Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 17:15:20 (3095)

1996-02-15 17:15:20# 120. lþ. 91.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[17:15]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Enda þótt umræðan um þessi frumvörp sé orðin nokkuð löng hefur þó ekki verið komið að ýmsum stórvægilegum atriðum. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að fjalla nokkuð um þau hér og m.a. leggja fyrir hæstv. viðskrh. nokkrar spurningar af því tilefni.

Nú háttar svo til að ég á þess ekki kost að gera það á öðrum tíma en þessum. Mér finnst því vænt um það og ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir að hann skuli geta verið hér svona síðla dags því ég veit að hann hefði átt að vera annars staðar.

Þau atriði sem ég vil nefna eru þessi:

Í fyrsta lagi. Það er látið í veðri vaka að með frv. þessu sé verið að stíga skref til að tryggja að útlendingar fái ekki aðgang að íslenskum fiskimiðum og geti sótt fisk til íslenskra fiskimiða sem þeir gættu flutt óunninn úr landi og verkað erlendis. En það er ekki svo, herra forseti. Þetta er mikill misskilningur. Þetta frv. tryggir það ekki því það tekur ekki af útlendingum þann rétt sem þeir hafa nú til að gera nákvæmlega þetta. Því hvaða útlendingur sem er, hvaða útlenskur fiskverkandi sem er getur fest kaup á fiski á íslenskum fiskmarkaði. Það eru engar hömlur á því. Hvaða útlendur fiskverkandi sem er getur fest kaup á fiski á íslenskum fiskmarkaði. En þá fer regluverkið í gang. Það er þannig að það eina sem þessi útlendi fiskverkandi má ekki gera við fiskinn sem hann kaupir á íslenskum fiskmarkaði, er að vinna hann á Íslandi. Honum er því skylt samkvæmt gildandi lögum að flytja fiskinn óunninn úr landi. Laga- og regluverkið eins og það er nú, ef það þá gerir eitthvað í þessum efnum, bannar alfarið hinum erlenda kaupanda sem er frjálst að kaupa fisk á íslenskum markaði, að hann láti vinna fiskinn hér á Íslandi. Hann verður að flytja fiskinn óunninn út. Þetta frv. breytir því þar með ekki að útlendingar hafa þegar öðlast beint aðgengi að hráefni af íslenskum fiskimiðum í gegnum íslenska fiskmarkaði. En slík viðskiptahöft erum við að setja á okkur sjálfa Íslendingar að við bönnum þessum útlendingi að gera nokkuð annað við aflann en flytja hann óunninn út. Hann má ekki láta vinna þennan afla sem honum er frjálst að kaupa á Íslandi á landinu sjálfu. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvað hefur þjóðin upp úr því að afhenda útlendingum svo óheftan aðgang að auðlind sinni sem er fiskveiðarnar á Íslandsmiðum að heimila þeim að kaupa aflann frjálst á íslenskum fiskmarkaði en skylda þá til að flytja fiskinn óunninn út til vinnslu í útlöndum? Hver er þá rentan sem þjóðin hefur af auðlind sinni? Hún er nákvæmlega engin. Þetta eru enn ein rökin fyrir því að hér á að taka upp veiðileyfagjald til að tryggja að útlendingar geti ekki keypt óunninn fisk á Íslandi eins og þeir geta nú og flutt hann til annarra landa til vinnslu án þess að þjóðin fái nokkuð í aðra hönd fyrir aðgang þessa aðila að auðlind þjóðarinnar. Og ég spyr hæstv. viðskrh.: Er ekki rétt að ástandið sé svona eins og ég hef lýst, að útlendingar séu frjálsir að því eins og hver íslenskur ríkisborgari að kaupa afla af Íslandsmiðum á íslenskum fiskmarkaði og síðan skyldaðir til að flytja hann óunninn út? Þannig stuðlar íslensk löggjöf beinlínis að því að útlendingar kaupi upp fisk veiddan af íslenskum höndum á íslenskum fiskimiðum, kaupi hann upp á íslenskum fiskmarkaði og flytji hann til vinnslu í útlöndum án þess að þjóðin fái nokkuð í aðra hönd. Það er því mesti misskilningur að hér sé verið að tryggja forræði og aðgang Íslendinga einna að auðlindinni.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra: Er það misskilningur að eigendur íslenskra útgerðarfyrirtækja og fiskvinnslufyrirtækja hafi frjálsan aðgang að erlendu fjármagni til uppbyggingar í atvinnugrein sinni að því tilskildu að um lánsfé sé að ræða? Svarið við því er nei. Sérhver eigandi útgerðarfyrirtækis og fiskvinnslufyrirtækis er frjáls að því að taka lán erlendis t.d. hjá viðskiptamönnum sínum til að framkvæma heima fyrir. Og ég spyr enn: Er nokkuð sem bannar hinum erlenda lánveitanda að setja hvaða skilyrði sem hann vill fyrir lánveitingunni, t.d. það skilyrði fyrir lánveitingunni til viðkomandi útgerðarmanns eða fiskverkanda að aflinn skuli sendur til hans óunninn eða hálfunninn? Svarið er aftur nei. Það er ekkert sem bannar það. Það er ekkert sem bannar það að útgerðarmaður íslensks fiskiskips taki lán hjá erlendum viðsemjanda sínum gegn því skilyrði að allur afli skipsins verði seldur óunninn úr landi. Það er heldur ekkert sem bannar að íslenskt framleiðslufyrirtæki í nýframleiðslu á sviði sjávarafurða, t.d. á sviði kúfiskvinnslu, taki lán hjá væntanlegum bandarískum viðsemjanda sínum til uppbyggingar á hinni nýju framleiðslu gegn því skilyrði að gera samning við hinn bandaríska dreifingaraðila til fimm eða tíu ára um að selja honum afurð sína og honum einum undir markaðsverði. Ég spyr: Hver er það sem hefur tökin á íslenskri útgerð í dag? Spyrjið þið útgerðarmennina hringinn í kringum landið. Hver er það sem stjórnar fyrirtækjunum þeirra? Eru það þeir eigendurnir? Nei, þið fáið alls staðar sama svarið. Það er bankinn. Bankinn á ekkert í viðkomandi útgerðum. Hann er ekki eigandinn en hann er lánveitandinn og lánveitandinn getur haft slíkt kverkatak á atvinnurekstrinum sem hann lánar í að það er hann sem stjórnar fyrirtækinu en ekki eigandinn. Það er þetta sem gerist í hinum eiginfjársvelta íslenska sjávarútvegi. Það er lánveitandinn sem stýrir honum og lánveitandinn getur ekki síður verið erlendur aðili en innlendur. Þessum mönnum er einum forsvarsmanna í íslensku atvinnulífi bannað að sækja sér erlent áhættufjármagn. Einir forsvarsmanna í íslensku atvinnulífi mega eigendur fiskvinnslufyrirtækja og sjávarútvegsfyrirtækja ekki sækja sér áhættufjármagn erlendis. Þeir eru einu forsvarsmenn fyrirtækja sem hafa ekki það traust frá stjórnvöldum að þeim sé treyst til að meta það sjálfir. En þeir mega sækja sér allt lánsfé til útlanda eins og þeir vilja með öllum þeim skilyrðum sem hinn erlendi lánveitandi setur, þar á meðal skilyrðum sem kunna að verða sett um að flytja afla óunninn úr landi. Hver er þá nokkru nær, herra forseti? Hver er þá nokkru nær, því hver stjórnar þá fyrirtækinu, hinn svokallaði íslenski eigandi eða hinn erlendi lánveitandi?

Þá eru ákvæði í 1. gr. stjfrv., tölul. 2, sem eiga að tryggja að aðild erlendra aðila í íslensku atvinnulífi í sjávarútvegi geti ekki orðið meiri en þar segir. Hv. þm. Kristján Pálsson og fleiri hafa flutt breytingafrv. við þessi ákvæði um það að fjárfestingar erlendra aðila í sjávarútvegsfyrirtæki megi vera allt að 49%. En það er þarflaust ákvæði, virðulegi forseti. Ég skal skýra það með mjög einföldu dæmi af hverju það er þarflaust. Það er þarflaust vegna þess að nú þegar samkvæmt þeim reglum sem gilda ef þetta frv. verður að lögum, geta erlendir aðilar eignast yfir 49% í íslensku sjávarútvegsfyrirtæki. Ég skal segja ykkur hvernig. Samkvæmt lögunum hafa erlendir aðilar leyfi til þess að vera 49% eigendur í íslensku eignarhaldsfyrirtæki á móti öðrum eignaraðilum að því. Það telst vera íslenskt fyrirtæki því erlendum aðilum er leyfilegt að eiga 49% í slíku fyrirtæki. Það telst vera íslenskt fyrirtæki. Það eignarhaldsfyrirtæki gæti keypt öll hlutabréfin í Olís. Olís gæti síðan keypt alla íslenska útgerð upp eins og hún legði sig. Það er ekkert sem hindrar það. Með óbeinni eignaraðild, þ.e. með því að skjóta einum millilið inn í, getur erlendur aðili eignast sem svarar 49% áhrifum og eign í öllum íslenskum útgerðarfyrirtækjum eins og er í dag. Er þetta rangt, herra viðskrh.? (Viðskrh.: Frv. gerir ráð fyrir því.) Frv. gerir ráð fyrir því, það er rétt. En með þessu móti geta útlendingar eignast 49% hlut í öllum íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum sama hvað sagt er í þessu ákvæði. (Gripið fram í.) Sama hvað sagt er í þessu ákvæði. Þetta hefur ekki heldur komið fram þannig að tillaga hv. þm. Kristjáns Pálssonar o.fl. er þarflaus.

Í fjórða lagi langar mig til að leggja spurningu fyrir hæstv. ráðherra. Á bls. 8 í athugasemd við einstakar greinar frv. er gert ráð fyrir því í umsögn um 1. gr. að undir fiskvinnslu þar sem erlend fjárfesting er bönnuð verði m.a. flokkuð niðursuða og niðurlagning sjávarafurða og önnur ótalin fiskvinnsla svo sem reyking á fiski o.s.frv. Þetta telst til iðnaðar. Þessar atvinnugreinar greiða iðnaðarmálagjald og þær falla undir iðnrn. samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands og reglugerð þar að lútandi. Fyrirtæki í þessari starfsgrein tilheyra Samtökum iðnaðarins. Ég spyr: Hvernig stendur á því að í þessu frv. eru þessi fyrirtæki allt í einu gerð að fyrirtækjum á vegum sjávarútvegsins sem erlend fjárfesting á að vera óheimil í? Við skulum taka dæmi sem lýsir mjög vel hvað hér er verið að gera. Tökum niðursuðuverksmiðjuna ORA hf. Hún framleiðir aðallega niðursoðið grænmeti. En það vill svo til að niðursuðuverksmiðjan ORA hf. framleiðir líka niðursoðnar fiskibollur í dós. Af því að niðursuðuverksmiðjan ORA hf. framleiðir niðursoðnar fiskibollur í dós er eigendum verksmiðjunnar óheimilt að nýta sér erlent fjármagn sem áhættufjármagn til starfseminnar. Hvað geta þeir gert til að standa jafnfætis öðrum iðnfyrirtækjum? Þeir geta gert tvennt. Þeir geta hætt að framleiða fiskibollur í dós, herra forseti. Þá teljast þeir ekki lengur vera óhreinu börnin hennar Evu og geta áunnið sér réttindi til að nýta sér erlent áhættufjármagn eins og önnur iðnfyrirtæki. Ef þeir vilja ekki hætta að framleiða fiskibollur í dós geta þeir gert samning við einhvern aðila um að selja þeim fiskinn, ekki nýjan heldur hraðfrystan því ef þeir nýta hraðfrystan fisk til að framleiða fiskibollurnar sínar í dós teljast þeir ekki fyrirtæki í sjávarútvegi samkvæmt þessari skilgreiningu heldur iðnfyrirtæki. Hvers konar rugl og vitleysa er það að vera búa til lög sem eru svona í reynd fyrir þá sem eiga eftir þeim að fara?

[17:30]

Þá vil ég víkja að því að í 1. gr. frv., 2. tölul., er gert ráð fyrir því, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, að allir aðilar á EES-svæðinu hafi jafnan rétt til að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum sem nýta sér orku landsins, allir jafnan rétt. Þetta þýðir það, herra forseti, að frá og með gildistöku þessara laga stendur ekkert í veginum fyrir því að t.d. erlent félag á EES-svæðinu keypti bæði Hitaveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitu Reykjavíkur einn góðan veðurdag, ef þær væru til sölu, og flyttu allan arðinn af starfsemi þessara fyrirtækja til útlanda, allan eins og hann leggur sig, án þess að íslenska þjóðin hefði nokkurn hag af virkjun þessara auðlinda. Og Alþb. segir ekki neitt. Ég er búinn að bíða eftir því hér allan þann tíma sem þetta mál hefur verið til umræðu að upp risi Alþb. og segði: Hvað er hér að gerast? Það er verið að afhenda útlendingum innan EES-svæðisins ekki bara frumburðarréttinn til fiskimiðanna í gegnum íslensku fiskmarkaðina heldur sama rétt og Íslendingum til að fjárfesta í orkuvinnslufyrirtækjum. Alþb. segir bara ekki neitt. Kannski er ástæðan sú að það hefur komið í ljós að Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað er það íslenska fyrirtæki sem hefur mesta hlutdeild erlendrar eignar af öllum sjávarútvegsfyrirtækjum í landinu. Það er nokkuð merkilegt að það fyrirtæki skuli vera --- í hvaða bæ? Í Neskaupstað þar sem Alþb. hefur ráðið í 50 eða 60 ár. Eitt af þeim íslensku fyrirtækjum sem er með hlutfallslega mesta erlenda eignaraðild. Það er von að menn þegi sem að því standa þegar þetta gerist á sama tíma. Hvar er nú Alþb. með hið vakandi auga sitt yfir óðulum feðranna? Þetta þýðir auðvitað að jafnhliða því og þetta ákvæði gengur í gegn þá verður að gera tvennt:

Í fyrsta lagi að treysta þjóðareign á auðlindum í jörðu. Við alþýðuflokksmenn munum leggja slík frumvörp fram á næstu dögum og mér er kunnugt um að hæstv. iðnrh. er að vinna að því að ná samkomulagi í ríkisstjórninni um sambærilegar aðgerðir. Það verður að fylgja. Það verður að fylgja á þeim tíma þegar verið er að veita útlendingum jafnan rétt og Íslendingum til þess að hagnýta sér íslensk fiskimið í gegnum fiskmarkaði og til þess að fjárfesta í fyrirtækjum sem vinna orku úr iðrum eða fallvötnum jarðar. Það verður að gera.

Í öðru lagi, til þess að tryggja að afrakstur slíkra auðlinda verði ekki fluttur úr landi án þess að íslenska þjóðin hafi nokkrar rentur af þeim auðlindum, þá verður að innleiða veiðigjald, auðlindaskatt í sjávarútvegi og afnotagjald, auðlindaskatt í nýtingu jarðvarma og orku fallvatna. Þetta verður að gera hvort tveggja, öðruvísi gengur dæmið ekki upp. Ég er undrandi á því að í öllum þeim löngu umræðum sem orðið hafa hér á Alþingi um þessi mál þá hefur aldrei verið minnst á þau atriði sem ég hef gert hér að umræðuefni, aldrei. (Gripið fram í: Veiðileyfagjald.) Eru þau nú ekki smá sum hver.

Að lokum, virðulegi forseti. Þar sem ég á lítinn tíma eftir vil ég spyrja hæstv. iðnrh. Frv. heitir frv. til laga um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Hvenær fjárfestir erlendur aðili í atvinnurekstri? Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fjárfestir aðili í atvinnurekstri þegar hann sækist eftir að hafa stjórnunarleg áhrif í viðkomandi fyrirtæki. Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fylgir og fylgt er hér á landi þá gerist það ekki fyrr en við þau mörk að um sé að ræða að aðilinn sé að kaupa 10% eða meiri hlutdeild í viðkomandi fyrirtæki. Þannig er erlend fjárfesting í atvinnurekstri á Íslandi skilgreind, m.a. af Seðlabankanum. En þessa skilgreiningu vantar í frv. Það þýðir að önnur viðskipti eins og á hlutabréfamarkaði, þar sem menn eru fyrst og fremst að kaupa hlutabréf, erlendir aðilar eða innlendir, ekki til þess að ná stjórnunarlegum áhrifum í fyrirtækjum heldur til að ávaxta fé sitt og ekki er talin vera fjárfesting í atvinnurekstri samkvæmt reglum IMF eða þeim reglum sem Seðlabanki Íslands fer eftir við mat á fjárfestingum erlendra aðila á Íslandi, þá þýðir þetta það, af því að þetta er ekki skilgreint í frv., að það er verið að koma í veg fyrir að erlendir fjárfestar geti tekið þátt í eðlilegum hlutabréfaviðskiptum á hlutabréfamarkaði á Íslandi, t.d. keypt sér hlutdeildarbréf í hlutabréfasjóðum sem ekki stafar af því að hinn erlendi fjárfestir sé að reyna að ná stjórnunarlegum ítökum í tilteknum atvinnufyrirtækjum heldur er hann eingöngu að ávaxta fé sitt eðlilega á hlutabréfamarkaði. Það er engin skilgreining í frv. gerð á þessu, engin skilgreining á því hvað samkvæmt frv. telst fjárfesting í atvinnurekstri og hvað telst eðlileg ávöxtun erlends aðila á hlutabréfamarkaði eða verðbréfamarkaði á Íslandi.

Þetta verður til þess, virðulegur forseti, að lögin verða óframkvæmanleg. Ég er alveg að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. Ég spyr: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að framkvæma lögin með þessum hætti? Því ef hann framkvæmir þau eins og þau hljóða í frumvarpsgerðinni sem er frá honum komin, þá er hann að vinna gegn sínu eigin markmiði sem hann hefur lýst yfir að eigi að vera það að laða erlenda fjárfesta til þess að taka þátt í íslenskum verðbréfamarkaði, ekki í því skyni að ná undirtökum í tilteknum atvinnufyrirtækjum heldur til þess að ávaxta fé sitt í viðskiptum með almenn hlutabréf og hlutdeildarbréf í hlutafjársjóðum o.s.frv. Eins og frv. er úr garði gert þá gengur það ekki upp. Það er ekki hægt að framkvæma það því hæstv. ráðherra hefur láðst að skilja á milli þess hvað telst vera fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri og hvað teljast vera eðlileg viðskipti á verðbréfamarkaði á Íslandi.