Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 13:46:28 (3066)

1996-02-15 13:46:28# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[13:46]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má heyra á máli hæstv. fjmrh. að hann reynir að vera strangur og vill ekki hafa einhverjar upphæðir svona á lausu. Eflaust er það rétt hjá honum að það yrði freistandi fyrir ráðuneytin að geta seilst í einhverja sjóði. Ég skal því draga þá hugmynd til baka, enda var ég bara að varpa henni fram. En meginmálið er auðvitað hvar mörkin eru. Ég tel að þar hafi verið gengið allt of langt á undanförnum árum. Ég vil beina því til þeirrar sérnefndar sem fær þetta mál til umfjöllunar að skoða þetta alveg sérstaklega, þ.e. 44. og 45. gr. frv., og kanna hvort ekki þarf að taka þar strangar á. Hugsanlega þurfa að vera einhverjar ákveðnar ástæður til þess að aukafjárveitingar séu leyfðar, ekki bara það að ríkisstjórninni detti í hug að gefa gjöf eða gera eitthvað gott í þágu þjóðarinnar sem þyldi hugsanlega bið.