Samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 15:29:13 (3202)

1996-02-20 15:29:13# 120. lþ. 93.91 fundur 196#B samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:29]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Opinberir starfsmenn hafa gjarnan fengið þau svör við sínum launakröfum að réttindi þeirra séu svo góð að ekki sé unnt að greiða þeim hærra kaup. Nú getum við haft okkar skoðanir á því hversu merkileg þau réttindi eru þegar til kastanna kemur en það breytir ekki því að þau hafa haldið launum opinberra starfsmanna niðri um árabil. Opinberir starfsmenn hafa borgað fyrir þau með kaupinu sínu í gegnum tíðina og láta menn sér þá til hugar koma að þessi réttindi verði tekin af eða þeim breytt með löggjöf án átaka? Auðvitað er verið að koma aftan að fólki sem vegna meintra réttinda hefur haft skertar launatekjur um árabil.

Í 36. gr. gildandi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er ákvæði þess efnis að við endurskoðun laganna skuli jafnan gefa forustu samtaka opinberra starfsmanna kost á því að fylgjast með og fjalla, fyrir hönd félaga sinna, um ágreiningsatriði þau sem upp kunna að koma. Miðað við það sem fram hefur komið hafa hugmyndir ríkisstjórnarinnar verið kynntar hvað varðar frv. um réttindi og skyldur og lífeyrissjóðinn. En svo fer allt í bál og brand. Hver er þá merking þess að gefa eigi fulltrúum starfsmanna kost á að fylgjast með eða að fjalla, fyrir hönd félaga sinna um ágreiningsatriði sem upp kunna að koma? Hvar eru málin raunverulega stödd? Er það þetta, virðulegi forseti, sem við þörfnumst núna: Lakari staða launafólks? Er það framlag ríkisstjórnarinnar til landflóttans?

Þriðjungur fólks á besta aldri er tilbúinn að flytja úr landi ef örugg atvinna býðst. Halda menn að samkeppnisstaða Íslands, samkeppnin um fólk, hugmyndir og hæfileika batni með því að þrengt sé að kjörunum? Það er ekki bara vegna launanna sem fólk flýr land. Það er ekki síður vegna ýmissa réttinda og möguleika sem fólki og fjölskyldum hafa verið skapaðir í okkar nágrannalöndum, þar á meðal svokölluð félagsleg réttindi og fjölskyldustefna. (Forseti hringir.) Það ættu þeir menn að hafa í huga sem um þessar mundir eru að föndra við lagafrv. sem skerða réttindi eða möguleika launafólks og samtaka þess.