Samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 15:07:14 (3194)

1996-02-20 15:07:14# 120. lþ. 93.91 fundur 196#B samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:07]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Hæstv. forseti. Ég færi málshefjanda þakkir fyrir að taka þetta mál til umræðu. Ég held að það sé alveg tímabært miðað við það sem rætt hefur verið úti í þjóðfélaginu. Þó er málið þannig vaxið að flestir hv. alþm. hafa ekki grundvöll til þess að ræða málið efnislega því að þau drög að tillögum sem hv. þm. nefnir, eru flestar enn þá á umræðustigi einmitt við verkalýðshreyfinguna þannig að þau mál eru rædd meira við verkalýðshreyfinguna og fyrr en við hv. alþm., a.m.k. á þessu stigi málsins og það takmarkar þá efnislegu umræðu sem um málið getur farið fram hér.

Ég vek athygli á því að í þeim tilvikum sem hv. þm. nefndi, bæði varðandi þær breytingar sem menn eru að vinna að á lagaramma um sáttastörf í vinnudeilum og eins varðandi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þá er um að ræða gamlan lagaramma, reyndar í öðru tilvikinu mjög gamlan lagaramma. Ég hygg að flestir sanngjarnir menn sjái að það er ekki vanþörf á því að þeim lagaramma verði breytt og þeim leikreglum verði breytt. Þeim leikreglum getur enginn annar aðili breytt en þingið. Þetta eru leikreglur sem eru varðaðar lagaramma og það er sjálfsagt að þingið rísi undir þeim skyldum sínum. Ég tek undir það með hv. þm. að það er óskynsamlegt að leitast við að breyta þeim leikreglum sem verða að vera skýrar og ljósar án náins samráðs við þá aðila sem í hlut eiga og ég tel einmitt að menn hafi verið að leitast eftir slíku samráði.

Í fyrra tilvikinu þar sem um er að ræða sáttastörf í vinnudeilum hefur verið starfandi nefnd til að undirbúa það mál sem hefur nú haldið 42 fundi. Það er ómögulegt að segja að þar séu menn að rasa um ráð fram þegar starf er undirbúið með þeim hætti að nefnd aðilanna hefur haldið um málið 42 fundi og það virtist flest benda til þess, a.m.k. framan af, að allgóð sátt gæti orðið í því nefndarstarfi.

Það er líka rétt að hafa í huga vegna þess með hvaða hætti umræðan hefur verið að ekki er um það að ræða í neinu tilviki að menn séu með hugmyndir um það að í lögum að bægja í burtu áunnum rétti í kjarasamningum verkalýðsfélaga, atvinnurekenda og ríkisins. Það stendur ekki til. Það er ekki hugmyndin. Menn eru ekki að hrófla í neinu við þeim atriðum sem aðilar semja um í kjarasamningum. Menn eru hins vegar að semja um leikreglurnar og það er áríðandi að leikreglurnar séu skýrar.

Ég vil líka nefna það vegna þess að í sumum ummælum hv. þm. gætti annars. Þegar menn tala um það að menn séu að velta fyrir sér að draga úr réttindum launþega eins og sagt er, þá er það misskilningur. Ef það er uppi í hugmyndum til að mynda um sáttastörf á vinnumarkaði að draga eitthvað úr völdum verkalýðsforingja, þá er það aldrei gert þannig að færa þau völd annað, til vinnuveitenda eða ríkisins heldur eingöngu til launþeganna sjálfra og ég trúi ekki að hv. þm., formaður Alþb., sé andvíg því að auka rétt launþeganna sjálfra, áhrif þeirra á það hvort boðað sé til vinnustöðvunar, áhrif þeirra á það hvenær verkföllum ljúki o.s.frv. Ég hygg að flestum hv. þm. ætti að vera ljóst að það er mikilvægt að áhrif launþeganna sjálfra í verkalýðshreyfingunni aukist. Við höfum horft á það að mjög fámennir fundir, fundir þar sem kannski koma saman 1% manna í tiltölulega litlu félagi geta sett allt á annan endann í þjóðfélaginu og þar með truflað störf þúsunda annarra launþega sem koma hvergi nærri. Við þurfum auðvitað hér sem löggjafi að gæta hagsmuna þessara launþega, ekki eingöngu forustumanna í verkalýðsfélögum, með fullri og mikilli virðingu fyrir þeim. Þannig leitast ríkisstjórnin í þessum tilvikum við að eiga sem nánast, best og mest samráð við starfsmenn og forustumenn starfsmanna á vinnumarkaði. En við getum aldrei, hvorki ríkisstjórn né þing hlaupist undan þeim skyldum okkar sem við höfum á okkur tekið að lokaorðið um lagasetningu verðum við að eiga sjálf. Við getum aldrei vikið þeim þætti burtu til annarra. Til þess höfum við ekki leyfi gagnvart kjósendum í landinu. Við verðum að axla þær ábyrgðir sjálf og það viljum við auðvitað öll gera.

Ég ítreka að við höfum verið að vinna að þessum málum í samráði við aðila á vinnumarkaði. Ég vek athygli á því að málið er til umræðu vegna þess að ríkisvaldið hefur einmitt sent, til að mynda í tilfelli opinberra starfsmanna, þau mál til athugunar þeirra og það er þaðan sem það berst út til umræðunnar, einmitt frá þeim, og út af fyrir sig er ekkert við því að segja. Það sýnir hins vegar það og sannar að menn eru ekkert að æða fram með einhver mál án þess að þeir fái tækifæri til þess að koma að sínum sjónarmiðum, andmælum og athugasemdum sem auðvitað eru flestar til bóta því að þetta eru aðilar sem til málsins þekkja og við viljum eiga náið og gott samráð við þessa aðila. Við viljum jafnframt að leikreglurnar taki mið af þjóðfélaginu eins og það er í dag, tíðarandanum og þeirri þróun sem orðið hefur. Lögin frá 1938 þegar þau voru sett voru kölluð af forustu launþegahreyfingarinnar þá þrælalög. Nú vilja menn ekki láta breyta þessum lögum. Þannig hefur tíðarandinn breyst. Þannig hefur þróunin orðið. Ég tek undir með hv. þm. það er áríðandi og mikilvægt að eiga um þessar breytingar gott samstarf við samtök launþega.