Færsla grunnskólans til sveitarfélaga

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 15:36:33 (3124)

1996-02-19 15:36:33# 120. lþ. 92.91 fundur 192#B færsla grunnskólans til sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:36]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér í þessa umræðu einfaldlega vegna þess að mér var kunnugt um að til stendur að halda hér utandagskrárumræðu á morgun um störf þingsins, þar með þau frv. sem hafa verið boðuð hingað inn á borð. En mig langar til að gera athugasemdir við það sem kom fram í máli hæstv. fjmrh. áðan þegar hann talaði um æviráðningu opinberra starfsmanna, biðlaunarétt og önnur réttindi sem þyrfti að taka á ,,með eðlilegum hætti`` eins og hann orðaði það.

Í fyrsta lagi er ég orðinn svolítið þreyttur á þessu áróðursbragði gagnvart æviráðningunni sem var afnumin hér fyrir löngu síðan nema í undantekningartilvikum. Allflestir opinberir starfsmenn eru ráðnir með þriggja mánaða uppsagnarfresti og sumir búa við miklu skemmri uppsagnarfrest en því nemur. Sumir eru ráðnir meira að segja til mjög skamms tíma. En hvernig hyggst ríkisstjórnin taka á þessum réttindamálum ,,með eðlilegum hætti``? Það hefur verið að birtast okkur núna undanfarna daga í frumvarpsdrögum sem hafa verið kynnt samtökum launafólks. Þar erum við að tala um samskiptareglur á vinnumarkaði, réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og lífeyrisréttindi. Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. fjmrh. að ríkisstjórnin hefur talað um að slík frumvörp væru á döfinni en hæstv. fjmrh. sagði að þau yrðu væntanlega sett fram í haust. Hið sama gegnir um lífeyrissjóðsfrv. Þar var einnig talað um í byrjun árs að breyting yrði gerð á lífeyrissjóðslöggjöfinni í lok ársins, ekki núna. Nú er hins vegar talað um að leggja þessi frv. fram um næstu mánaðamót, frv. sem boða róttæka réttindaskerðingu hjá almennu launafólki og sendir okkur aftur á síðustu öld. Ef þetta er að taka á málum ,,með eðlilegum hætti`` þá vakna margar spurningar sem við fáum vonandi tækifæri til að ræða hér við utandagskrárumræðu á morgun.