Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 15:36:06 (3029)

1996-02-14 15:36:06# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. KPál
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[15:36]

Flm. (Kristján Pálsson):

Virðulegi forseti. Hér eru til umræðu þrjú frv. um fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi m.a. Ég vil segja nokkur orð eftir þá miklu umræðu sem frv. okkar fjórmenninganna í Sjálfstfl. um 49% beina erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi hefur fengið en hún hefur valdið, að mér sýnist, miklum titringi í sölum hins háa Alþingis. Sú athygli hefur ekki einungis beinst að því hvað hér er mikilvægt mál á ferðinni heldur hafa stjórnarandstæðingar á Alþingi reynt að gera framlagningu þess tortryggilega gagnvart stjórnarsamstarfi Sjálfstfl. og framsóknarmanna. Ég tel mér skylt að leiðrétta þann misskilning hvað mig varðar. Minn stuðningur við ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er heill og óskiptur. Frv. ríkisstjórnarinnar um erlenda fjárfestingu er stjfrv. Það er ekki um það mikill ágreiningur í þinginu og mun það því venju samkvæmt fá greiða leið í gegnum þingnefnd og verða samþykkt sem lög frá Alþingi. Það er auðvelt fyrir mig að samþykkja það enda bætir það frv. ríkjandi ástand á öllum sviðum erlendrar fjárfestingar í landinu frá því sem verið hefur. Ég vil líka ítreka það í þessu sambandi að ég ber fullt traust til viðskrh. Finns Ingólfssonar í þessu máli og tel að hann hafi staðið sig vel í sínum störfum.

Spurningin er aftur á móti sú hvort einstakir þingmenn telja að ganga beri lengra á einstökum sviðum erlendrar fjárfestingar en frv. frá ríkisstjórninni gerir ráð fyrir. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Upphlaup stjórnarandstöðunnar í þessu máli er að mínu viti sýndarmennska um tækniatriði innan þingsins en ekki efnisleg umræða um hvað málið snýst.

Að mati okkar fjórmenninga er mjög nauðsynlegt að ná skýrari og almennari umræðu úti í þjóðfélaginu um hvort við eigum að heimila fyrirtækjum okkar að fylgja þeirri almennu þróun sem orðin er í hinum vestræna heimi í fjárfestingum yfir landamæri eða ekki. Sú umræða hefur verið afskaplega takmörkuð hér á landi og nánast beinst að hagsmunaaðilum einum. Framlagning frv. er til að beina sjónum almennings að þessu máli og reyna að breyta þeim viðhorfum sem okkur finnst ríkja gagnvart fjárfestingum erlendra aðila. Það mál mun væntanlega verða til umræðu á Alþingi í töluverðan tíma enda skoðanir mjög skiptar. Ég bendi þar á meðal á hugmyndir hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar þar sem hann telur að erlend fjárfesting í fiskvinnslu gæti verið allt að 100%. Mér er reyndar sagt að sú hugmynd hafi komið upp fyrir mörgum árum og það á þeim tíma þegar lög heimiluðu útlendingum að eiga 49,9% í útgerðarfyrirtækjum.

Andstæðingar beinnar erlendrar fjárfestingar hafa í málflutningi sínum helst bent á hættuna á því að stórir erlendir risar, eða eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í umræðunni á mánudaginn, að stórar erlendar hafnir, fiskmarkaðir, matvælakeðjur og fyrirtækjahringir í Japan mundu kaupa útgerð og lífsviðurværi um leið og flytja það í burt ef tillaga okkar fjórmenninganna næði fram að ganga. Þeir segja að engin ný sóknarfæri skapist við beina erlenda fjárfestingu, hvorki betri eiginfjárstaða fyrirtækja, betri laun né meiri atvinna.

Það er gömul saga og ný að vekja ótta almennings á öllum nýjum samskiptum við útlendinga með því að draga upp myndir af úlfum í sauðargæru sem allt vilja gleypa. Hver er svo reynsla okkar af viðskiptum við erlenda aðila? Er hún svo slæm? Ég segi nei. Hún er í rauninni mjög góð. Ég vil þar nefna samskipti okkar við eigendur álsversins í Straumsvík, Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og Kísiliðjuna við Mývatn. Það má einnig benda á þá miklu þróun í sölu sjávarafurða eftir að hún var gefin fjáls. Gömlu íslensku risarnir hafa blómstrað og lítil fyrirtæki við hlið þeirra. Það komu engir vondir menn frá útlöndum og keyptu þetta allt upp og arðrændu okkur í kjölfarið. Sölukerfi okkar hefur frekar styrkst og þróast á öllum sviðum og hafið stórsókn á erlendum mörkuðum. Þar er selt íslenskt og erlent af sömu aðilum.

Hver er reynsla okkar af samningum um EES? Erum við að tapa einhverju þar? Ég tel þvert á móti að ávinningur okkar sé mikill á öllum sviðum í viðskiptum okkar við Evrópu eftir EES-samninginn.

Hv. þm. Tómas Ingi Olrich ræddi um þau lög sem sett voru á Alþingi 1922 og giltu í tæp 70 ár. Þau kváðu á um að erlendir aðilar mættu eiga 49,9% í íslenskum útgerðarfyrirtækjum. En hv. þm. taldi það allt annars eðlis þá en nú. Ég veit ekki hvernig hægt er að rökstyðja að það sé eitthvað allt annars eðlis. Það eru ekki nema fjögur ár síðan þessi möguleiki var fyrir hendi. Auðvitað hefur margt breyst í tíð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar til betri vegar á viðskiptasviðinu og á flestum sviðum hefur það opnast mjög. Og það ber að þakka. En eigi að síður held ég að þessir möguleikar hafi verið jafnauðveldir mönnum þá, ef þeir kærðu sig á annað borð um að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum og það gæti verið nú. Vandamálið er fyrst og fremst að það hefur ekki verið neinn áhugi erlendra aðila fyrir fjárfestingu í íslenskri útgerð. Það er í mínum huga fyrst og fremst áhyggjuefnið. Ég tel nefnilega eftirsóknarvert að fá erlenda aðila í íslensk fyrirtæki.

Fjárfesting erlendra aðila í löndum þar sem framleiðslan hefur verið einhæf hefur leitt til fjölgunar fyrirtækja og eflingar þess atvinnulífs sem fyrir er, samanber á Írlandi sem í dag er að verða fremsta vestræna landið í nýsköpun og útflutningi. Þeir hafa farið þar langt fram úr okkur á síðustu árum á þessu sviði. Má í því sambandi benda á samanburð sem birtist í Vísbendingu þar sem fram kemur að árið 1960 var Ísland í 3. sæti hlutfallslega í útflutningi af vergri landsframleiðslu en Írar í 7. sæti. Árið 1993 eða 33 árum seinna erum við komnir í 10. sæti en Írar í það 3. Áhugi erlendra aðila hlýtur að beinast að því sem þeim stendur næst í starfsemi sinni heima fyrir. Að skapa slík tengsl milli markaða og framleiðenda með auknu áhættufé er ein grunnforsendan fyrir því að fjölga störfum, auka framleiðni og bæta kjör fólks.

Margir segja að við göngum of langt. Einstakir erlendir aðilar geti náð ráðandi hlut í fyrirtækjum. Er verið að ganga of langt? Ég tel ekkert að óttast í þessu sambandi. Eins og ég sagði áðan er reynsla okkar af samstarfi við erlenda aðila ekki slík að þeir gangi yfir okkur frekar en íslenskir atvinnurekendur gera. Þó erlendur aðili næði ráðandi stöðu t.d. í útgerð, þá hefur hann enga lagaheimild til að flytja kvóta úr landi með öðrum hætti en íslensk lög kveða á um og gilda um íslenska ríkisborgara. Það fá engir úthlutun úr sameiginlegum fiskstofnum þjóðarinnar nema þeir sem hafa leyfi til veiða í íslenskri efnahagslögsögu, sbr. lög nr. 13 30. mars 1992. Í okkar frv. er ekki verið að gera ráð fyrir öðru en að einungis fyrirtæki skráð á Íslandi í meirihlutaeigu Íslendinga geti veitt í efnahagslögsögu og fengið kvóta. Að 49% eignaraðild þýði að einhver einn erlendur aðili geti náð yfirráðum yfir fyrirtækinu, þá er það ekki endilega svo slæmt eins og ég sagði áðan. Það gæti verið beinlínis verið hagkvæmt og skynsamlegt. Það gæti allt eins virkað og gott hjónaband tveggja mismunandi aðila sem koma frá mismunandi löndum.

Minn ágæti félagi og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sem las hér upp úr blaði viðtal við þá nafna og frændur frá Akureyri sem líkjast í sínum rekstri ameríska draumnum eins og hann getur gerst bestur. Það er í mínum huga íslenski draumurinn. Þeir hafa með atorku sinni og framtakssemi náð að byggja upp eitt öflugasta útgerðarfyrirtæki landsins. Þeir hafa öðlast reynslu í samskiptum við útlenda aðila varðandi útgerð og fiskvinnslu. Þeir hafa haslað sér völl með þeim hætti að öðlast sjálfstraust og reynslu sem hefur skapað þeim þá trú þessara aðila að þeir eigi fullt erindi hvar sem er og við höfum ekkert að óttast varðandi fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi. Með leyfi forseta vil ég endurtaka það sem Einar las áðan upp: ,,Ég tel að það geti orðið sjávarútveginum til góðs og sé jafnvel nauðsynlegt fyrir framtíðarþróun greinarinnar. Ég er alveg óhræddur við að breyta lögum þannig að erlendir aðilar geti átt í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.``

[15:45]

Ég held að það sé óhætt að hlusta á þessa framsýnu menn. Þeir hafa engan ótta af því að takast á í samkeppni við erlenda aðila í íslenskum sjávarútvegi. Þeir sjá ekki annað en það geti hjálpað þróuninni í íslenskum sjávarútvegi til betri vegar.

Herra forseti. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að sá málflutningur sem hefur komið fram, sem réttlætir það að við förum út í að heimila 49% eignaraðild útlendinga í íslenskum sjávarútvegi, hafi sýnt að í því felast engar hættur. Í því felst sú nauðsynlega varkárni sem ég tek undir að við þurfum að hafa til að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar. Eins og hv. þm. Tómas Ingi Olrich sagði áðan þurfum við að sjálfsögðu að tryggja sérhagsmuni þjóðarinnar, auðlind þessarar þjóðar sem er sérstök eign okkar og stærstur hluti af lífsviðurværi okkar. Af þeirri ástæðu teljum við okkur ekki fært að ganga lengra og ekki af neinni annarri. Þess vegna vil ég ítreka það við hv. þm. að í huga okkar erum við ekki að tefla fjöreggi þjóðarinnar í hættu. Við erum fyrst og fremst að tryggja áframhald vaxtar í íslensku þjóðarbúi.