Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 18:40:03 (3161)

1996-02-19 18:40:03# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[18:40]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Það er skömmtun ríkisvaldsins, ókeypis úthlutun til sumra en synjun til annarra sem gerir þennan aðgang að auðlindinni að verðmætum. Út af fyrir sig er það bara afleiðing annars vegar þessarar pólitísku ákvörðunar um takmarkaðan aðgang og hins vegar framsalsréttur. Þetta eru því eftirsóknarverð verðmæti sem menn greiða fyrir umtalsverða fjármuni, marga milljarða kr. Við erum einfaldlega að tala um óbreytt kerfi, aflamarkskerfi með framsalsrétti. Kostir þess eru framsalið vegna þess að ella væri engin hagræðing í því kerfi. Eftir stendur að menn greiða þarna milljarða kr. en þeir greiða ekkert af því til eigandans. Það að krefjast veiðileyfagjalds þarf ekkert að hækka gjaldið sem menn greiða hver öðrum. Það ræðst af markaðnum.

Ef ég sný þessu dæmi upp á hina auðlindina, þ.e. fallvötnin og jarðvarmann, þar sem svo háttar til að nú er ekki einu sinni lagavörn að forminu til vegna þess að erlendir aðilar geta keypt auðlindirnar sjálfar. Þeir gætu þess vegna keypt vatnsréttindi, virkjunarréttindi, jarðvarmaréttindi og sú breyting var á um síðustu áramót. Ég spyr hvort manni, sem verið hefur formaður í flokki sem heitir Alþb. og kenndi sig einu sinni við þjóðfrelsi, sósíalisma og verkalýðshreyfingu, sé það ekkert áhyggjuefni? Telur hann að það sé ekki sjálfsagður hlutur og reyndar skylduverk stjórnvalda að koma fram með löggjöf, og hefði átt að vera búið að því, sem tryggði sameign þjóðarinnar á þessum virkjunarréttindum? Því að hvernig ætti þjóðin ella að fá arð? Nú þýðir ekki að snúa út úr þessu: Ja, fyrirtækið borgar skatta og skyldur. Það gerði það samkvæmt almennum reglum. Við erum ekki að tala um það. Við erum að tala um skammtaðan aðgang að takmörkuðum auðlindum og hafi hv. þm. einhvern tíma kynnt sér georgisma og lýst aðdáun sinni á Retsforbundet, þá eru þetta efnisrök sem eru í fullu gildi og við erum núna þar staddir að ef menn eru sammála um að tryggja þetta forræði þá eru ekki önnur úrræði til þess.