Færsla grunnskólans til sveitarfélaga

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 15:08:59 (3115)

1996-02-19 15:08:59# 120. lþ. 92.91 fundur 192#B færsla grunnskólans til sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:08]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Á stjórnarfundum beggja kennarafélaganna var á föstudaginn ákveðið að félögin drægju sig út úr öllu samstarfi um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Lýsa þau fullri ábyrgð á hendur stjórnvalda. Jafnframt kemur fram í ályktun þeirra að verði af flutningi við þessar kringumstæður sé það í fullri andstöðu við kennarafélögin sem líta svo á að þar með séu kjarasamningar lausir 1. ágúst. Af framansögðu má vera ljóst að það ríkir engin eining lengur um flutning grunnskólans til sveitarfélaganna.

Að þessari miklu breytingu á högum grunnskólans, sveitarfélaganna, nemenda og ekki síst kennara, sem með þessari framkvæmd hætta að vera ríkisstarfsmenn og verða starfsmenn sveitarfélaganna, hefur nú verið unnið í nokkur missiri. Nánast sást fyrir endann á þeim ákvörðunum sem taka þurfti af hálfu ríkis og sveitarfélaga ef marka mátti fréttir. Þannig hafði verið samið um réttindamál kennaranna þegar þeir yrðu starfsmenn sveitarfélaganna og liggur nú frv. þess efnis á borðum okkar þingmanna í dag. Einnig hefur mikil vinna farið fram til að undirbúa að sveitarfélögin tækju að sér þá stoðþjónustu sem skólarnir, nemendur og fjölskyldur þeirra eiga rétt á samkvæmt lögum. Þá hafði mikil umræða og fræðsla farið fram um starfsemi grunnskólans innan sveitarfélaganna og þær skyldur sem þessi breyting hefði í för með sér þannig að grunnskólinn og það starf sem þar er unnið og á að vinna var virkilega komið í brennipunkt umræðunnar. Einnig var búið að skipa nefnd af hálfu ríkisins og sveitarfélaganna til að útkljá fjárhagsskiptin, þ.e. hve miklir tekjustofnar fylgdu verkefninu. Þannig má segja og öllum má vera ljóst að sveitarfélögin hafa lagt alla orku sína í það undanfarin missiri að undirbúa sig fyrir þetta stóra verkefni og ótaldir eru fundirnir og ráðstefnurnar sem lagðar hafa verið undir málefnið. Kennararnir hafa jafnframt fúslega tekið þátt í því starfi sem að þeim hefur snúið og þannig gert sitt til að vel mætti til takast.

En nú er sem sagt allt í uppnámi. Og verði af flutningi verður það samkvæmt nýjustu fréttum í fullri andstöðu við þá starfsmenn sem flutningurinn snýst fyrst og fremst um, þ.e. kennarana. Við hljótum því að kalla eftir viðbrögðum hæstv. menntmrh. og skýringum á því ástandi sem upp er komið.

Hæstv. fjmrh. lætur hafa þá skoðun eftir sér í dagblaði um helgina að kennararnir ætli sér með þessu að taka yfirfærslu grunnskólans í gíslingu til að knýja fram breytingar í öðrum efnum. Er hæstv. menntmrh. einnig þeirrar skoðunar? Allt er þetta með ólíkindum og atburðarásin óheppileg svo vægt sé til orða tekið.

Er það virkilega þannig að ríkisstjórnin sé ekki áhugasamari en svo um flutning þessa verkefnis og að hann gangi vel fyrir sig en að hæstv. fjmrh. er gerður út með rauða dulu til að veifa framan í kennarafélögin á viðkvæmasta tíma, þ.e. frv. til breytinga á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, frv. til laga um breytingu á lífeyrissjóði opinberra starfsmanna og frv. til laga um samskiptareglur á vinnumarkaði? Allt á sama tíma og allt mál sem félögin meta sem skerðingu á réttindum en auknar skyldur. Minna mátti nú gagn gera.

Samkvæmt viðbrögðum hæstv. fjmrh. mætti hins vegar ætla að um væri að ræða mál sem starfsmönnum komi ekki við. Er hæstv. menntmrh. einnig á þeirri skoðun? Er þetta þá e.t.v. forsmekkurinn að því samstarfi sem ríkisstjórnin hyggst hafa við launafólk varðandi áðurnefnd frv.?

Þær eru margar spurningarnar sem brenna núna á öllum þeim sem koma grunnskólar landsins við og þeir eru býsna margir auk kennaranna. Hvað verður ef áformaðar breytingar brotlenda endanlega? Varaformaður Sambands sveitarfélaga lét þau ummæli falla á fundi um helgina að mat hans væri það að ef ekki yrði af flutningnum nú eins og áformað hafði verið þá gæti orðið margra ára bið á því með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir grunnskólann. Er hæstv. menntmrh. sammála því mati varaformanns Sambands sveitarfélaga? Var í samskiptum við kennarana um algert vanmat á stöðunni að ræða af hálfu ríkisstjórnarinnar, einberan klaufaskap sem verður leiðréttur? Eða stendur til að keyra málin í gegn hvað sem raular og tautar? Nógur er meiri hlutinn ef ríkisstjórnin hefur tekið sínar ákvarðanir. En hefur hún það? Þetta eru þær spurningar sem hæstv. menntmrh. verður að svara.