Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 16:20:55 (3132)

1996-02-19 16:20:55# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:20]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Stjfrv. er þannig úr garði gert að það gerir ekki ráð fyrir því að breyta ákvæðinu til bráðabirgða í núgildandi lögum. Það mun því standa áfram. Auðvitað er það grundvallaratriði þegar þetta tiltekna mál sem hv. þm. Ágúst Einarsson nefndi er rætt að vita hvenær stofnað var til þessarar fjárfestingar svo menn geti gert sér grein fyrir því hvort hún hafi legið fyrir við gildistöku laganna árið 1991. Ef svo er, er hún lögleg og verður það áfram. Hafi verið stofnað til hennar síðar, hefur hún verið ólögmæt frá upphafi og engin sérstök ástæða til að setja lög til gera hana lögmæta. Menn eiga auðvitað í þessum efnum eins og öðrum að fara að lögum og það er í sjálfu sér ekkert neyðarbrauð fyrir Olíuverslun Íslands, ef svo háttar til sem við höfum ekki fullnægjandi upplýsingar um, að þurfa að selja hluta af eignarhluta sínum í Síldarvinnslu Neskaupstaðar. Þetta eru eftirsótt hlutabréf og seljast á háu verði. Það er því engin neyð fyrir Olíuverslun Íslands þótt þeir þyrftu að selja hluta af þessari eign sinni. Mér hefur skilist að olíufélögin væru frekar fegin því ef þau gætu losað um fé sem bundið er í útgerðarfyrirtækjum. Ég get því ekki litið á þetta sem vandamál.

Ef menn ákveða að leyfa ekki beina eignaraðild verður einhvers staðar að draga mörkin varðandi óbeinu eignaraðildina. Auðvitað er erfitt að finna línu sem er þannig dregin að hún komi ekki illa við neinn. Enda væri hún þá kannski líka vitlaust dregin. Ég held því að hv. þm. hafi gert of mikið úr þessum þætti málsins.