Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 19:17:47 (3172)

1996-02-19 19:17:47# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[19:17]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að nefna eitt atriði úr ræðu hv. 3. þm. Vestf. um leið og ég þakka honum fyrir margt í hans ræðu. Það er að það er ekki rétt hjá honum að 1. gr. fiskveiðistjórnunarlaganna skipti engu máli. Hún skiptir mjög miklu máli. Hún skiptir sérstaklega máli vegna þess að þegar þessi mál voru til umræðu í upphafi, ég hygg að það hafi verið haustið 1983, snerist verulegur hluti þingsins og þar á meðal við alþýðubandalagsmenn á móti því frv. eins og það var lagt fyrir. Við fluttum tillögu, af því að við töldum hana sjálfsagða, um að það stæði í lögunum að þjóðin ætti þetta. Hún var felld. Þess vegna var það mjög mikið atriði að það var hægt að knýja það fram síðar að meiri hluti Alþingis og Alþingi féllst á að þessi texti var skráður þarna. Þess vegna skiptir það gríðarlegu máli í mínum huga að þessi texti er þarna og ég neita algerlega að gera lítið úr því.

Ég kvaddi mér bara hljóðs til að vekja athygli á þessu, hæstv. forseti, úr máli hv. þm. um leið og ég þakka honum fyrir margt eins og ég sagði. En ég hlýt að segja eitt þó að það sé andsvar við allt annarri ræðu. Athyglisverð þóttu mér ummæli hv. þm. Árna Johnsens um Morgunblaðið. Hverjir þekkja Morgunblaðið betur en hann í þessum sal? Það var fróðlegt að velta því fyrir sér m.a. með hliðsjón af því hvernig Morgunblaðið hefur svo að segja tekið alla þá menn á hægra brjóstið sem hafa fallist á þau sjónarmið sem þar hefur verið fylgt í ritstjórnarstefnu. Það er fróðlegt mál um lýðræðislega skoðanamyndun sem ég hlýt að nefna hér, hæstv. forseti, þó að ég viðurkenni að ég er alveg á ysta jaðri í málinu.

(Forseti (ÓE): Já. Það var rétt hjá hv. þm. Það var alveg í jaðrinum.)