Samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 15:24:29 (3200)

1996-02-20 15:24:29# 120. lþ. 93.91 fundur 196#B samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:24]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hæstv. fyrrv. félmrh., Guðmundur Árni Stefánsson, setti árið 1994 nefnd á laggirnar til þess að fjalla um samskiptareglur á vinnumarkaði. Þessi nefnd var með þátttöku ASÍ og þátttöku BSRB. 48. fundur þessarar nefndar er haldinn í dag og það tel ég að hljóti að teljast nokkur umfjöllun.

Þetta frv. sem hér hefur verið drepið á er samið á grundvelli áfangaskýrslu frá nefndinni og ég hélt satt að segja að sæmileg sátt ríkti í nefndinni um frv. þegar farið var að kynna það úti í félögunum. Í frv. er ekki sneitt að verkfallsréttinum. Það er fjarstæða. Í frv. er tilraun til að draga úr launamisrétti í landinu, tilraun til þess að styrkja heildarsamtök verkalýðsins og það er fjarstæða að halda því fram að frv. stangist á við stjórnarskrá eða alþjóðasamþykktir sem við erum aðilar að. (SvG: Heitir þessi maður Páll Pétursson?) Þetta frv. er samið með hliðsjón af þeirri aðferð sem Danir hafa viðhaft um árabil og ef það er staðreynd að danskur verkalýður hafi miklu hærra kaup heldur en íslenskur þá finnst mér að það sanni það að danska aðferðin er ekkert ómöguleg. Danska aðferðin kynni að vera til fyrirmyndar fyrir íslenskan verkalýð og til þess að jafna kjörin í landinu. Reynslan af íslensku aðferðinni er ekkert sérstaklega góð. (Gripið fram í.) Hér er allt of mikill launamunur í landinu og aðferðir við kjarasamninga (Gripið fram í.) hafa verið með þeim hætti að þær eru ekki til fyrirmyndar og áreiðanlega hægt að bæta þær.