Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 13:00:56 (3062)

1996-02-15 13:00:56# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[13:00]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé hárrétt sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði að það var æðimikið samræmi á milli þeirra greinargerða sem voru með frv. sem flutt var af fjárveitinganefnd 1990 og svo hins vegar því sem flutt var síðar af þáv. hv. fjárln. Ástæðurnar eru þær að hlutirnir höfðu ekki mjög mikið breyst á þessum tíma. Það voru svipaðar niðurstöður sem menn komust að og svipaður vilji, þ.e. til þess að koma betri tökum á fjárreiður ríkisins og hafa þetta í skikkanlegra horfi en hlutirnir höfðu þróast í.

En aðalatriði málsins er það að halda þessu öllu til haga og vekja athygli á því að hugmyndafræðin á bak við frv. sem hér er til umfjöllunar byggir á sömu hugmyndafræði sem lá að baki þeim frumvörpum sem hv. fjárveitinganefnd og fjárln. flutti á sinni tíð auk þess sem hv. fjárln. hafði að ég held svipaða eða jafnvel sömu ráðgjafa til þess að vinna fyrir sig og sú hin fyrri nefnd hafði haft.