Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 18:16:20 (3102)

1996-02-15 18:16:20# 120. lþ. 91.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[18:16]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka það fram til þess að leiðrétta misskilning að ég vék úr salnum ekki af virðingarleysi við hv. þm. heldur til þess að þakka hæstv. viðskrh. að hann skyldi geta gefið sér tíma til að taka þátt í þessari umræðu því hann átti að vera bundinn annars staðar.

Í öðru lagi held ég að það fari ekki fram hjá neinum sem hefur setið á Alþingi jafnlengi og hv. þm. að það var Alþfl. sem fyrstur flokka á Alþingi lagði fram tillögur og þingmál um þjóðareign á landi og landgæðum og stóð einn að því í mörg ár. Hv. þm. ætti að minnast þess hver það var sem á frumburðarréttinn í þessu efni. Ég ætla ekki að gera lítið úr frumvarpsflutningi hv. þm. sem er þannig til kominn eins og hann veit og aðrir þingmenn að það frv. var unnið í iðnaðarráðherratíð hans en hann fékk það ekki samþykkt. Það er ekkert við því að segja. Ég er mjög ánægður með að sjá að hann og hans flokkur fylgdu þar í fótspor Alþfl. sem var fyrstur flokka til að taka slík mál upp á Alþingi en það skiptir ekki meginmáli. Meginmáli skiptir að við erum samferða og sammála í þessu efni.

En hvers vegna var hv. þm. svona óskaplega reiður? Ég gaf hv. þm. ekkert tilefni til þess. Skyldi það ekki hafa verið vegna þess að ég vakti athygli á því að í frv. væri gert ráð fyrir því að allir aðilar á EES-svæðinu öðluðust sama rétt og Íslendingar til að fjárfesta í fyrirtækjum í orkuvinnslu og að Alþb. hefði lítið sem ekkert um það fjallað í sínum ræðum, löngum og mörgum, hér á þinginu fram að þessu í umræðum um þetta mál? Og skyldi síðan ekki hafa kastað tólfunum þegar ég vakti athygli á þeirri athyglisverðu staðreynd án þess að hún segði nokkuð meira en það sem hún segir að fyrirtæki á Norðfirði í eigu almennings, Síldarvinnslan, sé eitt af þeim fyrirtækjum á Íslandi sem hefur langhæsta óbeina eignaraðild útlendinga? Það hefðu nú einhvern tímann þótt tíðindi að það fyrirtæki sem væri á toppnum um óbeina eignaraðild útlendinga í atvinnurekstri væri á Norðfirði. Skyldi það ekki, virðulegur forseti, hafa valdið því að hv. þm. varð svona reiður.