Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 19:19:48 (3173)

1996-02-19 19:19:48# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[19:19]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér kemur það ekki á óvart þó að forustumanni íslenskra sósíalista til langs tíma þyki það hörð ummæli þegar ég geri ekki mikið úr 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða. Ég hef alltaf mótmælt í heild þessu fiskveiðistjórnarkerfi sem nú er í gildi og talið það rangt vegna þeirrar sóunar sem ég tel að í því sé fólgin. En ég lít þannig á og hef rökstutt það hér áður að hið góða, hið jákvæða við fiskveiðistjórnarkerfið er fyrst og fremst það að þar er kveðið á um það og kveðið upp úr um það að það er séreignarréttur á miðunum. Þeir sem fá veiðileyfin eiga séreignarrétt. Þannig lít ég á það.

Í baráttu minni gegn þessu kvótakerfi hef ég gegnum tíðina verið að benda á að til er önnur leið. Hún er að veita skipseigendum þennan séreignarrétt með því að hafa sóknar- og flotastjórn. Það er líka séreignarréttur. Ég er því sannfærður um að þetta ákvæði í 1. gr. var aðeins sett til að sætta menn við það sem þeir voru að gera, svona á yfirborðinu. Framkvæmdin var útdeiling séreignarréttar. (Gripið fram í: Merkilegt hugtak. Útdeiling séreignar.)