Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 15:45:29 (3127)

1996-02-19 15:45:29# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:45]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Umræður um þessi þrjú frv. hafa nú staðið nokkuð lengi, með hléum þó. Engu að síður hafa þær verið áhugaverðar og ýmislegt nýtt komið fram með hverri ræðu þannig að mér finnst að þingið hafi ekki varið sínum tíma illa í að ræða þetta mál. Það eru margir fletir á því og greinilegt að ekki kemur allt fram við fyrstu skoðun. Ég vil fyrst, virðulegi forseti, láta í ljósi þá skoðun að ég tel að umræðan fram til þessa hafi verið mjög gagnleg og vænti þess að svo verði enn um sinn þó hún standi eitthvað í dag.

Ég vil fyrst víkja að því sem fram kom í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar til að fá betri skýringar á þeirri skoðun sem hann setti fram varðandi eignarhlut Olís í Síldarvinnslunni og þeirri stöðu að ef stjfrv. næði fram að ganga yrði Olíufélagið að selja hlut sinn í Síldarvinnslunni ella búa við ólögmætt ástand. Eins og málið horfir við mér er það þannig að hafi þessi erlenda eignaraðild í Olís verið fyrir hendi við gildistöku þeirra laga sem hér er lagt til að breyta í stjfrv. þá er ákvæði til bráðabirgða í því sem kveður á um að lögmætt sé að um áframhaldandi eignaraðild verði að ræða. Með öðrum orðum er ekki kvöð um að selja þann hlut þótt lögin frá 1991 hafi tekið gildi á sínum tíma. Það er að finna í sérstöku ákvæði til bráðabirgða við þau lög.

Mér sýnist af stjfrv. að ekki sé gert ráð fyrir því að fella brott ákvæði til bráðabirgða þannig að þá er málið eins og ég sé það að hafi þetta verið lögmætt frá og með gildistöku laganna 1991 þá verður það áfram lögmætt ef svo fer að stjfrv. verður samþykkt. Með öðrum orðum breytir stjfrv. ekki ástandinu. Hafi eignaraðildin verið ólögmæt verður hún áfram ólögmæt ef þetta frv. nær fram að ganga. Ég sé ekki að núverandi stjfrv. breyti stöðunni frá því sem nú er. Það sem hefur verið lögmætt á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða verður það áfram þar sem sú erlenda eignaraðild sem ekki fellur undir það ákvæði er ólögmæt og verður það áfram eftir að stjfrv. sem hér liggur fyrir hefur náð fram að ganga. Ég get því ekki tekið undir niðurstöðu hv. þm. Ágústs Einarssonar að stjfrv. breyti einhverju í þessu efni eins og hann nefndi. Ég bið hann að útskýra það fyrir mér ef ég hef ekki náð samhenginu rétt í því máli. Ég vil segja að ef eignarhlutinn í Olís hefur komið til eftir að lögin frá 1991 sem nú eru í gildi voru sett, hefur verið um ólögmætan eignarhluta að ræða. Ef svo er þá finnst mér furðulegt að það hafi verið liðið í nærri fjögur ár að lög væru brotin og því tilefni til að fá fram sérstakar skýringar af hálfu þeirra ráðherra sem með þetta fara, hæstv. sjútvrh. og hæstv. viðskrh. Þeir munu væntanlega koma sínum athugasemdum og skýringum um þetta á framfæri undir lok umræðunnar.

Þá vil ég víkja að þeim tveimur frumvörpum sem rædd eru samhliða stjfrv. Þau eru ólík stjfrv. að því leyti að þau gera bæði ráð fyrir því að um geti verið að ræða beina eignaraðild og eru þar af leiðandi verulega á skjön við stjfrv. Ég er ekki sammála þeirri röksemd sem komið hefur fram af hálfu flutningsmanna annars þingmannafrv., þ.e. sjálfstæðisflokksþingmannanna fjögurra, að ef þeirra frv. um beina eignaraðild nái ekki fram að ganga geti þeir stutt stjfrv. sem bannar beina eignaraðild. Mér finnst þetta mjög órökrétt niðurstaða. Þeir leggja sitt frv. fram eftir að stjfrv. hefur verið lagt fram hér á þinginu. Þeir gera það væntanlega vegna þess að þeir eru ósammála stjórnarfrv. sem kveður á um það að áfram verði bönnuð bein eignaraðild að tilteknum sjávarútvegsfyrirtækjum. Þeir leggja því fram sitt frv. um að hnekkja þeirri stefnu og leyfa beina eignaraðild. Verði þeirra frv. fellt, þ.e. nái þeirra sjónarmið ekki fram að ganga, sé ég ekki hvernig þeir eiga að geta stutt stjórnarfrv. því hvort gengur á móti öðru. Það er ekki hægt að mínu viti að segja já við báðum frumvörpunum ef menn vilja hafa samræmi í skoðunum sinni. Ég vil því leggja þá spurningu fyrir þá og biðja þá um að rökstyðja skoðanir sínar betur en fram hefur komið, hvernig þeir hugsa sér að greiða atkvæði eða rökstyðja það að styðja stjfrv. ef þeirra tillaga nær ekki fram að ganga. Miðað við þá skoðun sem þeir setja fram í sínu frv. hljóta þeir að ætla að greiða atkvæði gegn stjfrv. Þingmannafrv. hefði ekki verið lagt fram nema vegna þess að þeir eru ósammála stjfrv.

Virðulegi forseti. Ég hefði talið nauðsynlegt að einn af flutningsmönnunum sem er formaður þeirrar nefndar Alþingis sem fær frv. þrjú til meðferðar, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, væri hér við umræðuna til að svara spurningum sem ég vil til hans beina. Því spyr ég virðulegan forseta hvort þingmaðurinn er hér í húsinu.

(Forseti (ÓE): Hvaða þingmaður?)

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson. (Gripið fram í: Formaður efh.- og viðskn.)

(Forseti (ÓE): Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er ekki í húsinu og ef forseti man rétt þá er hann með fjarvistarleyfi.)

Það er bagalegt, virðulegi forseti, að formaður þeirrar nefndar sem á að taka málið til umfjöllunar skuli ekki geta verið við þessa umræðu. En það er enn verra að sá sami maður sem einn af flutningsmönnum skuli ekki geta verið við til að svara spurningum sem til hans kann að vera beint. En ég vil bera fram mína fyrirspurn og vænti þess að forseti gæti að því að haga framhaldi umræðunnar þannig að þingmaðurinn geti svarað fyrirspurninni. Fyrirspurn mín til hv. þm. Vilhjálms Egilssonar er þessi: Mun hann beita sér fyrir því að frv. þar sem hann er einn af flutningsmönnum verði afgreitt úr efh.- og viðskn. á undan stjfrv.? Það hlýtur að vera lykilatriði í þessu máli að fá að vita hvort formaður nefndarinnar og einn af flutningsmönnunum muni beita sér fyrir því að hans mál verði afgreitt úr nefndinni á undan stjfrv. Það er nauðsynlegt að fá botn í það áður en lengra er haldið í umræðunni hvernig formaður nefndarinnar og oddviti stjórnarliðsins í nefndinni hyggst halda á umfjöllun málanna í nefndinni. Það væri að mínu viti ekki rökrétt afgreiðsla að leggja þingmannafrv. fram, vísa því til nefndar og láta það svo liggja þar en einungis koma frá nefndinni afstöðu til stjfrv. Ég hygg að flutningsmenn þingmannafrv. sem þingmenn Sjálfstfl. standa að geti ekki staðið þannig að málum að leggja fram frv. sem hafnar meginstefnu stjfrv. um að banna beina eignaraðild í sjávarútvegi en afgreiða svo frá nefndinni bara það frv. sem bannar beinu eignaraðildina og leggja til að það verði samþykkt. Ég tel að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson geti ekki lagt það til í nefndaráliti að stjfrv. verði samþykkt, að áfram verði bönnuð bein eignaraðild í sjávarútvegi þegar hann sjálfur hefur lagt til að hún verði leyfð. (Gripið fram í.) Það gefur auga leið. Það er því ljóst, virðulegi forseti, að stjórnarliðið í efh.- og viðskn. er í verulegri upplausn af því að tveir af flutningsmönnum þingmannafrv. Sjálfstfl. sitja sem fulltrúar flokksins í nefndinni. (Gripið fram í) Það er því ekki sjáanlegur meiri hluti af hálfu stjórnarliðsins fyrir stjfrv. í efh.- og viðskn.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að sjálfstæðisþingmennirnir sem standa að flutningi frv. á þskj. 547 muni gera grein fyrir afstöðu sinni til þeirra atriða sem ég hef reifað og svara þeim fyrirspurnum sem ég hef beint til þeirra og þá fyrst og fremst til hv. formanns efh.- og viðskn., Villhjálms Egilssonar.

Nú vil ég víkja aðeins að stjfrv. Í frv. er að finna allverulegar breytingar á löggjöf um erlenda fjárfestingu hér á landi. Það eru mörg önnur atriði í því en helst hafa verið rædd bæði hér í umræðunni og í fjölmiðlum. Þau hafa því að sumu leyti fallið í skuggann að mínu viti. En ég vil aðeins drepa á þau svona til að koma á framfæri afstöðu minni. Fyrst er til að að nefna sú breyting sem verður með þessu frv. að erlendum aðilum verður nú heimilt að eiga að fullu íslenska hlutafélagabanka. Í núgildandi lögum er það hins vegar takmarkað við fjórðung. Ég tel að þetta sé veruleg breyting sem greiðir götu erlends fjármagns inn í íslenskt atvinnulíf ef á annað borð einhver eftirspurn er eftir því af hálfu útlendinga að fjárfesta í íslenskum banka. Ég tel breytinguna að mörgu leyti eðlilega og get stutt hana og býst við að þær væntingar sem finna í þessari breytingu eigi sér einhverja undirstöðu. Í öðru lagi eru felld brott skilyrði um hámark erlendrar fjárfestingar í atvinnugrein.

[16:00]

Síðar er breyting sem mér finnst vera allveruleg en hún er um aðild erlendra aðila að orkufyrirtækjum og orku- og virkjunarréttindum. Mér finnst aðrar breytingar en þær sem við helst ræðum nú hér um fjárfestingu í sjávarútvegi vera flestar til bóta. Það er ekki mikill ágreiningur um þær að því ég hygg. En ég verð að viðurkenna að ég hef fyrirvara á stuðningi við ákvæðið um virkjunarréttindi og eignaraðild erlendra aðila að orkuvinnslu og orkudreifingu. Þetta er mjög stórt atriði og sá fyrirvari sem við höfum haft um þetta mál gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu er raunverulega úr gildi fallinn. Þetta svið er alveg opið fyrir aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins. Ég er svo sem ekkert viss um að þetta verði okkur neitt skeinuhætt. Samt er ég ekki fullkomlega sannfærður um að það sé rétt að stíga svona stórt skref að þessu sinni og vil mæla varnaðarorð gagnvart þessum þætti málsins. Ég hygg að við þurfum að íhuga betur hvort rétt sé að opna þetta að svo miklu leyti sem lagt er til í frv. nú.

Nú vil ég víkja að fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi. Það er auðvitað fyrsta spurningin sem menn velta fyrir sér þegar ákveðið er að setja í löggjöf ákvæði sem takmarka þátttöku erlendra aðila í sjávarútvegi að það þarf að vera nokkuð ljóst til hvers verið er að því. Með öðrum orðum, hvaða hagsmuni erum við að verja? Hvaða hagsmunir eru það ríkir að við leggjum á það áherslu að halda útlendingum utan við þátttöku á þessu sviði atvinnurekstrar? Ég vil svara því fyrir mitt leyti þannig að við hljótum að ætla að halda sjávarútveginum þannig að hann nýtist til að halda uppi íslensku þjóðfélagi áfram eins og verið hefur. Við hljótum að ætla okkur að stunda þennan útveg þannig að hann skapi hér atvinnu og verðmæti í svipuðum mæli og verið hefur. Með öðrum orðum að arðurinn af þessari atvinnugrein verði fyrst og fremst til ráðstöfunar innan lands.

Þá er spurningin: Hvar við þurfum að draga línuna til að tryggja þessa hagsmuni? Við getum dregið hana þar sem lagt er til í frv. Ég geri í sjálfu sér ekki ágreining um það ef sú verður niðurstaðan. Ég held reyndar að staðreyndin sé nú sú að ásókn útlendinga í að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi sé ekki mikil. Ég held að það sé ekki stór skaði skeður þó það verði niðurstaðan sem hér er lagt til. En ég er hins vegar sannfærður um að menn muni ræða þetta mjög á næstu árum og býst við því að menn muni knýja á um breytingar á þessari línu sem hér er lögð ef menn á annað borð finna áhuga útlendinga á því að koma inn í þessa atvinnugrein. Miðað við þá reynslu sem nú þegar er komin af erlendu fjármagni í sjávarútvegi á síðustu árum er því ekki að neita og ég held að enginn þræti fyrir það að erlent fjármagn er í íslenskum sjávarútvegi og það er fyrirtækjum opið nú þegar sem lánsfjármagn. Það getur sérhvert íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki tekið erlent lán og jafnvel hjá þeim aðila sem það kann að skipta við og selja sína afurðir til. Það er fullkomlega löglegt og ég býst við að fullyrða megi að það sé gert nú þegar bæði sem almennt lánsfé eða sem greiðsla upp í viðskiptasamninga. Í sjálfu sér hefur því útgerðin eða vinnslan aðgang að erlendu fjármagni í þó nokkrum mæli. Það má segja sem svo að ein rökin fyrir því að draga mörkin eins og gert er í frv. séu þau að menn vilji sjá hvaða reynsla fæst á þetta fyrirkomulag, að heimila mönnum þessi lánsviðskipti en halda möguleikum á formlegri eignaraðild fyrir utan málið að sinni.

Ég get vel séð fyrir mér þá breytingu á tillögunni sem lögð er til í frv. að opna vinnsluþáttinn mun frekar fyrir erlendri eignaraðild en gert er ráð fyrir. Vinnsluþátturinn er þannig að menn eru að vinna fiskinn hér heima. Þróunin síðustu árin hefur verið sú að íslensk fiskvinnslufyrirtæki hafa náð betri tökum á að vinna úr fiskinum hér og vinna samkeppnina við erlendu fyrirtækin. Við sjáum það á því að mjög mikið hefur dregið úr útflutningi á óunnum fiski eða lítt unnum fiski. Sú fjárfesting sem útlendingar vilja, að svo miklu marki sem ég þekki til, í íslenskum sjávarútvegi er fyrst og fremst í vinnsluþættinum. Það samrýmist að mínu viti íslenskum hagsmunum að styrkja hann eins og við getum jafnvel þótt að um erlent fjármagn sé að ræða.

Ég held hins vegar að við þyrftum að huga að breytingum í sjávarútveginum til að mæta þessu viðhorfi. Það gæti verið á þann veg að menn aðskildu veiðar og vinnslu algerlega þannig að menn héldu veiðiþættinum og þar með talið fiskveiðiheimildunum utan við vinnslu fyrirtækjanna. Útgerðarþáttur og vinnsluþáttur geta verið í eigu sömu aðila en yrðu tvö fullkomlega aðskilin fyrirtæki. Við getum betur komið við möguleikum á erlendu fjármagni inn í vinnsluþáttinn ef við stöndum svona að málum.

Hins vegar vil ég leggja áherslu á að það sem íslenskan sjávarútveg skiptir mestu máli um þessar mundir er ekki endilega að opna sem mest dyrnar fyrir erlendu fjármagni af þeirri einföldu ástæðu að það er ekki svo mikið af því í boði að mínu viti. Það sem fyrst og fremst þarf að gera fyrir íslenskan sjávarútveg svo hann geti tekist á við áframhaldandi þróun og sókn eins og hann hefur verið í á undanförnum árum er að fá meira af innlendu fjármagni í fyrirtækin. Það hefur staðið verulega upp á íslensk stjórnvöld að stuðla að því mun meira en verið hefur að íslensk fyrirtæki gætu mætt þeim skuldum sem þau söfnuðu upp á árunum 1986 og 1987 með því að sækja sér eigið fé á hlutafjármarkaði sem að verulegu leyti var afleiðing af stjórnvaldsstefnu. Þar held ég að íslensk stjórnvöld gætu gert betur ef þau huguðu að stefnumörkun á því sviði sem gerði þeim kleift betur en verið hefur að sækja eigið fé eða hlutafé á innlendum markaði. Þar er ríkissjóður sjálfur aðalvandamálið og fjármálastefna hins íslenska ríkis sem hefur verið á þá lund að ríkissjóður tekur allt of stóran hluta af lausu fjármagni til að standa undir sínum eigin rekstri og heldur þar að auki uppi vaxtastiginu með því. Þær aðferðir sem ríkissjóður notar til að ná til sín nauðsynlegu fjármagni er að bjóða ríkisábyrgð og háa vexti. Enginn íslenskur atvinnuvegur getur keppt við ríkissjóð í þessum efnum. Ég tel að menn þurfi að marka þá stefnu að koma ríkissjóði upp úr þessu fari í öflun lánsfjár og sér í lagi að draga úr þeim feikilegu tryggingum sem hann er að bjóða sparifjáreigendum sem gerir það að verkum að sparifjáreigendur leggja peninga sína í mun minni mæli í atvinnurekstur eða atvinnulífið sem verður þá að teljast áhættufjármagn samanborið við hina öruggu ávöxtun og tryggingar fyrir greiðslu sem ríkissjóður býður. Ég tel að þessi staða standi uppbyggingu íslensks atvinnulífs, ekki bara sjávarútvegs, verulega fyrir þrifum. Ég hygg því að það væri mikið meira hagsmunamál fyrir íslenskan sjávarútveg að huga að innlendum þáttum málsins en leggjast í langar umræður um beina eða óbeina eignaraðild í íslenskum sjávarútvegi.

Virðulegi forseti. Þá hef ég komið á framfæri í meginatriðum þeim sjónarmiðum sem ég hef fram að færa í þessari umræðu. Ég vænti þess að framhaldi hennar verði hagað á þann veg að þeir þingmenn eigi þess kost að svara fyrirspurnum sem ég lagði fram þótt þeir hafi ekki getað verið viðstaddir umræðuna núna á þessari stundu. Þar á ég fyrst og fremst við hv. þm. Vilhjálm Egilsson, formann efh.- og viðskn., Ég tel algert lykilatriði að hann skýri afstöðu sína til málsins og svari þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann sem oddvita ríkisstjórnarflokkanna í efh.- og viðskn.