Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 15:02:56 (3023)

1996-02-14 15:02:56# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[15:02]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Viruðlegi forseti. Þó að okkur hv. 11. þm. Reykn. skorti sjálfsagt hvorugan sjálfsálitið þá held ég að það sé ekki skynsamlegt hjá okkur að setja okkur í dómarasæti um það hvernig eigi að túlka þessi lög vegna þess að hér er ekki bara um að ræða prívat túlkun stjórnarformanns Olís eða lögfræðings Texaco heldur er hér um að ræða lagalega niðurstöðu sem mjög virtur hópur lögmanna komst að eftir ítarlega skoðun. Sannleikurinn er sá að eftir lagabreytinguna 1992 kom þetta mjög til álita hjá ýmsum fyrirtækjum sem þannig var ástatt um að þau voru að einhverjum hluta til í eigu erlendra aðila en áttu um leið í íslenskum sjávarútvegi í meira og minna mæli. Þessi lagalega skoðun fór því fram. Ef ég man rétt var niðurstaða athugunarinnar sú að um hlutabréf sem keypt höfðu verið fyrir árið 1992 gilti annað en um þau sem keypt höfðu verið eftir að lagabreytingin varð á árinu 1992. Þetta átti við um allmörg fyrirtæki, bæði tryggingafélög og olíufélög sem þarna var viðlíka statt um. Ég er sammála því sem hér er sagt að við eigum ekkert að vera að ræða þetta út frá einstökum félögum eða fyrirtækjum. Það er auðvitað ekkert eðlilegt. En þegar svona mál kemur upp þá er sjálfsagt að þetta sé rætt á almennum og breiðum grundvelli. En aðalatriðið er að ef ég man rétt þá varð það niðurstaða lögmanna eftir ítarlega skoðun að það sem máli skipti væri hvort viðkomandi hlutabréf hefðu verið keypt fyrir lagabreytinguna árið 1992.