Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 15:13:37 (3026)

1996-02-14 15:13:37# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[15:13]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeim ræðumanni sem hér lauk máli sínu varð nokkuð tíðrætt um okkar eigin forsendur og okkar hagsmuni. Ég geri ráð fyrir því að við getum verið í grófum dráttum sammála um það að þar hljótum við að vera að tala um það að þjóðin geti notið sem ríkulegast afraksturs af auðlindinni. En okkur greinir kannski á um það hvernig það megi verða. Þingmaðurinn styður þá óbeinu fjárfestingu sem hér er lagt til að lögfesta sem við höfum sum sagt að væri í rauninni lögfesting á því ástandi sem þegar er. Það er þó reyndar ekki alveg rétt vegna þess að við erum í rauninni að segja með því frv., ef það verður að lögum, að nú sé mönnum óhætt að fara að fjárfesta óbeint. Það höfum við ekki sagt fyrr. Það hefur bara þróast.

Af því að hv. þm. varð tíðrætt um það hvað íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa verið dugleg að laga sig að nýjum aðstæðum og ég hef nú notað hvert tækifæri sem hefur gefist til að hrósa þeim fyrir það, þá hefði ég gaman af því að heyra hv. þm. fara aðeins yfir það hvaða möguleika hann ímyndar sér að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sjái í þeirri stöðu sem skapast þegar óbein fjárfesting verður leyfð, vegna þess að ég er nokkuð viss um að um leið og hún verður leyfð fara að gerast hér ýmsir hlutir sem við höfum kannski ekki alveg stjórn á af því að fjárfestingin er óbein. Hefur þingmaðurinn hugsað út í þetta og er hann þá tilbúinn að útskýra örlítið betur hvað hann sér fyrir sér í þeim efnum?