Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 18:37:51 (3160)

1996-02-19 18:37:51# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[18:37]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í fyrsta lagi rangt að ég setji allt mitt traust á formlega lagasetningu, það er ekki sanngjörn túlkun á mínu máli. Ég viðurkenni að í þessu máli tel ég að það skipti miklu að til séu lagareglur. Ég reyndi að skýra það í máli mínu áðan að ég tel ekki 100% tryggt að þær þurfi að halda í þessu tilviki út af þessu sérstaka eðli fjármagnsins sem hv. þm. kann að orða miklu betur en ég.

Ég held að nauðsynlegt sé í þessu sambandi að hafa líka í huga aðra umgjörð gagnvart fyrirtækjum eins og hina íslensku almennu skattalöggjöf, reglur um það hvernig fyrirtæki koma fram við fólk, hvaða reglum fyrirtæki verða að hlíta að því er varðar starfsfólkið á hverjum tíma, bæði kjör þess, kaup og annað þess háttar. Með margvíslegu kerfi velferðarþjóðfélagsins hljótum við ævinlega að takmarka rétt og möguleika fjármagnsins til þess að ganga á réttindi fólksins sem er aðalatriði í þessu samhengi.

Hitt er svo það að veiðileyfi gangi kaupum og sölum og lausnin sé fólgin í því að leggja skatt á kaupin og sölurnar. Ég held að málið snúi ekki þannig. Ég hef ekki séð að gjaldið sem slíkt breyti réttarstöðu, mér liggur við að segja þjóðarinnar, í þessu dæmi. Ég tel að þjóðin eigi auðlindina og það sé hafið yfir allan vafa. Ef menn vilja hins vegar taka ákvörðun um að skattleggja þá sem sækja fiskinn út á miðin er það sjálfsögð ákvörðun. Ég skal út af fyrir sig taka þátt í því ef erfiðleikar eru uppi hjá ríkissjóði og ef þeir sem sækja í auðlindina eru sæmilega loðnir um lófana og geta borgað einhverja skatta.