Færsla grunnskólans til sveitarfélaga

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 15:27:09 (3120)

1996-02-19 15:27:09# 120. lþ. 92.91 fundur 192#B færsla grunnskólans til sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:27]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Hér er vakin athygli á máli. Það virðist vera að ríkisstjórnin stefni samskiptum við verkalýðsfélög og sveitarstjórnir í óefni. Vitaskuld gengur ekki að kveðið sé á um að samningsatriði séu útkljáð í lögum eins og hér virðist vera. Ég vil hins vegar, herra forseti, ræða í tengslum við þessa umræðu þá lítilsvirðingu sem Alþingi er sýnt með því að ríkisstjórnin ræðir hver frumvarpsdrögin á fætur öðrum við hagsmunaaðila án þess að þessi mál komi inn í þingsali. Ég bendi á frumvarpsdrög um þetta mál sem rætt er af hálfu hæstv. fjmrh. Hæstv. félmrh. er með í undirbúningi löggjöf um réttindamál, viðskrh. um hlutafjárvæðingu banka, samgrh. um hlutafjárvæðingu Pósts og síma. Öll þessi frv. eru rædd í smáatriðum við hagsmunaaðila sem eiga vitaskuld að koma að málinu þegar þingið er að fjalla um það. Hina pólitísku umræðu ber vitaskuld að taka á hinu háa Alþingi.

Ég bið hæstv. forseta um að reyna að grípa í taumana. Hér er pólitísk umræða á villigötum. Þetta er lítilsvirðing af hálfu ríkisstjórnarinnar ekki einungis gagnvart stjórnarandstöðunni heldur einnig gagnvart stjórnarþingmönnum. Hér þarf að verða bragarbót á vinnubrögðum því að vitaskuld á hin pólitíska umræða um stefnu ríkisstjórnarinnar að fara hér fram en ekki vera búið að taka forskot á þá umræðu áður en mál eru lögð fram á hinu háa Alþingi.