Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 16:27:25 (3135)

1996-02-19 16:27:25# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:27]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég tel það hið mesta óráð að heimila erlenda fjárfestingu í sjávarútvegi og fiskvinnslu eins og málum er nú háttað hjá okkur. Ég vil einnig að það komi fram að ég hef líka verulegar áhyggjur af óbeinni fjárfestingu.

Ástæðan fyrir afstöðu minni er skýr. Ég tel að hér sé um algerlega ranga forgangsröðun að ræða. Ég tel að fyrst eigi að koma á hreint og ná sátt um grundvallaratriði sem snýr að sjávarútvegi, þ.e. eignaraðild yfir auðlindinni og arðtöku af auðlindinni. Meðan þessi grundvallaratriði eru órædd og ekki að fullu sátt um þau, því að svo tel ég að sé, þá tel ég mjög varhugavert að við séum að opna fyrir erlenda eignaraðild inn í sjávarútveginn. Þótt ég viðurkenni að lög landsins séu ekki í samræmi við það sem gerist í viðskiptalífinu sé ég ekki að hér standi allt í ljósum logum. Við hljótum að geta búið við þetta ástand með einhverjum endurbótum þar til við höfum gengið frá þessu grundvallaratriði um eignaraðildina og arðtökuna.

Ég tel einnig að á Íslandi sé fyrir hendi fjármagn, framtak og fagþekking til að takast á við þau viðfangsefni sem eru í sjávarútvegi og fiskvinnslu. Á meðan þessi mál eru óuppgerð og óútkljáð er að sjálfsögðu afdrifaríkast að taka lásinn af og opna dyrnar því að eftir að hurð hefur verið dregin frá stöfum mun þar fótur koma á milli og að sjálfsögðu munu menn fylgja þar á eftir með öxl og þetta verður aðeins spurning um prósentur, hvernig undan verður látið. Slíkt þekkjum við úr svo mörgum öðrum áttum að óþarfi er að lýsa því. Skýrustu dæmin eru að sjálfsögðu í þeim frumvörpum sem koma hér fram um beina eignaraðild, 20% eða 49%, og samþykktir sem gerðar hafa verið síðustu daga hjá stjórnmálasamtökum.

[16:30]

Hvað er að óttast á meðan enn eru grundvallaratriði ófrágengin? Að sjálfsögðu hef ég áhyggjur af því að hráefnisöflunin verði mjög rík í hugum þeirra sem sækjast eftir fjárfestingu hér. Sömuleiðis óttast ég líka að erlendir aðilar muni fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi eða fiskvinnslu með það langtímamarkmið að komast nær kvótanum á meðan við höfum ekki gengið frá skýrari ákvæðum um þau efni. Þeir sem óttast eitthvað í ESB-aðild ættu að sjálfsögðu að hugsa til þess hvað fjárfesting erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi þýðir á meðan við höfum ekki gengið frá þessum grundvallarhagsmunum okkar. Að sjálfsögðu höfum við talið fram sjávarútveginn sem gildustu rök fyrir því að við viljum ekki sækja um ESB-aðild á þessu stigi en með því að opna inn í sjávarútveginn erum við með öðrum hætti að opna fyrir þá framþróun án þess að hafa full tök á grundvallaratriðum í sjávarútvegi. Ég fellst alls ekki á þeim rök sem hafa verið sett fram, fyrst utan þingsins en síðan tekin upp í máli margra hv. þingmanna að við eigum að sýna einhverja drenglund í því að koma á þeirri skipan sem við búumst við að við viljum biðja aðra um. Við skulum að sjálfsögðu láta aðra koma hingað fyrst og krefjast þeirra réttinda sem þeir vilja í atvinnulífi okkar og svara þeim þá en ganga ekki fram fyrr en að því kemur.

Almennt tel ég það vera hygginna manna hátt að standa, ég vil ekki segja álengdar, en standa hæfilega fjarri og fylgjast með þeirri þróun sem er í kringum okkur bæði í Evrópu og þeirri þróun sem er heima hjá okkur í sjávarútveginum og taka síðan ákvarðanir þegar að því kemur. Ég tel þess vegna ekki jafnbrýna nauðsyn og margir aðrir hv. þingmenn telja á ákvarðanatöku í þessu efni. Við eigum fyrst að einbeita okkur að grundvallaratriðunum um eignaraðildina og arðtökuna. Ég er þess vegna algerlega mótfallinn þeim frumvörpum sem hafa komið fram um 20% og 49% og lýsi eins og ég gerði áðan áhyggjum mínum að stjfrv. skuli vera komið fram á þeim tíma þegar við höfum ekki enn rætt um önnur grundvallaratriði.