Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 15:48:44 (3030)

1996-02-14 15:48:44# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[15:48]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál verður nú æ skemmtilegra og sérstaklega málflutningur fjórmenninganna undir forustu hv. þm. Kristjáns Pálssonar. Nú kom hv. þm. í ræðustól og byrjaði á því að sverja ríkisstjórninni hollustu, undirstrika 100% stuðning sinn við hana og fullvissa þingheim og þjóð um að hann mundi að sjálfsögðu beita sér fyrir því að stjfrv. næði fram að ganga. Því er nærtækt að spyrja hv. þm.: Hvað á þá að gera við frv. hv. þm.? Á þá ekki að fella það? Er þá ekki snyrtilegasta afgreiðslan á málinu að byrja á því að bera það upp til atkvæða og fella það þannig að það sé ekki að þvælast fyrir mönnum og liggjandi fyrir hunda og katta fótum. Eða hvað ætla hv. flm. sér með þann pappír úr því að þeir eru svona hjartanlega sammála og hæstánægðir með stjfrv.? Þetta er fyrri spurningin.

Seinni spurningin snýr að málflutningi hv. þm. þegar hann eftir sem áður hamast gegn þeim sem hafa fært fram efnislög rök fyrir stjfrv. þar með talið þeim er hér stendur. Þá heitir það að maður sé að tortryggja útlendinga, gera því skóna að þeir séu úlfar í sauðargæru og ég veit ekki hvað. Þvílík ósköp. En úr því að hv. þm. er 100% stjórnarsinni, styður stjfrv. og vill að það verði afgreitt þá hlýtur hann líka að taka undir röksemdir þeirra, sem hafa mælt með því hafa rökstutt að það sé skynsamleg efnisleg niðurstaða í málinu. Þar með er með öllu ástæðulaust fyrir hv. þm. að ganga gegn málflutningi stuðningsmanna stjfrv. sem hann er samt að reyna. Ég held því að hv. þm. hljóti þá í öðru lagi að þurfa að koma hér og draga það allt til baka sem hann hefur sagt til þess að gera málflutning þeirra tortryggilegan sem vilja m.a. af varfærnisgrundvelli ganga frá málinu eins og stjfrv. leggur það upp.