Samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 15:34:19 (3204)

1996-02-20 15:34:19# 120. lþ. 93.91 fundur 196#B samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:34]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegur forseti. Mér er alveg sama hvað formaður BSRB segir, eru orð fjmrh. Kannski segir þetta alla söguna. Ég kem hins vegar hér upp í framhaldi af orðum hæstv. félmrh. sem gat um það réttilega að það hafi verið í tíð minni sem félmrh. sem aðilar vinnumarkaðarins og ríkisvaldsins voru kallaðir að þessu borði til að fara yfir samskiptareglur á vinnumarkaði til að freista þess að bæta enn frekar samband þessara aðila og treysta þau bönd sem þar þurfa að vera á milli. Hins vegar var það aldrei ætlunin að keyra út einstakar tillögur úr þeirri nefnd einhliða með afli og offorsi eins og nú hefur verið gert. Því segi ég einfaldlega: Svona eiga samskiptareglur á vinnumarkaði ekki að vera. Með öðrum orðum: Niðurstaða þessa nefndarstarfs er gjörsamlega á haus við upphaflegt markmið þess.