Tóbaksvarnir

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 15:47:15 (3077)

1996-02-15 15:47:15# 120. lþ. 91.2 fundur 313. mál: #A tóbaksvarnir# (aldursmörk, munntóbak, reyklaus svæði o.fl.) frv. 101/1996, MF
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[15:47]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að sjá þetta frv. hér einu sinni enn, en þar er fjallað um hertar varnir gegn tóbaksreykingum og notkun á tóbaksvöru. Það var heilmikil umræða um frv. sama efnis. Það hafa orðið ákveðnar breytingar á frv. frá því við vorum með það á síðasta þingi sem e.t.v. hafa verið settar inn til þess að ná fram meiri samstöðu um málið. Mig langar til að beina nokkrum spurningum til hæstv. ráðherra um framkvæmd þessara laga. Markmiðið er mjög gott og niðurstaða heilbr.- og trn., sem fjallaði um málið fyrir ári, var sú að það væri nauðsyn á breytingu á lögum um tóbaksvarnir. En það sem mér finnst vanta inn í þetta frv. er það hvernig hæstv. ráðherra hefur hugsað sér framkvæmdina. Þarna er um að ræða mjög víðtæk ákvæði eins og t.d. í 3. gr. þar sem fjallað er um bann við notkun á tóbaksvöru. Þar segir t.d. í lið 8.6.:

,,Ekki má selja tóbak í skólum, stofnunum fyrir börn og unglinga eða á heilbrigðisstofnunum.``

Í. 5. gr. eru upptaldir þeir staðir þar sem ekki má nota tóbak og er þá talað um ,,félagsmiðstöðvar og dagvistarstofnanir, skóla og aðrar stofnanir þar sem börn dvelja um lengri eða skemmri tíma.``

Ef maður síðan skoðar 8. gr. þar sem fjallað er um hverjir eigi að sjá um eftirlitið með framkvæmdinni þá eru það heilbrigðisnefndir á viðkomandi svæði, Vinnueftirlit ríkisins, Siglingamálastofnun ríkisins og Flugmálastjórn, sem er viðbót við það sem áður var. Ég sé ekki hvernig ætla má þessum stofnunum, t.d. heilbrigðisnefndunum, að sjá um eftirlit í heimahúsum því þarna er talað um börn í dagvist hjá dagmæðrum og sumardvalarheimili. Þá hlýtur það að gilda um heimili t.d. sem taka börn til sumardvalar á vegum Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar sem og öðrum stöðum. Hvernig eiga heilbrigðisnefndirnar að framfylgja þessu eftirliti og hverjum er ætlað að bera kostnaðinn?

Í athugasemdum með 5. gr., upptalningu á því hvar bannað er að nota tóbak, segir:

,,Með dagvistun barna er átt við skóladagheimili, sumardvalarheimili og aðrar sambærilegar stofnanir svo og gæslu barna í heimahúsum (hjá dagmæðrum).``

Þetta er mjög gott og þarft markmið. En þegar ég sé hvaða aðilar það eru sem eiga að sjá um að lögunum sé framfylgt, verði þetta samþykkt sem vonandi gengur eftir á þessu þingi, velti ég því fyrir mér hvernig á að gera t.d. heilbrigðisnefndunum kleift að framfylgja þessu eftirliti. Er það ætlað heilbrigðisfulltrúum á hverju svæði sem nú þegar hafa ærið að starfa? Og reyndar er kostnaðurinn af heilbrigðiseftirliti mjög mikill hjá samtökum sveitarfélaga víðsvegar um landið. Ef þessu verkefni verður bætt við og eftirlitinu framfylgt í raun, sem hefur kannski ekki verið gert, hvernig hefur hæstv. ráðherra þá hugsað sér að það sé gert og hvernig verður þeim kostnaði mætt?

Í 6. gr. er orðalagsbreyting á 14. gr. núgildandi laga í því skyni að árétta markmið fræðslunnar, þ.e. að draga úr tóbaksneyslu eins og segir í grg. með frv. Þar er talað um hlut félagasamtaka, sem hefur verið drýgri í þessari fræðslu en hlutur hins opinbera, að mikilvægt sé að styðja við bak þessara félagasamtaka og auka jafnframt tóbaksfræðslu af hálfu skólakerfisins og fjölmiðla.

Nú veit ég ekki hversu langt er hægt að ganga í því að skylda frjálsa fjölmiðla til þess að vera með fræðslu um skaðsemi tóbaksneyslu án þess að fjármagn fylgi með. En í frv. kemur jafnframt fram að fjármagn það sem verður til ráðstöfunar til tóbaksvarnastarfs mun verða um 20 millj. kr. á ári. Ég býst við því miðað við anda frv. að það fjármagn eigi að fara fyrst og fremst til frjálsra félagasamtaka og þá í samráði við tóbaksvarnanefnd. En ég sé ekki að skólakerfinu, ríkisfjölmiðlunum eða öðrum sem ætlað er að sjá um þessa fræðslu og þá kannski ekki síst heilsugæslunni í landinu, sé ætlað neitt fjármagn til þessa starfs. Það hefur komið fram í umfjöllun um starfsemi heilsugæslunnar að hún hefur vart fjármagn til þess að sinna sínu lögbundnu hlutverki og þessi þáttur starfseminnar hefur orðið út undan. Hér hefur ekki verið lagt fram neitt sérstakt fylgifrv. sem sýnir að þessum stofnunum, sem ætlað er fræðsluhlutverkið, sé ætlað meira fé.

Það kemur fram í umsögn fjmrn., fjárlagaskrifstofu, um frv. að tekjur ríkisins muni dragast óverulega saman. Þar segir í umsögn um 6. gr., með leyfi forseta:

,,Ef veita á fólki aðstoð við að hætta reykingum, svo sem með námskeiðum, kynningarefni o.fl., á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum sem ríkissjóður rekur mun slík starfsemi á almennum markaði væntanlega dragast verulega saman nema starfsemi ríkisins verði fjármögnuð með námskeiðsgjöldum.``

Þessi námskeið sem haldin eru í dag eru mjög dýr. Þau eru það dýr að það er mjög algengt að fólk veigri sér við að sækja þau vegna þess hversu hátt þátttökugjaldið er. Auk þess eru þau hjálparlyf sem í dag standa reykingafólki til boða, plástrar, tyggjó og nefúði, það dýr að það dregur úr möguleikum þeirra sem vilja hætta að reykja til að nýta sér þá aðstoð. Í frv. segir ekkert um að dregið verði úr þessum kostnaði. Þeir sem taka ákvörðun um að hætta að reykja og þurfa til þess aðstoð geta hugsanlega þurft að reikna þar með enn meiri kostnaði, og er hann þó ærinn fyrir.

Það kemur einnig fram í frv. að skólunum er ætlaður töluvert stór þáttur í þessari forvarnastarfemi sem er auðvitað sterkasti leikurinn til að koma í veg fyrir að ungmenni byrji að reykja. Nú stendur til að færa skólana yfir til sveitarfélaganna og ef ætlunin er að skólarnir sinni þessu lögbundna hlutverki af einhverjum myndarskap fyndist mér eðlilegt að gert verði ráð fyrir að til þess færu einhverjir fjármunir á ári hverju. Þær 20 millj. sem ætlaðar eru til þessa sérstaka forvarnastarfs segja lítið ef hver skóli á að fá framlög til þess að sinna starfseminni. Það þurfa því auðsjáanlega að koma til önnur framlög frá ríki eða sveitarfélögum og það ætti þá að taka inn í þann kostnað sem reiknað er með að lendi á sveitarfélögunum við það að færa skólana yfir til þeirra. Ég get ekki séð annað en að sveitarfélögin eigi að taka með þessu frv. við kostnaði af eftirlitinu með því að greiða fyrir störf heilbrigðisnefnda eða eftirlitsmanna á vegum heilbrigðisnefndanna.

Í 6. gr. er jafnframt gert ráð fyrir að skylda sú sem áður var hjá heilbrrn., og er hjá heilbrrn. skv. gildandi tóbaksvarnalögum, til að aðstoða þá sem vilja hætta að reykja er færð frá ráðuneytinu yfir til heilsugæslustöðvanna. Heilbrrn. hefur ekki sinnt þessari skyldu nema með framlögum til tóbaksvarnanefnda og einhverri fræðslu og einhverjum námskeiðum, fyrst og fremst fyrir börn og unglinga. Þarna er verið að færa skylduna frá heilbrrn. yfir til heilsugæslustöðvanna án þess að gera ráð fyrir því að heilsugæslustöðvarnar fái fjármagn til þess að standa undir þessari skyldu, sem er með samþykkt þessa frv. ótvíræð. Ég sé ekki betur en að hér sé verið að færa kostnað frá ráðuneyti yfir á heilsugæslustöðvarnar án þess að mæta þeim kostnaði á nokkurn hátt.

[16:00]

Markmiðið með þessum lögum er gott og ég hef áður tekið þátt í ítarlegri umfjöllun í heilbr.- og trn. um frv. til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir en mér finnst veikleiki frv. vera sá sami og var í frv. sem við höfðum áður til umfjöllunar. Markmiðið er gott, frv. er í sjálfu sér gott nema að því leytinu til að það er hvergi gert ráð fyrir því að mæta þeim kostnaði sem óhjákvæmilega verður við lagasetninguna og færist ýmist á sveitarfélögin eða ríkisstofnanir. Þegar við sjáum slík frv. koma hér inn aftur og aftur má efast um að hugur fylgi máli hjá hæstv. ráðherra eða ráðuneytinu vegna þess að það er ekki nóg að samþykkja lög. Við verðum að sjá til þess að hægt verði að framfylgja þeim.