Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 15:58:59 (3036)

1996-02-14 15:58:59# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[15:58]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég skildi ræðu hv. þm. Kristjáns Pálssonar rétt áðan þá taldi hann ástæðu til þess að fara af fullri varfærni í þessi mál og taldi að það væri vísbending um það hversu varlega hann og meðflutningsmenn hans vildu fara að þeir legðu til að erlendir aðilar mættu eiga allt að 49% í fyrirtækinu en ekki meira. En nú er ljóst, virðulegi forseti, að 49% eignaraðild að fyrirtækinu nægir meira en svo að sá eignaraðili geti haft fullkomna stjórn á slíku fyrirtæki. Það er jafnvel vitað mál að 30% eignaraðild að fyrirtæki nægir til þess að stjórna því í öllum meginatriðum. Sums staðar þar sem dreifing hluthafa er mjög mikil, ekki síst þar sem lífeyrissjóðir taka þátt í fjármögnun og bannað er að þeir sitji í stjórn nægir jafnvel minna en þetta. Og þess vegna spyr ég af því að ég veit að hv. flutningsmenn vita þetta líka. Þeir eru eins vel upplýstir um þetta og ég. Því vil ég spyrja hvers vegna miðað er við 49% hlut erlendra aðila í fyrirtækjum ef miklu minni eignaraðild getur veitt þeim fullkomna stjórn á fyrirtækjunum. Hvar er þá varfærnin í þessu frv.? Hvers vegna er verið að leggja það til hér að eignaraðild þeirra sé 49% ef það skiptir engu meginmáli hvort hún er 49% eða 60%?