Félagsleg verkefni

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 14:44:33 (3188)

1996-02-20 14:44:33# 120. lþ. 93.9 fundur 300. mál: #A félagsleg verkefni# þál. 21/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[14:44]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þess sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni um afstöðu mína til leikskólamála, þá vil ég segja það að ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að sveitarfélögin ættu að bjóða öllum börnum upp á leikskólapláss en það væri ekki hlutverk t.d. spítala að reka slíkar stofnanir. Hins vegar var ástandið þannig hjá Reykjavíkurborg að skortur á leikskólaplássi var slíkur að engan veginn var við unað og þess vegna urðu sjúkrahúsin að grípa til þess ráðs að koma upp sínum eigin leikskólum.

Hins vegar ber nú svo við að það hafa orðið mikil umskipti í Reykjavíkurborg og Reykjavíkurlistinn setur leikskóla og skólamál í forgang og við munum á næstu mánuðum og árum það sem eftir lifir kjörtímabilsins sjá töluverð umskipti í þeim málum. Þannig að þó að menn færu nú í þessi leikskólamál hjá spítölunum, þá hygg ég að ekki mundi gerast sem við blasti fyrir líklega tveimur árum eða svo, þegar þessi mál voru hvað mest á döfinni, að börnin yrðu sett út á guð og gaddinn eins og þá var útlit fyrir. Því að ef ég man rétt þá tók þáv. borgarstjórnarmeirihluti ekkert sérlega vel í það að taka við þessum leikskólum.