Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 19:09:22 (3166)

1996-02-19 19:09:22# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., Flm. KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[19:09]

Flm. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að þetta sé grundvallarmunur. Ég lýsi því sem stigsmun hvort útlendingar eigi óbeina 49% aðild eða beina. Eins og ég nefndi dæmi um áðan getur sú staða komið upp að fyrirtæki eins og Unilever kaupi upp fiskmarkað 100% og gæti síðan eignast annað fyrirtæki sem tengt væri sjávarútvegi með einhverjum hætti, t.d. Íslenskar sjávarafurðir, sem gæti síðan keypt stórt fyrirtæki eins og Granda 100%. Hvert færi virðisaukinn ef útlendi aðilinn hefði náð samkomulagi við aðra aðila um það hvernig honum fyndist best að beina hagnaðinum? Færi hann ekki helst þangað sem erlendi aðilinn hefði mest ítök? Þannig kemur þetta a.m.k. út í mínum huga. Ég tel þessa aðferð því órökrétta ef við erum að hugsa um sjávarútveg, en það gæti svo sem komið þjóðhagslega út á eitt. Ég hef ekki kannað það svo nákvæmlega að ég geti fullyrt neitt um það. En ég tel að menn ættu að skoða öll þessi dæmi í hv. efh.- og viðskn. með opnum huga. Ég held að flestallir sem hafa tekið þátt í þessari umræðu hafi eitthvað til síns máls.