Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 11:18:14 (3044)

1996-02-15 11:18:14# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[11:18]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja frá því að menn komast ekki hjá því hvort sem þeir eru í opinberum rekstri eða einkarekstri að taka áhættu. Menn verða að meta það á hverjum tíma. Það gerði Alþingi, þar á meðal hv. þm. Það getur verið að honum finnist að hann hafa gert mistök en ég bið hann bara um að bíða og sjá til hvort þessir fjármunir eru glataðir og meta þá hvort um mistök var að ræða því að ég efast um að hann vilji endurtaka þá ræðu sína ef peningarnir skila sér.

Í öðru lagi virði ég það við hv. þm. að hann sagðist hafa tekið forskot á sæluna og byrjaði að ræða mál sem hann ætlaði að ræða undir öðrum lið síðar í vetur. Ég vænti þess að við getum þá ræðst saman en vil láta koma hér fram að fjmrh. og fjmrn. gerir verulegar athugasemdir við vinnubrögð og störf Ríkisendurskoðunar. Ég tel að það sé kominn tími til að á hinu háa Alþingi sé rætt um þessi mál og það sé rætt um það hvað heyri til Ríkisendurskoðunar og hvað heyri til framkvæmdarvaldsins því að það er náttúrlega ómögulegt að Ríkisendurskoðun sitji beggja vegna borðsins. Það kerfi gengur ekki upp. Það hlýtur þá að koma að því að venjulegar leiðbeiningar um bókhald séu á vegum framkvæmdarvaldsins en Ríkisendurskoðun hafi það eina hlutverk að fylgja eftir ákvörðunum Alþingis. En nú er þetta allt saman í einum hrærigraut. Þetta vonast ég til þess að fá að ræða og skal ekki víkjast undan því að ræða það þegar að þeim lið kemur. Ég tel eðlilegt að það sé gert þegar fjallað er um endurskoðun ríkisreiknings 1994 þótt þar sé náttúrlega að mestum hluta verið að ræða um allt önnur málefni heldur en þar koma upp, sérstaklega eldgömul mál eins og raðsmíðaskipin sem hv. þm. minntist á áðan og eiga sér rætur í aðgerðum fjmrn. þegar ríkisendurskoðandi vann þar sem deildarstjóri.