Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 17:16:47 (3144)

1996-02-19 17:16:47# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:16]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hv. þm. Ágúst Einarsson um skilning á frv. hans þar sem hann gerir ráð fyrir að bein eignaraðild útlendinga verði takmörkuð við 20%. Ég hef heyrt rök hans fyrir þeirri takmörkun, en hún er varúðarregla til þess að vernda innlend yfirráð. Ég spyr hann þá um hin 80%. Hvernig ætlar hann að tryggja að þau séu á íslensku forræði? Hugsar hann sér að óbein eignaraðild verði með sama hætti og í stjfrv.? Ef svo er, þá getur þessi 20% lína ekki haldið, ekki frekar en hann telur að línan í stjfrv. haldi. Ég spyr hvort að þingmenn Þjóðvaka séu með einhverja aðra útfærslu á óbeinni eignaraðild í sjávarútvegi þannig að tryggt sé að þau 80% sem eiga að vera á innlendu forræði séu það í reynd en ekki undir yfirráðum útlendinga.

Í öðru lagi langar mig til að gera stutta athugasemd varðandi útreikninga hans á mögulegum yfirráðum útlendinga yfir íslensku sjávarútvegsfyrirtæki í gegnum eignaraðild í öðrum og þriðja lið. Hann gefur sér þá forsendu að útlenskt fyrirtæki sem á 49% í fyrirtæki fari með 49% af atkvæðum fyrirtækisins upp í annan lið. Það er hins vegar forsenda sem menn geta ekki gefið sér því 51% geta ráðið 100% atkvæða ef menn kjósa svo upp í fyrirtæki í öðrum lið og þá hverfa möguleg yfirráð útlendinga í sjávarútvegsfyrirtæki.