Flutningar á skipgengum vatnaleiðum vegna EES

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 13:42:55 (3180)

1996-02-20 13:42:55# 120. lþ. 93.6 fundur 283. mál: #A flutningar á skipgengum vatnaleiðum vegna EES# frv. 14/1996, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[13:42]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Fyrir þrem árum lagði ég fram frv. til laga um flutninga á járnbrautum, skipgengum vatnaleiðum o.fl. vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Tilgangurinn með framlagningu frumvarpsins var eingöngu sá að fullnægja þeim ákvæðum EES-samningsins sem kveða á um að gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samninginn eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar bindi samningsaðila og skuli teknar upp í landsrétt. Raunhæf þýðing þessara gerða hér á landi var hins vegar á þeim tíma engin; t.d. var aðildarríkjum EES-samningsins ekki tryggður aðgangur að skipgengum vatnaleiðum innan Evrópusambandsins og engar skipgengar vatnaleiðir eru hér á landi. Frumvarpið fékk því ekki afgreiðslu á þinginu og var raunar rætt um að það yrði ekki lagt fram á nýjan leik. Nú hefur hins vegar sú breyting á orðið að EFTA-ríkin hafa nú sömu skyldur og réttindi og aðildarríki Evrópusambandsins um aðgang að skipgengum vatnaleiðum í Evrópu.

Ljóst er að aðgangur Íslands og íslenskra skipa að skipgengum vatnaleiðum Evrópu veitir íslenskum fyrirtækjum ýmis sóknarfæri á erlendum mörkuðum og eykur möguleika þeirra á flutningamörkuðum Evrópu sem er að sjálfsögðu bæði atvinnu- og gjaldeyrisskapandi. Ótvíræður ávinningur er fyrir íslensku útgerðirnar að íslensk skip eigi siglingarétt á skipgengum vatnaleiðum Evrópu, svo sem Rín og Dóná. Mikilvægar útflutningsafurðir Íslendinga, svo sem fiskimjöl, járnblendi o.s.frv., fara iðulega um umræddar skipgengar vatnaleiðir langt inn í land og getur umskipunarkostnaður í sjávarhöfn haft afgerandi áhrif á samkeppnisstöðu framleiðenda viðkomandi afurða og rýrt skilaverð til framleiðenda. (SvG: Er það nú víst?)

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, hv. 8. þm. Reykv., vísa til efnis frv. og greinargerðar, en legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og samgn.