Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 11:14:22 (3042)

1996-02-15 11:14:22# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[11:14]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. ræðumanni fyrir stuðninginn við frv. Ég tel að það sé full ástæða til að ræða endurskoðun ríkisreiknings 1994 en ég hygg að það fari betur á að ræða það þegar ríkisreikningurinn verður hér til umræðu. Hv. þm. nefndi tvö atriði úr skýrslu Ríkisendurskoðunar. Annars vegar var Laxárvirkjun. Af því tilefni vil ég láta það koma fram hér og nú að Ríkisendurskoðun var fyrir nokkrum árum falið að fara yfir ríkisábyrgðir og endurlán ríkissjóðs til þess að gera athugasemdir fyrir hönd fjmrn. Þá kom þetta mál ekki fram. Auðvitað geta slík mistök gerst eins og þarna hafa átt sér stað. En það þýðir ekki fyrir Ríkisendurskoðun að hrópa núna að mistök hafi verið gerð því þeir voru beðnir um það að leita dyrum og dyngjum í þessum flokki á sínum tíma.

[11:15]

Í öðru lagi var minnst á Silfurlax og 50 millj. Ég vil aðeins láta það koma fram í þessu sambandi að þetta mál var mjög vel undirbúið á sínum tíma. Þarna var um að ræða fyrirtæki sem stundaði rannsóknir sem eru einstæðar í Atlantshafinu. Þegar gengið var frá þessum gjörningi lá fyrir að tryggingar væru nokkuð góðar og það hefur ekkert komið fram enn þá um það að ríkið tapi þeim fjármunum sem þarna eru í húfi. Hitt er svo annað mál og ég vil endurtaka það að ég held að það sé þægilegra og betra fyrir hv. Alþingi að umræða um þessi mál fylgi umræðunni um ríkisreikninginn sem ég veit að hv. nefnd mun afgreiða innan tíðar. Þessi umræða á betur heima þar en þegar verið er að ræða um breytingar á formi og efni um fjárreiður ríkisins yfir höfuð. Þótt ég geti að sjálfsögðu ekki bannað þingmönnum að tala um nánast hvað sem er, held ég að það sé betra. Þá kæmu fram betri upplýsingar og það væri hægt að svara jafnóðum því sem fram ætti að koma.