Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 16:16:13 (3130)

1996-02-19 16:16:13# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:16]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég skil hv. þm. rétt hefur frv. verið lagt fram í þeim tilgangi að skapa umræðu. Hann gerir því ekki ráð fyrir að það hljóti afgreiðslu. Það má auðvitað segja að menn geti gert þetta til að vekja athygli á skoðunum sínum. En þetta er mjög óvenjuleg leið. Hún felur í sér að menn hafna því viðhorfi sem birtist í stjfrv. Frv. fjórmenninganna gengur ekki lengra en stjfrv., það gengur einfaldlega í allt aðra átt. Það er erfitt að finna rök fyrir því og verja það hvernig menn geta farið í þveröfuga átt ef þeirra sjónarmið verður undir.

Hins vegar hefur hv. þm. líka sagt margt skynsamlegt um málið. Ég vil þó benda honum á eitt atriði sem ekki hefur verið nefnt í umræðunni til þessa. Þetta frv. gerir, eins og núgildandi lög, ráð fyrir beinni eignaraðild. Í ákveðnum tilvikum getur hún numið allt að 100% í allt að 12 mánuði. Ákvæði í 2. gr. frv. kveður á um að ef erlendur aðili erfir fyrirtækið eða tekur það upp í skuld, þá geti hann átt það í allt að 12 mánuði án þess að sæta neinum skilyrðum varðandi meðferð hlutafjár eða ákvarðanatöku. Þetta er auðvitað bein eignaraðild þótt hún sé svolítið óvenjuleg.