Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 18:32:15 (3157)

1996-02-19 18:32:15# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[18:32]

Flm. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. að umræðunni er náttúrlega ekki alveg lokið og hún verður örugglega uppi á borðinu í hv. Alþingi svo lengi sem Ísland verður sjálfstæð þjóð sem ég vona að verði um aldur og ævi. Það er engin spurning að þetta verður áfram til umræðu og ég geri ekki ráð fyrir því að menn kæri sig um að hafa svona mál í einhverju þagnargildi. Umræðan hlýtur að þróast með sjávarútveginum sjálfum og í þinginu.

Varðandi það að ekki sé röksemd að fá erlent fjármagn inn í sjávarútveginn af því að það sé nóg til af fjármagni í landinu þá held að það sé í sjálfu sér hægt að segja að nóg fjármagn sé í landinu. Það sem menn voru að meina með því að fá erlent fjármagn inn í íslenskan sjávarútveg var að við værum að ná í aðra reynslu, við værum kannski að ná í markaðssetningu og með erlendum aðilum að komast nær þeim markaði sem við erum að vinna á. Við erum að fá upp önnur sjónarmið, aðra þætti sem við þurfum nauðsynlega og við höfum einnig bent á að þjóðir eins og Danir virðast hafa getað náð meiri virðisauka í botnfiskvinnslu sinni og greitt hærri laun en á þeim sviðum þurfum við að gera betur.