Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 17:37:39 (3096)

1996-02-15 17:37:39# 120. lþ. 91.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[17:37]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Við þessa umræðu hefur verið beint til mín nokkrum spurningum. Mér gefst tækifæri til þess síðar að svara þeim þingmönnum sem því miður eru ekki viðstaddir umræðuna núna og reyni þá að svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint. En af því að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er staddur hér og aðstæður eru þannig þá vil ég fyrst og fremst einskorða mig við að svara því sem hér hefur komið fram.

Í þessari umræðu hefur verið látið að því liggja að með frv. sé engin breyting að eiga sér stað á lögum um erlenda fjárfestingu. Það er auðvitað rangt. Með frv. er verið --- og það veit ég að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson veit --- að aðlaga erlenda fjárfestingu að þeim aðstæðum sem uppi hafa verið hér um nokkurn tíma vegna þess að staðreyndin er sú að lögin frá 1991 hafa verið óframkvæmanleg eins og þau voru úr garði gerð. Þannig erum við með þessu frv. að stíga ákveðin skref.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um lýsingu hv. þm. á því hvaða möguleikar séu fyrir erlenda aðila að kaupa hér á mörkuðum, hvaða aðgang þeir geti haft í gegnum fyrirtæki og í gegnum útgerðir með erlendu fjármagni. Ég tek undir og staðfesti að lýsingar hv. þm. í þeim efnum eru réttar. Þetta eru þeir möguleikar sem eru fyrir hendi.

Ég sný mér þá að þeim spurningum sem hv. þm. bar fram. Hann spurði fyrst hvers konar rugl og vitleysa það eiginlega væri að vera með niðursuðuna, reykinguna og niðurlagninguna í þessu frv., þær greinar sem í raun og veru séu skilgreindar sem iðnaður og greiða iðnaðarmálagjald. Þetta er eitt af því sem nefndin sem var með frv. til umfjöllunar í sumar fjallaði sérstaklega um. Niðurstaða nefndarstarfsins varð sú að skilgreina þessa hluti með þeim hætti að þessar iðngreinar skyldu falla þarna undir af því að þær tengdust íslenskum sjávarútvegi. En á móti verð ég að spyrja hv. þm. hvers konar rugl það hafi verið hjá hv. þm. í hans tíð sem hæstv. viðskrh. að leggja fram frv. með nákvæmlega þessum sömu ákvæðum hér fyrir síðasta þing. Vegna þess að frv. er að þessu leyti algjörlega óbreytt frá tíð fyrri ríkisstjórnar þar sem þessir þættir voru nákvæmlega skilgreindir með sama hætti. Ég get hins vegar tekið undir það að mér finnst rétt að þessir hlutir séu skoðaðir vegna þess, og ég tek undir það með hv. þm., að þarna er frekar um iðngreinar að ræða heldur en um beinar sjávarútvegsgreinar. Niðurstaða nefndarstarfsins varð hins vegar sú, eins og ég veit að hefur líka gerst í tíð fyrri ríkisstjórnar, að menn töldu rétt að þetta skyldi skilgreint sem vinnsla sjávarafurða. Ég valdi þann kost að flytja frv. óbreytt með þeim tillögum sem nefndin komst að á sínum tíma.

Í öðru lagi spurði hv. þm. um jafnan rétt erlendra aðila til að fjárfesta hér í orkunni. Það hefur legið fyrir. Ég gerði glögga grein fyrir því að ég tel í framsögu minni með frv. Um síðustu áramót rann sá takmarkaði tími út sem við gátum varist því að aðilar af Evrópska efnahagssvæðinu gætu fjárfest hér í orkunni. Það var tímabundinn fyrirvari. Ég tek undir það með hv. þm. að það er mikilvægt að lög um eignarhald á auðlindum í jörðu og lög um virkjunarrétt fallvatna komi fyrir þingið og verði samþykkt vegna þess að þau eru hluti af þessu máli. Það veit ég að einstakir hv. þm. vita að þetta er mál sem hefur verið hér mjög til umfjöllunar og um það eru skiptar pólitískar skoðanir. Ég tel hins vegar að undirbúningur í tíð fyrri ríkisstjórnar og undirbúningur margra þingmanna í þessum efnum hafi skilað okkur fram á við við undirbúning málsins. Þetta er nú til umfjöllunar hjá ríkisstjórninni í nefnd sem ríkisstjórnarflokkarnir komu sér saman um að setja á fót og ég gerði hér grein fyrir bæði í nóvember, ef ég man rétt, og svo aftur við fyrirspurn hv. þm. Hjörleifs Guttormssnar fyrir stuttu síðan hvað framkvæmd þessa máls liði. Þetta er í undirbúningi af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég vonaðist reyndar til þess að geta strax að loknu jólaleyfi lagt þessi frv. fram í þinginu og fengið þau samþykkt á þessu þingi. Ég skal viðurkenna að ég er svartsýnn á að ég fái þau samþykkt en áform mín eftir sem áður eru þau að geta lagt málið fram hér til kynningar á þessu þingi.

Þriðja spurning sem kom frá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni varðandi skilgreininguna á því hvað teldist vera fjárfesting í atvinnurekstri. Það kann vel að vera að mönnum hafi sést yfir það --- ég mun láta kanna það áður en 1. umr. lýkur hvort slíkar skilgreiningar séu nauðsynlegar eins og hv. þm. kom hér inn á áðan, að það sé nauðsynlegt að koma þeim hér inn í frv. og þá finnst mér sjálfsagt að það verði tekið til skoðunar þegar málið er komið til nefndar. Þá vísa ég í það sem ég hef áður sagt að með þessum hætti lá frv. líka fyrir í tíð fyrri ríkisstjórnar. Það hefur ekkert breyst hvað þetta snertir síðan þá. Þá hefðu þessar skilgreiningar auðvitað líka þurft að liggja fyrir.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þegar þetta frv. er orðið að lögum þá gefi það kost á því að framfylgja lögunum. Það er auðvitað það sem menn hafa kannski skotið sér undan allt síðan árið 1991 að framfylgja gildandi lögum um erlenda fjárfestingu í atvinnurekstri. Þetta frv. verður hins vegar tæki til þess að framfylgja því að við þessa óbeinu fjárfestingu sé staðið. Með þessu frv. er verið að stíga mikilvægt skref að mínu viti í þá veru að tryggja að ekki verði um beina fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegi að ræða en settar leikreglur um það hvernig erlenda fjárfestingin geti átt sér stað.