Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 17:36:45 (3149)

1996-02-19 17:36:45# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[17:36]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Í þeirri umræðu sem hefur farið fram um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hefur margt forvitnilegt komið til, bæði nýstárlegar hugmyndir, sérstæð túlkun og síðast en ekki síst er hægt að fagna því að flestir eru sammála um að ástæða sé til þess að fara varlega í þessum efnum. Fara varlega í því að færa sig yfir í hina hörðu markaðsveröld í nágrenni lítils þjóðfélags sem Ísland er og gæta þess að rasa ekki um ráð fram.

Mig langar að víkja að nokkrum atriðum sem hafa verið til umræðu í dag. Í fyrsta lagi er ástæða til þess að taka undir að við þurfum fyrst og fremst að tryggja eigin rétt og eigin stöðu okkar, festu til þess að þróa upp mannlíf og atvinnulíf í okkar eigin landi á grunni þeirrar auðlindar sem er sameign þjóðarinnar. Fyrst og fremst er þetta spurning um yfirráð, spurning um yfirráð auðlindar og verðmæta en við erum jafnframt að tala um alþjóðlega þróun í atvinnurekstri, þróun og spurningu sem kallar á að við séum tilbúin til þess að opna dyrnar á einhvern hátt til að sitja ekki eftir, hvorki í þróun í verklagi, vinnslu og ekki síst á launasviði þar sem við sitjum svo sannarlega aftarlega á merinni. Kannski er fyrst og fremst ástæða til þess að verja hlut okkar af alefli í ljósi þess að við verðum númer eitt, tvö og þrjú á næstu missirum og árum að leggja höfuðáherslu á að auka laun þess fólks sem vinnur að grunnframleiðslu þjóðar okkar. Það höfum við því miður látið sitja á hakanum.

Það var svolítið kynlegt að heyra hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson klifa í síbylju á því í umræðum fyrr í dag að veiðileyfagjald eða auðlindaskattur eða löndun alls afla úr íslenskri landhelgi á innlendum markaði væri lausn í málinu, væri trygging gegn því að erlendir fjárfestar væru að binda sig auðlindinni með eignaraðild. Þetta var svolítið hjákátlegt vegna þess að hugmynd um veiðileyfagjald, auðlindaskatt eða innlendan fiskmarkað sem tæki við öllum afla af Íslandsmiðum kemur þessu máli ekkert við. Það er ekkert sem tryggir það sem þingmaðurinn var að fjalla um í þessu sambandi. En það er ástæða til þess að velta spurningunni aðeins nánar út frá þeim sjónarmiðum sem hv. þm. Jón Baldvin setti fram. Það er ástæða til þess að velta upp þeim atriðum sem alltaf koma upp, veiðileyfaskattinum, veiðileyfagjaldinu, því að hættan sem vofir yfir honum er kannski fyrst og fremst sú að hann blóðmjólki atvinnugreinina. Það er skattheimta af sjávarútvegi eins og öðrum rekstri á Íslandi. Það er arðgreiðsla til þegna landsins í gegnum skattgreiðslurnar og það er ekki bara hætta á því að greinin sjálf væri blóðmjólkuð, það er hætta á því að pláss landsins, að verstöðvar landsins verði blóðmjólkaðar vegna þess einfaldlega að tilhneigingin yrði öll sú að aukin skattheimta, því að veiðileyfagjald eða auðlindaskattur er ekkert annað en aukin skattheimta, færi í okkar ágætu þjóðarhít og yfirbyggingu sem er síst af öllu í verstöðvum landsins. Það má til sanns vegar færa á hugmyndum í gegnum undanfarin ár að það væri verið að tala um hundruð milljóna skatt á ýmis stærstu sjávarpláss landsins. Hvað meina menn þá með jafnræði þegnanna, með skynsamlegri þróun, með aukinni verkmenntun, aukinni vinnslu, meiri styrkleika í þágu íslensks þjóðfélags? Þá er engin meining þar á bak við. Þá er eingöngu um að ræða landburð af kjaftæði sem nýtist okkur ekki.

Úr því ég vík að málflutningi hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar er það alveg rétt sem hann sagði að kjarni málsins er ekki prósentan. Kjarni málsins er að tryggja raunverulegan rétt Íslendinga. Ég er fullkomlega sammála því því að með þessu fyrirkomulagi, með þeim takmörkunum á hvaða prósentum sem þær liggja, erum við að tala um að hafa áhrif á að Íslendingar geti stjórnað nýtingu auðlindarinnar, hvert aflinn fer, hvar hann er unninn o.s.frv. sem eru lykilatriði í því að skapa verðmæti úr þeirri auðlind sem við byggjum þjóðfélag okkar á. Að setja upp tvo valkosti til hliðar, að þeir geti leyst málið og séu lykilatriði í því að setja tryggingu gegn því að þetta fari úr böndum. Veiðileyfagjald eða auðlindaskattur eða löndun alls afla innan lands hefur ekkert með það að gera.

Það er svolítið einkennilegt hvernig síbyljan gengur í þessum efnum hjá hv. þm. Jóni Baldvin sem virðist krónískt vera kominn með veiðileyfagjald og auðlindaskatt á heilann. Það hefur líka verið svolítið sérkennilegt að fylgjast með því um árabil hvernig þessi eini hvítvoðungur hefur legið á pólitískri vöggustofu Morgunblaðsins í gjörgæslu, hvernig ritstjórnargreinar Morgunblaðsins hafa í jafnmikilli síbylju og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson fjallað um veiðileyfagjald án þess þó að hafa nokkurn tímann útfært þá hugmynd. Kannski er kominn tími til þess að ætlast til þess að blað allra landsmanna fari að skýra út hvernig það vill, hvernig það telur skynsamlegt og eðlilegt að leggja veiðileyfagjald á eða auðlindaskatt, hvaða forsendur eru til þess og hvernig það mundi færa þjóðinni farsæld og hamingju. Það er þó ekki málið.

[17:45]

Hitt er að þessi pólitíski hvítvoðungur hefur verið þarna í ákveðnu skjóli til þess að stunda þennan eilífa landburð af kjaftæði. Ég skal taka nákvæmlega eina setningu úr því sem hv. þm. Jón Baldvin sagði í dag. Hann sagði: ,,Arðurinn af auðlindinni á að renna til eigandans.`` Númer eitt, tvö, þrjú, fjögur og fimm. Arðurinn af auðlindinni á að renna til eigandans. Er þá hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson að segja að íslenskt þjóðfélag eigi að þjóðnýta til fulls íslenska útgerð? Já, hann er að segja það. Vegna þess að arðurinn hlýtur að útdeilast í tvennu lagi ef hv. þm. meinar eitthvað annað en það sem hann sagði. Hann hlýtur að útdeilast til þess sem ber ábyrgð á útgerðinni og rekur hana og síðan til þess sem á auðlindina og nýtur skatta og gjalda af þessum rekstri. Þarna fór ugglaust hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson offari eins og svo oft áður í þessu máli því það er ekki hægt að tala um að arðurinn af auðlindinni eigi að renna til eigandans nema hann sé að tala um að það eigi að þjóðnýta þennan atvinnurekstur. Og það væri fróðlegt að heyra það frá hv. þm. hvort hann meinar það sem hann sagði. (Gripið fram í: Byrja á að þjóðnýta ríkið.)

Það kom fram hjá hv. þm. Ágústi Einarssyni að aðferðafræðin í málinu er röng þegar menn eru að mikla fyrir sér hætturnar á aðild erlendra fjárfesta í íslenskum útvegi. Ég er að mörgu leyti sammála því að það er ekki ástæða til þess að hrópa mikið í þeim efnum, sérstaklega ekki ef menn gæta þess að fara varlega. Það verða að vera ákveðnir þröskuldar þannig að við höfum stjórn á okkar málum og getum gripið inn í ef hlutir fara úr böndum því það er allt of mikið í húfi fyrir okkur að taka áhættu sem getur valdið slysum, svo sem ef breytingar koma upp á stöðu fiskstofnanna. Þær breytingar gætu verið bæði til hins betra og til hins verra og því er þeim mun meiri ástæða til þess að við höfum styrka stjórn á því sem ræður okkar hagsmunum í vinnslu, veiðum og markaðssetningu.

Það kom fram hjá hv. þm. Jóni Baldvin Hannibalssyni varðandi orkunýtingu landsins að þjóðin ætti að eiga rétt á arði af auðlindinni. Það er alveg rétt. Það er grundvallarmunur á því að fjalla um það í orkuvinnslu eða sjávarútvegi að þjóðin eigi rétt á arði af auðlindinni eða að segja að arðurinn eigi að allur að fara til þess sem á auðlindina. Það hlýtur að þurfa að reikna með ákveðnum grunnkostnaði á millileiðinni, fjárfestingu, ábyrgð, áhættu, sem verður að vera hvetjandi fyrir þann sem stendur í útgerðinni eða rekstrinum. Hann verður að ganga til leiks og leggja allt undir og að eiga einhvern kost á því að árangur náist í arði.

Hv. þm. vék að Landsvirkjun. Það er gott dæmi um mismunun í arðgreiðslum af auðlind hvernig háttað er hjá Landsvirkjun. Reykjavíkurborg eða forsvarsmenn Reykjavíkurborgar hafa nýverið látið hafa það eftir sér að Reykjavíkurborg eigi liðlega 10 milljarða kr. eign í Landsvirkjun. Auðvitað er þetta alrangt þegar málið er skoðað. Landsvirkjun er fyrst og fremst sameign þjóðarinnar þó hún sé bókfærð á ríkissjóð, Reykjavík og Akureyri. Reykjavíkurborg hefur ekki lagt fram mikla peninga í Landsvirkjun, ekki frekar en ríkissjóður nema með lántökum, ekki frekar en Akureyri nema með ákveðinni fjárfestingu sem var þó vel skuldsett þegar hún gekk inn í þá eign. Það er líklega miklu nær að segja að eign Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun sé um einn milljarður en ekki 10 milljarðar eða 11 milljarðar. Inn í þetta dæmi kemur líka Marshall-aðstoð sem var ekki ætluð Reykvíkingum einum en fór að verulegu leyti í uppbyggingu Sogsvirkjana. Það er ekki réttlætanlegt eða gott fordæmi að bókfæra það á Reykjavíkurborg eina. Samt sem áður hefur Reykjavíkurborg keypt raforku af Landsvirkjun 10% ódýrara en aðrir landsmenn. Það má til sanns vegar færa að það sé mismunun á sameiginlegri auðlind eða eign þjóðarinnar. Samt sem áður hefur Reykjavíkurborg einnig fengið árlega um 100 millj. kr. í svokallað lántökugjald án þess þó að taka nokkurn tíma lán. Það er Landsvirkjun sem tekur lánin og veltir þeim innan síns ramma í skjóli ríkisvaldsins. Þarna virðist því vera munur á Jóni og séra Jóni. Við skulum gæta þess að fara ekki út í þessa mismunun varðandi sameiginlega auðlind þjóðarinnar í hafinu sem kæmi augljóslega fram með veiðileyfagjaldi eða auðlindaskatti eða hvaða tískuorðum sem menn vilja nota um þessar gjafapakkningar utan um falsvonir. Þetta eru falsvonir vegna þess að það þýðir ekkert að vera að tala um slíkt nema svo sérstaklega vel ári hjá fiskvinnslunni, hjá útgerðinni, hjá fólkinu í landinu sem vinnur við sjávarsíðuna að það séu rök fyrir því að auka skattheimtu á því umfram aðra þegna landsins. Það er þetta sem þeir sem krefjast sýknt og heilagt veiðileyfagjalds eða auðlindaskatts eru að tala um án þess þó að þora nokkurn tíman að nefna nákvæmlega hvað þeir eru að tala um. Eru þeir þó búnir að blaðra um þetta árum saman í ræðu og riti, velta upp út og suður meiningum og spjalli. Það er aldrei neitt naglfast, aldrei neitt borðleggjandi. Þetta rúllar áfram eins og mykjuhaugur á vori sem hefur út úr flóð af hita. (Gripið fram í.)

Ég vil leggja áherslu á það í þessu máli að það sé varlega farið. Við þurfum að opna dyrnar. Við þurfum að vera tilbúin til að laða að erlenda fjárfesta en við skulum ekki vera til sölu. Við skulum ekki láta gleypa okkur. Við skulum stuðla að sjálfstæði Íslands í framtíðinni. En þá verðum við líka að þola samkeppni við það umhverfi sem hugsanlega vill sækja inn í okkar hráefni. Við þurfum að þola samkeppni launalega, atvinnulega og menningarlega. Við þolum það menningarlega. Við þolum það í búnaði bæði til sjávar og sveita en við þolum það ekki launalega í dag. Og það er ekki lausn í þeirri uppbyggingu og þeirri þróun að leggja á auðlindaskatt sem engin rök eru fyrir, auðlindaskatt sem færi í yfirbygginguna en ekki grunninn sjálfan, verkþáttinn, starf verkamannsins til sjávar og sveita, þess manns sem vinnur með höndunum eins og sagt er.

Það eru lög og reglur um meðferð á íslenskum afla. Það er trygging fyrir því að við getum ráðið ferðinni. Að mínu mati og miðað við frv. ríkisstjórnarinnar er sú tala sem hér hefur verið nefnd, 25%, ekki heilög en hún er þó varfærnislega sett upp og ásættanleg. Allt sem gengur lengra í stöðunni er að mínu mati óþarfa áhætta sem við eigum ekki að taka þegar við ætlum að tryggja íslenska hagsmuni.