Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 16:32:56 (3136)

1996-02-19 16:32:56# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:32]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. sem talaði áðan taldi að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. viðskrh. og hæstv. sjútvrh. hefðu lagt fram ótímabær stjfrv. og byggðu á rangri forgangsröð. Það sem skiptir meginmáli væri að tryggja með virkum hætti eignarhald og arðtöku þjóðarinnar af auðlindinni þegar við ræðum um fiskimiðin og sama á reyndar við út frá bæjardyrum hv. þm. ef við ræðum um orkulindirnar, fallvötnin og jarðvarmann.

Ég skil orð hv. þm. á þann veg að hann sé að lýsa yfir stuðningi sínum við það forgangsmál að taka upp auðlindaskatt eða veiðileyfagjald í sjávarútvegi eða sérstaka gjaldtöku varðandi virkjunarrétt, varðandi nýtingu orkulindanna, þannig að tryggt sé að eignarhald þjóðarinnar sé virt í reynd og arftaka hennar tryggð alveg burt séð frá því hvernig hlutdeild aðila er í þeim fyrirtækjum sem annast nýtingarréttinn. Ef tryggt er að þjóðin fær arðinn af nýtingu auðlindanna geti almennar reglur gilt um samsetningu fyrirtækja og hlutdeild aðila í fyrirtækjarekstri.

Ef ég vík sérstaklega að sjávarútveginum á hv. þm. væntanlega við hvort tveggja, arftöku þjóðarinnar og ráðstöfunarrétt á afla. Ef þetta tvennt væri tryggt, auðlindaskattur eða veiðileyfagjald að því er varðar sjávarútveginn, sérstök virkjunarréttargjaldtaka að því er varðar orkulindirnar og að því er varðar sjávarútveginn, ráðstöfun aflans með reglum um að öllum afla skuli landað á Íslandi eins og margir þjóðir hafa reglur um, væri umræðan um hlutdeild í fyrirtækjum eiginlega óþarfi. Þá kæmi spurningin: Hvers vegna eigum við þá að mismuna fyrirtækjum í sjávarútvegi umfram önnur? Hvers vegna ættum við að knýja þau til þess að sæta erlendum lántökum fremur en að njóta erlends fjármagns í formi eignaraðildar? Ég vildi að hv. þm. skýrði betur hvort þetta er réttur skilningur á því sem hann var að segja.