Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 15:50:56 (3031)

1996-02-14 15:50:56# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[15:50]

Flm. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Orðaleikir hv. þm. hafa verið í umræðunni frá því að hún hófst um það hvernig tæknilega hefur verið gengið frá málinu. Ég reyndi að útskýra það á mánudaginn hvernig kom til að þetta frv. tengist hinum tveimur. Það var einfaldlega gert á tæknilegum forsendum til þess að stytta umræðuna eftir því sem mér skildist og í rauninni var okkur alveg sama þó þetta frv. hefði komið síðar. En það var talið gott að koma með það á sama tíma. Þess vegna kemur þetta frv. með stjfrv.

Stjfrv. gengur að sjálfsögðu lengra en gildandi lög. Það er hverjum manni skýrt og ég og aðrir flutningsmenn frv. viljum meira frjálsræði og það skilur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Frv. okkar gengur aftur á móti mun lengra en stjfrv. og við gerum ráð fyrir því að það þurfi mun meiri umræðu og tíma innan þingsins í nefndum en stjfrv. Á þeirri forsendu er náttúrlega mjög eðlilegt og gott að geta verið búinn vegna þeirrar miklu umræðu sem er fram undan um sjávarútvegsmál yfirleitt að breyta þó því sem búið er að ná samkomulagi um.