Samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 15:26:50 (3201)

1996-02-20 15:26:50# 120. lþ. 93.91 fundur 196#B samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:26]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin segist vera í samstarfi við launþegasamtökin. Vinnan er í uppnámi vegna hrokafullra vinnubragða af hálfu ríkisvaldsins og einstaka þættir frumvarpsdraganna sem um er rætt eru skeggræddir í fjölmiðlum. Þingmenn reyna að átta sig á stöðunni og staðhæfingunum og eru eins og jójó í ræðustól Alþingis í umræðu utan dagskrár dag eftir dag. Einhver mundi kalla þetta óbærilegan léttleika tilverunnar en, því miður, umgjörð þessa máls er grafalvarleg. Mínar heimildir eru þær að það sé vilji til þess innan verkalýðshreyfingarinnar að gera breytingar á vinnulöggjöfinni. Að verkalýðshreyfingin hafi ekki hafnað því að setja nýjar verklagsreglur. Mínar heimildir segja að ágreiningurinn rísi út af verklagi félmrh. þar sem keyrt er yfir sjónarmið launþegasamtakanna og skrifað handrit að frumvarpi þar sem sjónarmiða vinnuveitenda er gætt. Á sama tíma eru unnin frv. um breytingar á réttindum opinberra starfsmanna og það hendir fjmrh. að setja þau fram á viðkvæmum tíma og allt lendir í pressu af því ráðherrarnir halda illa á málum.

Það eru eðlileg viðbrögð launþega að halda fast í það sem þeir hafa en flestir viðurkenna að mörgu þurfi að taka á, ekki síst að lífeyrismál ríkisins séu í vanda en það skiptir máli hvernig farið er að. Verkalýðshreyfingin lagði grunn að þjóðarsátt. Sú sátt var byggð á frjálsum samningum og öll leiðandi félög innan hreyfingarinnar stóðu saman um stöðugleika, lækkun vaxta, baráttuna við verðbólgu. Alltaf ,,consensus``, alltaf samráð. Þess vegna er það hreint skemmdarverk ef annar aðilinn á að ráða þessari ferð.

Ef það fer svo að Framsfl. tekur nú beina afstöðu með atvinnurekendum þá er það ,,últra`` hægri leið. Fjmrh. sagði í morgunútvarpi að nú þyrfti hann að leggja frumvörpin strax fram á Alþingi vegna kvartana og ég spyr: Er það e.t.v. óskastaðan sem þessi uppákoma átti að leiða til?