Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 16:46:00 (3142)

1996-02-19 16:46:00# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[16:46]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hvernig getum við Íslendingar tryggt að ákvæði gildandi laga um eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni verði virk og virt í framkvæmd? Hvernig getum við tryggt að eigandinn, íslenska þjóðin, fái arð af nýtingu auðlindarinnar? Hvernig getum við tryggt að ráðstöfunarréttur yfir afurðum auðlindanna, í þessu tilviki hvors tveggja auðlinda sjávar og auðlinda á landi, þ.e. fallvatna og jarðvarma, nýtist okkur og ráðstöfunarrétturinn sé í íslenskum höndum? Þetta held ég að séu kjarnaspurningarnar sem þessi umræða snýst um.

Hér liggja fyrir þrenns konar frumvörp, frv. hæstv. ríkisstjórnar sem byggir á því að ákvæði eldri laga, sem banna skilyrðislaust rétt erlendra aðila til fjárfestingar í veiðum og frumvinnslu, sé ekki framkvæmanlegt. Þar með að fyrirvari sem við settum í EES-samningunum sem kvað á um að við hefðum varanlegan fyrirvara um að halda þessum ákvæðum reynist ekki framkvæmanlegur að mati stjórnvalda.

Lausn sú sem ríkisstjórnin leggur til er að viðurkenna orðinn hlut í formi óbeinnar eignaraðildar, í reynd frá 25% allt að 35%. Síðan liggja fyrir tvö önnur frumvörp, þingmannafrumvörp, frá hv. þm. Þjóvaka um 20% beina eignaraðild og frá fjórum þingmönnum Sjálfstfl., þar með talin formanni efh.- og viðskn., um allt að 49% beina eignaraðild erlendra aðila. Flestir þeir sem hér hafa talað og andmælt þessum frumvörpum, ýmist öllum eða a.m.k. þessum tveimur síðastnefndu, segjast gera það vegna þess að þeir beri fyrir því kvíðboga að með þessu sé erlendum aðilum greidd gatan til forræðisstjórnunar á fiskimiðunum gegnum bakdyrnar eins og það er orðað. Í annan stað með því að ná þessu forræði gegnum bakdyrnar muni erlendir aðilar einnig geta tekið löglegar ákvarðanir um að óunninn afli verði fluttur úr landi, að virðisaukinn lendi í höndum hinna erlendu aðila.

Spurningin sem við stöndum því frammi fyrir er sú sem ég rakti í upphafi. Jafnframt skulum við spyrja: Er reginmunur á þeim lausnum sem er verið að boða? Hver er munurinn á beinni og óbeinni eignaraðild í reynd? Hver er munurinn á því forræði og þeim ítökum sem erlendur fjármagnseigandi getur náð í útgerð, nýtingu fiskimiðanna, með lántökum annars vegar og svo hins vegar með eignarhluta? Hver er staðan raunverulega í dag? Er það uppi á borðinu, er það gegnsætt? Vitum við hversu fyrirferðarmikill þessi raunverulegi umráðaréttur erlendra aðila er í íslenskri útgerð og fiskvinnslu? Eru mörg dæmi um að erlendir aðilar hafi lánað skuldugum íslenskum útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum fé með þeim skilmálum sem þeir setja um að tryggja framboð á hráefni tiltekinn árafjölda um að ráða lánskjörunum að öðru leyti? Hversu háðir eru þessir aðilar hinum erlenda lánardrottni? Hvað þýðir þetta í reynd? Er þessi tiltekni skuldugi útgerðarmaður sem sætir þessum kjörum betur eða verr settur en ef hann mætti einfaldlega að leita eftir beinni erlendri eignarhlutdeild? Hver er munurinn á þessu tvennu? Hann kann að vera enginn að því er varðar forræði og yfirráðaréttinn. En hann er kannski sá í reynd að erlendur aðili sem á hlut í fyrirtæki hefur þar af leiðandi hag af því að fyrirtækinu vegni vel vegna þess að hagur hans er sá að fyrirtækið skili arði. Ef lánardrottinn hefur hins vegar tryggt veð í sínum hlut má einu gilda hver verða örlög þess fyrirtækis. Hann slæðist annars vegar eftir hráefninu og svo því að hafa eðlilegar tryggingar eða veðsetningar fyrir lánum sínum. Þetta er út frá sjónarmiði fyrirtækisins en ég geri ráð fyrir því að þessi umræða markist fyrst og fremst af þessum spurningum.

Við erum sammála um að málið snúist í reynd um forræði yfir auðlindinni og ráðstöfunarrétt yfir henni eins og kom reyndar fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals. Hann sagði í andsvari áðan við ræðu hv. 11. þm. Reykv. að sennilega væri þetta kjarni málsins og tímabært að hugleiða það í þessu samhengi hvort við getum öllu lengur slegið því á frest að gera upp við okkur hvernig við ætlum að tryggja með virkum og öruggum hætti það sem við erum sammála um að við viljum, að framfylgja gildandi lögum um eignarrétt þjóðarinnar á auðlindunum og ráðstöfunarrétt yfir þeim og þá að sjálfsögðu um leið að arðurinn af auðlindinni renni til eigandans því að það er aðeins rökrétt niðurstaða.

Eftir þessa umræðu er ástæða til þess að hugleiða þetta tal um muninn á þessum tveimur frumvörpum og þær spurningar sem menn hafa spurt um hvort það er bitamunur eða fjár eða hvort það sé kannski enginn munur í reynd, hvort við erum að tala um beina eða óbeina eignaraðild eða einhverjar prósentur beinnar eignaraðilar. Hvers vegna segi ég þetta? Ég segi það m.a. vegna þess að að hefur verið upplýst í þessum umræðum, það gerðist sl. fimmtudag þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson spurði ábyrgðarmann stjfrv., hæstv. viðskrh., einfaldlega eftirfarandi spurninga: Ef stjfrv. verður að lögum er það þá rétt eða ekki rétt að samkvæmt þeim lögum geti erlendur aðili myndað eignarhaldsfélag, 49% eignaraðild hans er heimil og fyrirtækið er íslenskur lögaðili. Þá getur það fyrirtæki í gegnum tvo liði átt að dótturfyrirtæki sem síðan á og stjórnar útgerðarfyrirtæki og hefur þar með bæði ráðstöfunar- og nýtingarrétt á auðlindinni og ráðstöfunarrétt á veiðiheimildunum þar með talið þann rétt að senda afla óunninn úr landi ef þeir svo kjósa. Svar hæstv. ráðherra var alveg ótvírætt, já, þetta er svo. Enda þurfti svo sem ekki annað formsins vegna að fá það svar því að þetta er staðfest í greinargerð með frv. Svona er málið í reynd ef stjfrv. verður að lögum. Hvað þýðir það? Það þýðir það að erlendir aðilar geta fullkomlega löglega haft virk yfirráð yfir fyrirtækjum sem nýta þessa auðlind og ráðstafa aflanum þótt það sé í formi óbeinnar eignaraðildar. Með öðrum orðum ef kjarni málsins er spurningin um forræði er hægt í gegnum óbeina eignaraðild að hafa þetta forræði. Erlendir aðilar geta tryggt sér það, ekkert síður í formi óbeinnar en beinnar eignaraðildar. Hvaða máli skiptir þá þessi prósentutogstreita í beinni eignaraðild? Er hún eitthvert aðalatriði málsins? Skiptir hún sköpum? Á að meta afstöðu manna til þess hvort þeir eru með 25% eða 35%, 33% eða 49%? Ég held að þetta sé alls ekki aðalatriði málsins. Ég held að kjarni málsins sé spurningin um raunverulega stjórn.

Þá kemur að hinu: Hvað með lántökuleiðina? Ef við viljum mismuna sjávarútveginum og öðrum fyrirtækjum að því er varðar réttinn til þess að mega njóta atbeina erlends áhættufjármagns sem hlutafjár og leiðum það í lög og viljum að það verði svo í framkvæmd þá er það með þessum rökum. Það er af því að við viljum ekki afsala okkur auðlindinni. Það er af því að við viljum tryggja virk yfirráð okkar yfir auðlindinni. Það er af því að við viljum tryggja að þjóðin njóti arðsins af auðlindinni. Ég vísa í nýlegt dæmi úr fréttum þegar ungur athafnamaður í sjávarútvegi eða öllu heldur í fiskvinnslu var að leika sér með það þumalfingursdæmi að arðsemin í þessari grein væri með þeim hætti að veiðin skilaði einni krónu, vinnslan 10 kr. en að lokum skilaði markaðsdreifingin 100 kr. Ég tek dæminu með fullkomnum fyrirvara. En menn eru að segja: Ef erlendir aðilar geta komist inn í að nýta auðlindina, ráðstafað aflanum og hirt virðisaukann og vinnuna erlendis er illa komið og það ættum við að stöðva. Og þá er spurningin hvernig. Með þessu stjfrv. verður það ekki gert. Það er viðurkennt af aðalflutningsmanni frv. sjálfs að það tekst ekki, það gengur ekki. Frv. er haldlaust ef menn setja sér þetta markmið. Hverju erum við þá bættari?

Ef menn meina það sem þeir segja um það að við viljum tryggja að eignarákvæði laga, sameign þjóðarinnar, séu virk í framkvæmd, ef við viljum tryggja að nýting auðlindarinnar sé í íslenskum höndum og ráðstöfunarréttur á afla í íslenskum höndum er ekki til nema eitt svar við því. Vilji löggjafans er ljós: Í löggjöfinni stendur: Fiskimiðin í kringum Ísland eru eign þjóðarinnar, en ef við ætlum að tryggja arðinn af þessari auðlind og ráðstöfunarréttinn er aðeins eitt ráð til þess. Það er að tryggja það alveg burt séð frá samsetningu fyrirtækja í greininni að þeir sem fá að nýta auðlindina greiði þjóðinni arð. Í því skiptir engu meginmáli hvort menn kalla þetta auðlindagjald eða hvort menn kalla þetta veiðileyfagjald. Það er ekki hægt að tryggja að þjóðin fái arð af sinni auðlind öðruvísi ef það er ekkert hald í öllum þessum eignarréttarákvæðum beinum eða óbeinum í þessum frumvörpum. Þá verða menn að gera það upp við sig, þar með talið hv. stjórnarþingmenn. Það þýðir ekki að koma fram með frv. og hæstv. ráðherra, sem flytur frv., segir: Það er ekkert hald í því. Til hvers er það þá? Sýndarmennska. Er það ekki?

[17:00]

Við erum ekki bara að tala um sjávarútveginn. Við erum að tala um aðra meginauðlind þessarar þjóðar fyrir utan mannfólkið sjálft, orkulindirnar, virkjunarréttinn. Einn tilgangur með þessu stjfrv. er sá eins og það er orðað að ganga frá því að skuldbindingar okkar samkvæmt alþjóðasamningum séu í lagi eða við þær sé staðið. Nú er það svo að í hinum margnefndu EES-samningum gerðum við tímabundinn fyrirvara að því er varðaði orkugeirann, virkjunarréttinn. Sá fyrirvari rann út 1. janúar árið 1996, þ.e. fyrir nokkrum vikum síðan. Það að sá fyrirvari er fallinn þýðir að að erlendir fjármagnseigendur geta keypt sig inn í fyrirtæki sem nýta þessar orkulindir og geta reyndar keypt orkulindirnar sjálfar. Þegar við settum þennan fyrirvara á sínum tíma í EES-samninginn, tvö ár, var það með hliðsjón af því að þá voru á borðum ríkisstjórnar viðamikil frv. um virkjunarrétt fallvatna og jarðvarma. Frv. gengu út á það að tryggja sameign þjóðarinnar á þessum auðlindum með nákvæmlega sama hætti og gert var með sjávarútvegsauðlindina. Ágreiningur í fyrrv. ríkisstjórn varð þess valdandi að frv. náðu ekki fram að ganga. Hæstv. iðn.- og viðskrh. hefur lýst því yfir að hann sé enn að reyna í núverandi ríkisstjórn að fjalla um þessi mál og hefur sagt að hann geri sér vonir um að geta sýnt þau á þessu þingi. En það hefur nú áður verið vonarpeningur og engin leið að slá neinu föstu um það hvort eitthvert samkomulag næst milli stjórnarflokkanna í því efni nú frekar en fyrr. Kjarni málsins er aftur nákvæmlega sá hinn sami. Virkjunarrétturinn sjálfur er verðmæti, gríðarlegt verðmæti. Hingað til hafa fyrirtækin sem hafa virkjað verið í ríkiseigu eða opinberri eigu ríkis og sveitarfélaga. Virkjunarréttindi hafa stundum verið háð atbeina löggjafans, þ.e. löggjafinn hefur veitt tilteknum fyrirtækjum eins og Landsvirkjun virkjunarrétt. Ríkisvaldið er farið að skammta virkjunarréttinn sem þar af leiðandi er orðinn að miklum verðmætum.

Þjóðin hefur fengið arð af þessum virkjunarrétti óbeint, þ.e. með þeim hætti að við höfum rekið einokunarfyrirtæki í orkugeiranum. Þau hafa hagað verðlagningu sinni þannig að það hefur verið um verulega eignamyndun að ræða. Og sú eignamyndun í Landsvirkjun sem talin er nema mörgum milljörðum kr., kannski eitthvað rúmum tveimur tugum milljarða kr., er sá eignarhluti sem til hinna opinberu aðila hefur runnið. Nú þegar fyrirvarinn um réttindi útlendinga heldur ekki lengur og er fallinn er staðan orðin gerbreytt og erlendir aðilar geta leitað eftir því að kaupa sig inn í þessi fyrirtæki eða kaupa auðlindirnar sjálfar. Þar með geta þeir ráðstafað þessum auðlindum og þar með er haldið sem þjóðin hafði í því að hún fengi arð af þessum auðlindum farið.

Ég nefni þetta dæmi, hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, m.a. af því að hv. þm. sagði: Við höfum nógan tíma, það er ekkert að brenna í okkar þjóðfélagi. Það er alger misskilningur. Þetta mál er í uppnámi og það er m.a. vegna þess að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, fyrrv. iðnrh., lýsti því yfir í umræðunum sl. fimmtudag að þingflokkur Alþfl. mundi í upphafi þessarar viku leggja bæði frv. fram. Það höfum við gert vegna þess að við viljum gefa Alþingi Íslendinga kost á því að bregðast við því að brottfall fyrirvarans hefur sett málið í uppnám. Þannig að ef menn meina eitthvað með því þegar þeir segja að kjarni þessa máls alls sé að tryggja virk yfirráð þjóðarinnar yfir auðlindunum, ráðstöfunarrétt yfir þeim og arðtöku af þeim, þá er engin önnur leið eftir en sú að gera það með auðlindagjaldi eða veiðileyfagjaldi.

Að því er varðar orkulindirnar erum við að tala um virkjunarréttindin. Menn hafa nefnt í þessum umræðum sem dæmi um það almenna efnahagsumhverfi sem við nú búum við að íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi sem búa yfir mikilli tæknikunnáttu, þjálfuðu og atorkusömu fólki við stjórnun, tæknistörf, veiðar og vinnslu og hafa styrkt stöðu sína fjárhagslega í skjóli þess að þau tiltölulega fáu fyrirtæki sem hafa notið mikillar arðsemi Íslandsmiða, þ.e. rentunnar, ókeypis aðgangs að miðunum, eru nú komin það vel á veg að þau hafa til þess fulla burði að leita á erlendan vettvang og fjárfesta erlendis í veiðum og vinnslu. Þetta er svona eitt dæmi um alþjóðavæðinguna sem er orðin allt í kringum okkur, meira að segja í sjávarútvegi. Nú þarf alls ekki að leggja --- Virðulegi forseti. Mér var tjáð að við værum í tvöföldum ræðutíma:

(Forseti (StB): Forseti gaf hv. þm. 20 mínútur og þetta er önnur ræða hv. þm. Þar af leiðandi eru 20 mínútur til ráðstöfunar.)

Ég virði það, virðulegi forseti, enda hef ég komið meginniðurstöðum míns máls til skila og þær eru þessar: Kjarni málsins er ekki prósentur um eignahlutdeild útlendinga í sjávarútvegi og það er ekki reginmunur á beinni eða óbeinni eignaraðild. Ef menn meina það sem þeir segja og ég hef enga ástæðu til þess að rengja það, að það sé vilji alþingismanna almennt, enda gildandi lög í landinu, og ef menn vilja tryggja í verki, ekki bara í orði, að þjóðin haldi eignarhaldi sínu á auðlindunum, hafi ráðstöfunarrétt yfir þeim og njóti arðs af þeim, þá er ekki um annað að ræða en að Alþingi setji lög um veiðileyfagjald eða auðlindaskatt eða lög um sameign þjóðarinnar á orkuauðlindunum. Að því er varðar ráðstöfunarréttinn, þá dugar ekki að leiða það í lög að allur fiskur fari um fiskmarkaði. Það þarf að leiða það í lög að öllum afla af Íslandsmiðum verði landað hér á landi eins og fordæmi eru um hjá öðrum þjóðum.