Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 15:13:54 (3075)

1996-02-15 15:13:54# 120. lþ. 91.2 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[15:13]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson drap nokkuð á að átök hefðu verið á milli stjórnarflokkanna um þetta efni. Það hefur ekki farið fram hjá neinum. Það hefur heldur ekki farið fram hjá neinum að það er erfitt að vera ráðherra Framsfl. í samstjórn með Sjálfstfl. og sennilega veit enginn það jafn vel og hæstv. heilbrrh. (SJS: Það er erfitt að vera framsóknarmaður.) Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir að það sé erfitt að vera framsóknarmaður og kannski þekkir hann það betur en ég. Ekki veit ég það. Eigi að síður er það svo að hæstv. heilbrrh. hefur komið fram þessu frv. og ég óska henni til hamingju með það. Ég tel að með frv. sé stigið mjög jákvætt skref fram á við og er ekki að öllu leyti sammála þeirri gagnrýni sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Ég held að hér sé að mörgu leyti verið að feta réttan stíg. Og þó ég sé, eins og ég geri grein fyrir í máli mínu, algjörlega ósammála einstökum greinum í þessu frv. mun ég sem formaður heilbr.- og trn. leggja mig fram um að þetta frv. verði afgreitt sem lög á þessu þingi og er mál til komið.

[15:15]

Íslendingar hafa jafnan verið í fararbroddi í tóbaksvörnum. Lögin sem samþykkt voru árið 1985 vöktu mikla athygli á sínum tíma enda var stigið þar stærra skref en flestar aðrar þjóðir höfðu stigið á þeim tíma. Það er auðvitað mál til komið að bæta þessi lög eins og þurfa þykir. Mér sýnist að þær bætur sem hér eru fram færðar séu góð skref í stöðunni. Ég tek það fram, herra forseti, að ég tala hér sem einstaklingur sem aldrei hefur reykt. Ég er því ekki að taka hér upp hanskann fyrir þá sem hafa verið reykingarmenn. (SJS: Þú tekur í nefið, er það ekki?) Sú saga verður rifjuð hér upp þegar vindur fram minni ræðu.

Ég tek það fram, herra forseti, að þær takmarkanir sem koma fram í 4. og 5. gr. frv. eru mér mjög að skapi. Ég held að sú skylda sem er lögð á herðar þeirra sem reka veitingahús um að hafa þar jafnan reyklaus svæði sé mjög jákvætt skref fram á við. Ég held að ef það er raunverulegur vilji þeirra sem notfæra sér þjónustu þessara fyrirtækja til að hafa slík svæði þá muni markaðurinn sjá til þess að þau sem uppfylla þetta muni njóta þess. Þess vegna er ég ekki sammála hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um að það þurfi að setja lög eða reglugerðir um einhver stærðarmörk. Ég held að þetta muni gerast af sjálfu sér vegna þess að ég held að öldin og viðhorf manna séu að þróast þannig að menn, eins og t.d. ég og hv. þm., muni fremur sækja slíka staði. Sjái veitingamenn sér hag í því, festa þeir væntanlega fé í reyklausum svæðum.

Ég tel líka að það sé hæfilegt skref stigið með 5. gr. og ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að banna því fólki sem starfar eða nemur við háskóla að hafa réttinn til að velja hvort það reykir eða reykir ekki. Ég tel sem sagt að fullorðið fólk eigi, þegar búið er að leggja allar staðreyndir fyrir það, að hafa frelsi til að velja. Ég er þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagt að skapa ákveðið svigrúm með ramma laganna en að öðru leyti á fólk að fá að velja. Það sem skiptir máli eru forvarnirnar. Það skiptir máli að upplýsa fólk um skaðsemi reykinga og skaðsemi þess að neyta tóbaks. Þess vegna tek ég heils hugar undir þá gagnrýni hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að það skref sem stigið er í 7. gr. er alls ekki nógu stórt. Þar er gert ráð fyrir að 4/10 af 1% af brúttósölu tóbaks skuli verja til forvarna. Áður voru þetta 2/10. Þarna er að vísu verið að tvöfalda upphæðina en hún er samt sem áður ekki nema u.þ.b. 20 millj. kr. Það er lítil upphæð þegar við berum hana saman við þann mikla kostnað sem hæstv. heilbrrh. reifaði í framsöguræðu sinni. Hún greindi frá því að næstum því hálfur milljarður fer beinlínis í það að reyna að bæta beint heilsutjón af völdum reykinga. Hún gat þess jafnframt að á milli þrjú og fjögur hundruð manns deyi árlega af völdum reykinga. Þýðir þetta ekki að það sem við mundum sennilega best gera er að setja fé í forvarnir í upplýsingastarfsemi? Það er besta forvörnin. Það er besta vörnin gegn því að neysla tóbaks aukist. Þess vegna verð ég að segja að það er mikið ósamræmi í 7. gr. sem kveður einungis á um að 0,4% af brúttósölu tóbaks skuli varið til varnarstarfsins og hins vegar þess yfirlýsta markmiðs sem kemur fram hjá hæstv. ráðherra í frv. og ræðu hennar um nauðsyn þess að efla harðlega baráttuna gegn tóbaksneyslu. Og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún telji ekki eðlilegt að þetta sé a.m.k. tvöfaldað eða þrefaldað? Telur hún það ekki eðlilegt? Að vísu geri ég mér grein fyrir því að það mun draga að sama skapi úr tekjum ríkissjóðs til skamms tíma. En þegar til lengri tíma er litið mun þetta sennilega hafa verulegan sparnað í för með sér. Ef við horfum aftur til síðasta áratugar þegar mjög sigursæl herför á hendur tóbaksreykingum var háð þá stendur upp úr að það sem skipti máli var áróðurinn. Og áróðurinn kostar peninga. Enginn í þessum þingsölum hefur undirstrikað jafnmikið gildi forvarnastarfs og einmitt hæstv. ráðherra. Erum við ekki með því að auka þetta hlutfall að fjárfesta til lengri tíma litið? Ég vil gjarnan að hæstv. ráðherra veiti mér svör við því.

Ég er þeirrar skoðunar að lög eigi að vera afdráttarlaus svo menn þurfi ekki að velkjast í vafa um hvað þau þýða. Þegar ég les 2. gr. þessa frv. velkist ég hins vegar í vafa um ýmislegt sem er ekki skýrt í greinargerðinni. Ég vil líka geta þess, herra forseti, að mér finnst almennt mega gefa greinargerðinni með þessu frv. þá einkunn að hún skýri allt of illa einstakar greinar frv., sem margar varða við ákveðin grundvallaratriði. Ég velti t.d. fyrir mér c-lið 2. gr. Þar er verið að tala um útstillingar. Það má ekki auglýsa tóbaksvörur með útstillingum. Hvað felst í því? Eru það útstillingar í búðargluggum eða útstillingar í hillum? Þetta kann að skipta litlu máli en það skiptir máli fyrir þá sem eru í verslun. Mér finnst að löggjafinn eigi að hafa þetta algjörlega skýrt. Það er líka talað um að það eigi að banna notkun tóbaksvörumerkja. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé raunverulega hægt. Ég minnist þess að hafa séð sígarettutegundir og vindlategundir sem tengjast vörumerkjum sem eru þekkt fyrir allt aðrar vörur, eins og t.d Mercedes sígarettur og ég held Cartier vindla o.s.frv. Þetta eru ekki stór atriði en almennt eiga frv. að vera þannig úr garði gerð að þau séu afdráttarlaus. Síðan verð ég að segja herra forseti að ég er algjörlega mótfallin ákvæði 3. tölul. c-liðar í 2. gr. þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Bannað er að framleiða hér á landi tónlistarmyndbönd þar sem tóbaksneysla er áberandi.`` Væntanlega er þetta til þess að koma í veg fyrir þau áhrif sem slík myndbönd geta mögulega haft til að örva tóbaksneyslu unglinga og þeirra sem horfa á slík myndbönd. Er þá ekki alveg eins gott, herra forseti, að banna foreldrum barna undir vissum aldri að reykja vegna þess að þeir eru fyrirmyndir? Ég velti því líka fyrir mér að ef það er bannað að framleiða slík tónlistarmyndbönd hér á landi, er þá ekki bannað að sýna þau? Og ef það er ekki bannað að sýna þau hvað þýðir þetta þá? Það þýðir auðvitað ekkert annað en það að framleiðsla þessara myndbanda mun fara úr landi. Þau munu verða framleidd annars staðar. Ég velti því líka fyrir mér hvort þetta sé eitthvert vandamál. Ég beið eftir því í ræðu hæstv. ráðherra að hún reifaði þetta ítarlega en hún gerði það mjög lauslega. Hvaðan koma þær staðreyndir sem benda til þess að þetta sé vandamál? Ég viðurkenni að ég er að verða nokkuð aldurhniginn og eyði minni tíma en áður í að horfa á tónlistarmyndbönd svo ég get ekki um það dæmt hvort hér er um verulegt vandamál að ræða. En ég geri því skóna að hæstv. ráðherra, sem vill vera vönd að virðingu sinni, hafi eytt miklum tíma fyrir framan tónlistarmyndbönd og tali þess vegna af djúpri reynslu og geti hér á eftir upplýst okkur um það hvernig og hvers eðlis þetta vandamál er. En ég tel að við séum farin hér út á hættulega braut. Ef ekki má framleiða hér á landi tónlistarmyndbönd þar sem reykingar eru áberandi þá spyr ég hæstv. ráðherra: Má framleiða listrænar kvikmyndir þar sem reykingar eru áberandi? Má þá ekki ganga lengra og spyrja: Hvers vegna yfir höfuð að sýna myndir af reykingum eða fólki sem reykir í sjónvarpi? Svona gætum við haldið áfram og komist að þeirri niðurstöðu að þetta ákvæði gengur ekki, Það er ekki framkvæmanlegt. Ég er á móti þessu.

Herra forseti. Í 3. gr. er ákvæði 8.5. sem hljóðar svo, með leyfi forseta.

,,Bannað er að flytja inn, framleiða og selja munntóbak og fínkornótt neftóbak.``

Nú er það svo að rökin sem hæstv. ráðherra flutti fyrir þessu, a.m.k. hvað varðar munntóbakið, eru að það er bannað í Evrópu. Það er bannað samkvæmt einhverjum tilskipunum Evrópubandalagsins. Hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef ég fer með rangt mál. En er ekki rétt hjá mér að a.m.k. Svíar hafa fengið undanþágu vegna þessa? Ég nefni þetta ekki vegna þess að ég leggist gegn því að það sé bannað að selja og framleiða munntóbak heldur vegna þess að mér finnst röksemdafærslan ekki rétt. Ég vil sjá það alveg svart á hvítu að þetta sé skaðlegt. Ég dreg það ekki í efa vegna þess að ég veit það, ég hef kynnt mér það. En það kemur ekki vel fram í greinargerðinni. Hins vegar að því er varðar hið fínkornótta neftóbak þá vil ég segja hæstv. ráðherra eitt. Frv. hennar hefur þegar haft áhrif. Hún lagði fram frv. í ríkisstjórninni fyrir jól og ég bjóst við því sem formaður heilbr.- og trn. að fá það til umræðu miklu fyrr. Ég hafði í hjarta mínu ákveðið að leggjast gegn þessu ákvæði. En á þeirri stundu var ég þræll nikótínsins að því leyti, herra forseti, að ég tók fínkornótt tóbak í nefið. Svo ljóst væri að fíkn mín hefði ekki áhrif á meðferð mína og umfjöllun sem formanns þegar þetta frv. kæmi til umræðu, hætti ég að taka í nefið. Ég get viðurkennt það hér, herra forseti, að þó ég hafi verið með óráði í u.þ.b. viku, þá var þetta miklu léttara en ég hélt. Og að því leyti til hefur þetta frv. þegar haft ákveðið forvarnagildi. Formaður heilbr.- og trn. er hættur að taka í nefnið. Samt sem áður, herra forseti, þá vil ég sjá rökin fyrir því að þetta fínkornótta neftóbak sé skaðlegra en Íslendingurinn, mulinn og skorinn, sem áfram er leyft er að taka í nefið. Og ég sakna þess hér í þessari greinargerð að það kemur hvergi fram. Þegar ég fór á stúfana og reyndi að verða mér úti um upplýsingar um skaðsemi þessa tóbaks fann ég upplýsingar um skaðsemi munntóbaks. En ég hef ekki enn fengið upplýsingar um skaðsemi fínkornótts neftóbaks. Ég er á þessu stigi á móti þessu ákvæði. En ég lýsi því yfir að ég er reiðubúinn til að taka rökum ef hægt er að sýna mér fram á þetta. Mér finnst að hæstv. heilbrrh. hefði átt að gera það í greinargerðinni.

Ég vil að lokum, herra forseti, geta þess að það kom fram hjá hæstv. heilbrrh. að brögð væru að því að menn tækju fínkornótt neftóbak í vörina. Ég hef litið svo á að þeir sem taka neftóbak af þessu tagi í nefið séu kúltíveraðir heiðursmenn og það má rekja slíka neftóbaksneyslu allt til þess er fyrstu ensku laxveiðimennirnir fóru að koma hingað á síðustu öld. Ég hef aldrei þekkt nokkurn mann sem tekur neftóbak af þessu tagi í vörina. Það má vera að það gerist í Framsfl. en það gerist ekki í þeim hópum sem ég þekki.

Herra forseti. Þetta eru hlutir sem við munum fara yfir í heilbr.- og trn., en mér finnst þetta frv. á heildina litið mjög jákvætt. Þeir hlutir sem ég hef drepið hér á sem mér finnast neikvæðir eru lítils háttar hjá því gildi sem er að finna í meginefni frv. Ég sagði það fyrr í minni ræðu að ég er sammála meginefni frv. og ég vil ítreka að ég mun sem formaður heilbr.- og trn. leggja mig fram um að það takist að afgreiða þetta frv. og gera það að lögum á þessu þingi.