Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 11:46:39 (3049)

1996-02-15 11:46:39# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[11:46]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri reyndar að hv. þm. talaði ekki af fullum þunga fyrir þeim málstað sínum að málið skuli fara til fjárln. Út af fyrir sig tel ég þetta ekki vera neitt stórmál. Ég bendi þó á að málið var einnig kynnt efh.- og viðskn. Það var því ekki einungis fjárln. sem fékk kynningu á málinu heldur líka efh.- og viðskn. enda heyrir hluti málsins undir núverandi verksvið þeirrar nefndar. Þegar um var að ræða frv. um snjóflóð og skriðuföll kann það að hafa verið þannig þar að málin heyrðu undir fleiri en eitt ráðuneyti. Það er ekki um það að tefla í þessum málum hér. Öll atriðin í frv. heyra sannarlega undir fjmrn. og málefni fjmrn. fara til tveggja nefnda í þinginu. Yfirleitt til annarrar af tveimur nefndum en í þessu tilviki er verið að skófla svo miklu til að full ástæða þótti, eftir að hafa rætt við forseta þingsins, að leggja til að setja saman sérstaka nefnd enda er málið stórt og viðamikið og snertir allan rekstur ríkisins. Því varð að ráði að stofna til nefndar þar sem fleiri sjónarmið gætu komið fram en þeirra sem eiga eingöngu eiga sæti í fjárln. Ég get sagt það hér og nú að auðvitað treysti ég fjárln. ágætlega fyrir þessu máli en taldi vegna eðlis þess og umfangs og vegna þess að gert er ráð fyrir því í þingsköpum að þetta sé hægt að þá væri tilvalið tækifæri til þess að stofna sérstaka nefnd um þetta veigamikla mál.