Sjóvarnir

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 13:48:21 (3182)

1996-02-20 13:48:21# 120. lþ. 93.8 fundur 281. mál: #A sjóvarnir# frv., Flm. StB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[13:48]

Flm. (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um sjóvarnir. Auk mín eru flutningsmenn frv. Einar K. Guðfinnsson, Geir H. Haarde, Guðjón Guðmundsson, Egill Jónsson og Árni R. Árnason.

Frv. þetta var flutt á 117. og 118. þingi en var ekki afgreitt frá hv. samgn. Umsagnir bárust þá um frv. og hefur að nokkru verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem komu fram í þeim. Hefur verið leitast við að taka tillit til þess eftir því sem efni hafa staðið til.

Í 1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Sjóvarnir eru varnir gegn sjávarflóðum og landbroti af völdum ágangs sjávar. Byggð svæði og svæði þar sem til staðar eru dýrmæt mannvirki eða menningarminjar skulu að jafnaði njóta forgangs við gerð sjóvarna.

Samgönguráðherra fer með yfirstjórn mála er varða sjóvarnir en Hafnamálastofnun ríkisins með framkvæmd þeirra.

Framlög til sjóvarna ákvarðast af fjárlögum hverju sinni.``

Í greinargerð með frv. segir svo, með leyfi forseta:

,,Með frumvarpi þessu vilja flutningsmenn að sett verði löggjöf svo að koma megi fastara skipulagi á framkvæmdir við sjóvarnir og þátt ríkisins í þeim. Á fjárlögum hvers árs undanfarna áratugi hefur verið fjárveiting til sjóvarna á ýmsum stöðum á landinu. Framkvæmdin hefur verið sú að fjárlaganefnd hefur gert tillögur um fjárveitingar til einstakra staða að fengnum tillögum frá Hafnamálastofnun ríkisins. Sveitarfélög hafa áður sent skriflegar óskir til Hafnamálastofnunar og í einstöku tilvikum aðrir aðilar.

Ekki hafa verið í gildi nein lög um sjóvarnir en þrátt fyrir það hefur myndast nokkur hefð um vinnubrögð. Í langflestum tilvikum hafa sjóvarnir verið fjármagnaðar að öllu leyti með fjárveitingum ríkissjóðs þótt einstaka dæmi séu um framlög sveitarfélaga eða landeigenda. Hér er átt við kostnaðinn við sjálfa aðalvörnina en mörg dæmi eru um að sveitarfélög hafi séð um uppgræðslu innan eða ofan við grjótvörnina. Sjóvarnir hafa verið unnar undir tæknilegu og fjárhagslegu eftirliti Hafnamálastofnunar ríkisins. Helstu vandkvæðin hafa e.t.v. verið að samræma aðgerðir á ýmsum stöðum á landinu þar sem óskað hefur verið eftir sjóvörnum. Hafnamálastofnun hefur brugðist við óskum um framkvæmdir með því að flokka viðkomandi verk í forgangsröð og meta hvað er í húfi og þau verðmæti sem á að verja og hefur stofnunin látið semja skýrslur um nokkra hluta strandlengjunnar.

Með sjóvörnum er átt við varnir gegn sjávarflóðum og landbroti af völdum ágangs sjávar. Landbrot er eyðing lands af völdum sjávar hvort sem um er að ræða brot úr bökkum eða ágang á sandströnd. Sums staðar stendur byggð svo lágt að hætta er á sjávarflóðum og getur þá þurft flóðavarnir.

Stór tjón hafa orðið á síðustu árum beggja vegna Atlantshafsins af völdum sjávarflóða í ofviðrum. Vísindamenn telja að tíðni stórflóða hafi aukist, m.a. af völdum veðurfarsbreytinga, þ.e. dýpri lægða og meiri ölduhæðar og breytinga á öldustefnu. Mælst hefur aukið landbrot síðustu ár í nágrannalöndum okkar og einnig hérlendis.

Vegna kenninga um hækkun sjávarborðs af völdum hlýnandi loftslags samfara svonefndum gróðurhúsaáhrifum fer nú fram alþjóðlegt samstarf á vegum Sameinuðu þjóðanna um reglusetningu og aðgerðir til að bregðast við þeim vanda.

Athygli hefur vakið að meiri hluti landeyðingar á austurströnd Bandaríkjanna er talinn vera af mannavöldum, þ.e. stafa af mannvirkjum við ströndina, einkum af hafnargerð og varnargörðum innsiglinga en einnig af sjóvörnum og eru tjónþolar oft næstu nágrannar á viðkomandi strönd sem njóta ekki lengur sandburðar með hafstraumum.

Þótt þessi vandamál séu í minni mæli hérlendis er ekki hægt að loka augunum fyrir þeim. Þannig hefur sums staðar við suðurströnd landsins orðið vart aukins landbrots.

Samgönguráðherra fer með mál er varða sjóvarnir samkvæmt frumvarpinu en Hafnamálastofnun með framkvæmd þeirra og sér hún um tæknilegan undirbúning og tækni- og fjárhagslegt eftirlit með framkvæmdum. Á vegum Hafnamálastofnunar skal starfa sjálfstæð matsnefnd um sjóvarnir. Hún skal gera tillögur um framkvæmdir, fjalla um áætlanir Hafnamálastofnunar, meta hagrænt gildi sjóvarna sem óskað er eftir, gera tillögur um flokkun framkvæmda í forgangsröð og meta styrki til þeirra. Hafnamálastofnun getur að höfðu samráði við matsnefndina gert tillögur um tafarlausar aðgerðir, t.d. eftir flóðatjón. Stofnunin sér síðan um gerð fjögurra ára áætlunar um sjóvarnir á grundvelli endanlegra álita matsnefndar sem áður hafa verið kynnt hlutaðeigandi landeigendum og sveitarfélögum.

Hér er gert ráð fyrir þeirri almennu reglu að ríkissjóður greiði allt að 7/8 hlutum kostnaðar en sveitarfélög og viðkomandi landeigendur, sem hagræði hafa af sjóvörnum fyrir landi sínu, greiði minnst 1/8 hluta. Hér er um að ræða mikilvæga breytingu frá því sem verið hefur þar sem ríkissjóður hefur í flestum tilvikum staðið undir öllum kostnaði við sjóvarnir. Með því er sveitarstjórn eða landeigendur gerð ábyrg fyrir hluta framkvæmdarinnar og hafa því meiri rétt til að hafa áhrif á undirbúning og áætlanir sem nauðsynlegar eru. Gera má ráð fyrir að sveitarsjóður muni oftast greiða hluta heimaframlags, e.t.v. helming eða 1/16 hluta heildarkostnaðar, og væri það framlag fyrir heildina, og landeigendur hinn helminginn. Oft eru sveitarsjóðir líka eigendur lands eða lóða við ströndina. Miðað við þær sjóvarnir, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum, má þá búast við að kostnaðarhluti landeigenda geti numið 10.000--100.000 kr. fyrir venjulega lóð en meira fyrir stærri lóðir. Í einstökum tilfellum gætu þær þó orðið svo dýrar að kostnaðarhluti landeiganda (og sveitarfélaga) yrði miklu meiri og gæti þá þurft fyrirgreiðslu með lánum eða jafnvel eins konar byggðastyrk. Dæmi um slík viðfangsefni eru sjóvarnir við Hornafjarðarós.

Í vissum tilvikum getur komið til greina að landeigandi eða hagsmunaaðili greiði hærra framlag, t.d. 4/8 hluta eða 50%.`` --- Um það eru ekki sérstök ákvæði í frumvarpinu.

,,Framangreint á að sjálfsögðu við framkvæmdir sem metnar yrðu styrkhæfar en gera má ráð fyrir að sumar framkvæmdir verði ekki metnar styrkhæfar, t.d. ef í ljós kemur í hagrænu mati að framkvæmdakostnaður er mun meiri en hagræðið af sjóvörninni.

Hugsanlegt væri að tengja flokkun eða forgangsröðun fyrirhugaðra sjóvarna við styrkhlutfall ríkissjóðs.

Með frumvarpinu eru tekin af tvímæli um að skilyrði fyrir ríkisframlagi til sjóvarna sé að mannvirki eða byggðarsvæði séu samkvæmt skipulagslögum. Þar sem dæmi eru um að koma þurfi upp sjóvörnum utan samþykkts skipulags er ákvæði um að fyrir liggi umsögn Hafnamálastofnunar og framkvæmdir síðan undirbúnar í samræmi við skipulagslög. Þá er rétt að taka fram að hægt er að draga úr hættu á tjóni af sjávargangi með því að skipuleggja strandbyggð t.d. þannig að hún sé í tiltekinni lágmarksfjarlægð frá sjó. Auðvitað er hugsanlegt að atvinnurekstur krefjist meiri nýtingar lands út að sjó og þá vaknar spurningin um hver á að bera kostnaðinn sem af því hlýst.``

Virðulegi forseti. Þau ár sem ég hef seti í hafnaráði og ekki síður í fjárln. Alþingis hef ég fylgst með því hversu mikil óvissa hefur verið í framkvæmd og undirbúningi vegna sjóvarna. Ég tel að það hafi verið óeðlileg tilviljun sem hefur ráðið framvindu framkvæmda við sjóvarnir og fjárveitingu til þeirra í mörgum tilvikum. Telja verður eðlilegt og nauðsynlegt að um sjóvarnir gildi löggjöf og að á fjárlögum séu hverju sinni veitt framlög til þeirra verka í samræmi við vandaða áætlun sem taki mið af aðstæðum og tengist skipulagi byggðanna. Það verður að teljast óeðlilegt að skipulagsyfirvöld staðfesti skipulag byggða við ströndina á svæðum sem síðar verður að verja fyrir ágangi sjávar án þess að viðkomandi aðilar, svo sem sveitarstjórnir og fulltrúar ríkisvaldsins, hafi gert grein fyrir þeim kostnaði sem fylgir sjóvörnum sem nauðsynlegar eru svo byggð megi rísa á viðkomandi svæði.

Með því frv. sem hér er mælt fyrir er leitast við að koma sjóvörnum í fastan farveg og skilgreindar skyldur ríkisvaldsins annars vegar og landeigenda hins vegar.

Virðulegi forseti. Það er sérstök tilviljun að um þær mundir sem mælt er fyrir þessu frv. á Alþingi, þá skuli vera varað við flóðahættu við ströndina, en bæði sjávarhæð og veður er þannig um þessar mundir að veruleg hætta er talin á því að landbrot geti orðið eða skaði við ströndina vegna flóða. Í því sambandi er rétt að vekja athygli á því að Hafnamálastofnun hefur gert frumáætlun um kostnað við framkvæmdir vegna sjóvarna við ströndina og samkvæmt þeirri áætlun sem hefur verið gefin út liggur fyrir að þarna er um feiknarmikinn kostnað að ræða þegar litið er á brýnustu verkefnin sem talið er að ráðast þurfi í.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það frv. sem hér er til umræðu. Ég leyfi mér að gera það að tillögu minni að að lokinni 1. umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn. og hljóti þar nauðsynlega skoðun og umfjöllun.