Félagsleg verkefni

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 14:20:04 (3185)

1996-02-20 14:20:04# 120. lþ. 93.9 fundur 300. mál: #A félagsleg verkefni# þál. 21/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:20]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel að hér sé hreyft þætti í máli sem snýst um verkaskiptingu í Stjórnarráði Íslands og að mínu mati ættum við að ræða málið m.a. út frá því vegna þess að þetta mál snýst ekki bara um það hvernig verkum er skipt milli félmrn. og heilbrrn. heldur snýst það líka um það hvernig verkum er skipt að öðru leyti í Stjórnarráðinu því að það eru ýmis félagsleg verkefni t.d. annars staðar í Stjórnarráðinu en í félmrn. og í heilbrrn. Það er um að ræða félagsleg verkefni jafnvel í atvinnuvegaráðuneytunum. Það er um að ræða félagsleg verkefni jafnvel í dómsmrn. Þarna er verið að hefja umræðu um verkaskiptingu í Stjórnarráði Íslands og ég tel að það sé full ástæða til þess og það þurfi að fara í það mál.

Það er náttúrlega dálítið sérkennilegt að upplifa það að Stjórnarráðið er búið að breyta sér án þess að lögum hafi verið breytt og Alþingi tekur því eins og sjálfsögðum hlut að það standi í greinargerðum frumvarpa að iðn.- og viðskrh. flytji þau þó að hann sé ekki til samkvæmt lögum í einu ráðuneyti heldur í tveimur. Þetta sýnir að stjórnkerfið lagar sig að veruleikanum og er allt gott um það að segja en ég held að við þurfum að taka þessi mál pínulítið alvarlegar en við höfum gert.

Mér finnst að þessi tillaga sé dæmigerð um það að við erum í vissum vandræðum með verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins á milli ráðuneytanna. Mér finnst það ekki bara spurning um að skilgreina verkefni frá heilbrrn. yfir á félmrn. Það getur alveg eins verið á hinn veginn líka, þ.e. það þurfi að skilgreina einhver verkefni sem eru á jaðri félmrn. yfir á heilbrrn. eða eitthvert nýtt ráðuneyti, þ.e. innanríkisráðuneyti sem stundum hefur verið kallað sem yfirtæki að nokkru leyti störf dómsmrn. líka.

Ég er sammála því sjónarmiði að mér finnst t.d. að tryggingaþættirnir ættu allir að tilheyra félagsmálapakkanum, tryggingamálin að verulegu leyti. Það er auðvitað spurning hvort sum af þeim verkefnum sem nú eru stjórnsýslulega í fjmrn. eigi ekki að vera inni í burðugu tryggingaráðuneyti. Þar er ég t.d. að tala um stjórn lífeyrissjóðamála. Ég er að tala um yfirstjórn lífeyrismálanna og yfirsýn lífeyrismálanna í landinu. Það er auðvitað mjög sérkennilegt að upplifa það að verið er að sýsla með þetta að hluta í heilbrrn. og að hluta í fjmrn. og það er eins og menn viti nákvæmlega ekkert hvor af öðrum í þessum málum þó að í rauninni séu menn að fást við svipuð verk. Allt þetta finnst mér að þurfi að skoða og því tel ég að þessi tillaga sé alveg ágætlega á sínum stað. Mér skilst að lagt sé til að hún fari til allshn., er það ekki rétt, og þá eru menn bersýnilega að nálgast þetta út frá stjórnarráðsvinklinum og ég held að það sé kannski skynsamlegt að gera það.

Ég tek eftir því að í greinargerð tillögunnar er vikið aðeins að tveimur mjög stórum og þýðingarmiklum lagabálkum sem hafa orðið til á síðustu 10--15 árum. Annað er lögin um málefni aldraðra og hitt eru lögin um málefni fatlaðra. Staðreyndin er að sú löggjöf varð fyrst og fremst til vegna þess að það náðist ekki nein heildarsamstaða um heildarfélagsmálalöggjöf. Það voru ekki aðstæður til að setja hana. Menn töldu hana of flókna og yfirgripsmikla. Það mundi þýða of mikla skriffinnsku og annað þess háttar, en á árinu 1982 var samið gríðarlega mikið frv. um félagsmálalöggjöf hér á landi í nefnd sem var þá undir forustu Jóns Björnssonar, þáverandi eða síðar félagsmálastjóra á Akureyri. Það frv. var ekki flutningstækt, ef svo má segja í þessari stofnun, vegna þess að það tók yfir miklu breiðara svið en Alþingi var bersýnilega tilbúið til að taka á á þeim tíma. Þá voru menn tilbúnir til þess að taka lög um málefni þroskaheftra og lög um málefni fatlaðra sér og menn voru tilbúnir til þess að setja þessi sérstöku lög um málefni aldraðra. Og þingmenn muna kannski eftir því að lögin um málefni aldraðra byrjuðu með að það voru sett lög um Framkvæmdasjóð aldraðra áður en heildarlögin voru sett. Það var af því að menn voru tilbúnir til þess að afla skatta í það sérstaka verkefni að byggja húsnæði fyrir aldraða, bæði hjúkrunarheimili, dvalarheimili og jafnvel íbúðir, og það var mjög merkileg samstaða sem myndaðist á Alþingi á þeim tíma milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að leggja á skatt. Ég hygg að það séu fá dæmi þess að stjórn og stjórnarandstaða hafi sameinast um að leggja á skatt. Það var skatturinn sem þá fór í Framkvæmdasjóð aldraðra en hefur síðan verið notaður almennt í ríkissjóð eins og menn þekkja, en ég ætla ekki að fara út í þær deilur hér.

Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. flm. tillögunnar að vandinn við þetta mál er ekki síst sá að heilbrigðiskerfið er oft sett í algjörlega óþolandi stöðu. Það er sagt við heilbrigðiskerfið: Þið eigið að spara 30 millj., 100 millj. eða 200 millj. og heilbrigðiskerfið byrjar þá á því að fara í þau verkefni sem það telur að tilheyri kannski einhverjum öðrum eins og sveitarfélögunum. Bjargsmálið er dæmi um það. Gunnarsholtsmálið er dæmi um það. (Gripið fram í: Leikskólarnir.) Og svo leikskólamálið sem stundum hefur verið rætt áður. Þetta er dæmi um verkefni þar sem heilbrigðiskerfið er sett í vanda. Heilbrigðiskerfið vill sjá um sín heilbrigðismál en situr svo uppi með félagsleg verkefni og svo er ráðist á heilbrigðiskerfið úr öllum áttum ef menn vilja flytja þessi verkefni til sem þó ætti í raun og veru að gera miðað við stjórnkerfi eins og er. Þetta verður til þess að það myndast óþolandi þrátefli um árabil, eins og við þekkjum öll hér inni sem höfum staðið í þessum málum, um m.a. rekstur á stofnunum eins og í Gunnarsholti, rekstur á stofnun eins og Bjargi, og líka deilur um leikskólarými sjúkrahúsanna, sem þyrfti ekki að vera ef menn nálguðust þetta rólega og faglega og ekki bara í tengslum við niðurskurðinn heldur í heildarsamhengi. Út frá því finnst mér að þessi tillaga hafi tvíþætt hlutverk, annars vegar að minna á erfiða, flókna og að mörgu leyti úrelta verkaskiptingu í Stjórnarráði Íslands, og svo hins vegar það að hjálpa til við að félmrn. hafi sitt og ekki sé verið að ætlast til þess að heilbrrn. fáist við verkefni sem eiga heima annars staðar. Það er oft með mjög ósanngjörnum hætti, m.a. af stjórnarandstöðunni á hverjum tíma, hvort sem það er ég eða einhverjir aðrir, verið að veitast að hugsanlegum verkefnatilflutningi þarna á milli og verður til þess að stofnanirnar og einstaklingarnir sem þar búa, hvort sem það er á Bjargi, Gunnarsholti eða hvar það nú er, verða bitbein í ósanngjarnri og óheppilegri umræðu. Þess vegna tel ég ágætt að hefja þessa umræðu eins og hv. þm. hefur gert.