Samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 15:13:07 (3196)

1996-02-20 15:13:07# 120. lþ. 93.91 fundur 196#B samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi# (umræður utan dagskrár), JBH
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:13]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er ekki sérstakt tilefni til gagnrýni á þessa ríkisstjórn eða aðrar ríkisstjórnir þótt hún lýsi yfir vilja til breytinga á vinnulöggjöfinni. Það er rétt að vinnulöggjöfin er afar gömul, frá 1938 og það er rétt að þær hugmyndir eru útbreiddar í þjóðfélaginu, þar á meðal innan launþegahreyfingarinnar að þar standi margt til bóta og þar þurfi mörgu að breyta. Dæmi um slíkt er sú hefð sem orðin er á mjög sammiðjuðu samningaferli á vinnumarkaðnum, ekki síst að því er varðar hið harðsvíraða sammiðjaða samningavald vinnuveitenda.

Í annan stað hefur verið talað um það að mjög æskilegt væri að unnt væri að sameina starfsfólk einstakra fyrirtækja og vinnustaða í einu stéttarfélagi, í einum kjarasamningum, bæði til þess að sækja aukinn kaupmátt í ljósi afkomu viðkomandi atvinnugreinar og eins til þess að auðvelda verkalýðshreyfingunni að draga úr tilhneigingu ella til launamismunar. Gagnrýnin snýst ekki um þessa hluti. Gagnrýnin snýst fyrst og fremst um það hvort ríkisstjórnin er með í undirbúningi þrjú frumvörp sem eins og fram hefur komið og forsrh. sagði að þingmenn hefðu ekki séð, án þess að fylgt hafi verið eðlilegum leikreglum um samráð. Hæstv. forsrh. gaf í skyn að það væri síst það sem fyrir ríkisstjórninni vekti. Engu að síður segja fulltrúar Alþýðusambandsins í niðurlagi sinnar áfangaskýrslu um sáttastörf í vinnudeilum:

,,Ýmis atriði sem tengjast þessum hugmyndum hafa ekki verið rædd til hlítar. Má þá nefna einmitt miðlun sáttasemjara, fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um hana, boðun verkfalls og verkbanns, hlutverk ríkissáttasemjara í vinnudeilum og vinnustaðafyrirkomulag.``

Þeir eru með öðrum orðum að segja að samráðsferlinu hafi verið slitið og allt í einu liggi fyrir frv. án þess að gefist hafi tóm til að ræða þær hugmyndir sem þarna er gefið til kynna eða kynna þær í hreyfingunni.

Að því er varðar opinbera starfsmenn þá er það staðreynd að réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og lífeyrisréttindi eru hluti af þeirra kjörum og einhliða skerðing þeirra kjara með lagasetningu gefur þeim ekki nú um miðjan samningstímann svigrúm til þess að fá það bætt í launum. Þess vegna veldur það óvissu um kjarasamninga. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. og aðrir ráðherrar gætu dregið úr þessari óvissu með því að lýsa því einfaldlega yfir að ekki standi til að skerða samnings- eða verkfallsrétt og að ekki standi til að skerða áunnin lífeyrisréttindi, þ.e. afturvirkt, eða ef það stendur til varðandi réttindalöggjöfina þá sé það tryggt og því yfirlýst að vilji ríkisvaldsins standi til þess þá að bæta launþegum það í launum.

(Forseti (ÓE): Þetta voru tvær og hálf mínúta í staðinn fyrir tvær.)