Samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi

Þriðjudaginn 20. febrúar 1996, kl. 15:35:20 (3205)

1996-02-20 15:35:20# 120. lþ. 93.91 fundur 196#B samráð við samtök launafólks um félagsleg réttindi# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur

[15:35]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Þessi umræða kemur mér mjög á óvart. (Gripið fram í: Ekki veiðileyfagjald.) Það kemur mér mjög á óvart að menn skuli á þessari stundu vera að hafa uppi svona upphlaup með orðum eins og menn hafa viðhaft. Eins og frummælandi segir að við megum vita að launþegar sitji undir stöðugum árásum ríkisvaldsins oftast í samráði við samtök atvinnurekenda. Í hvaða heimi lifir hv. þm. sem segir þetta? Hún veit og það vita allir hér inni að þetta er ósatt. Það hefur verið mjög góð samvinna þessara aðila. Það er mikilvægt fyrir þjóðfélagið að þessir aðilar hafi mikið og gott samstarf. Það veit ég að Alþingi tekur alvarlega. En svona umræða mun aldrei skila neinu jákvæðu. Það ættu menn allir að hugsa um. Þetta er viðkvæmur hlutur, vinnumarkaðurinn. Og ég fullyrði að umræða eins og þessi mun aldrei skila neinu nema hinu slæma. (SvG: Segðu Friðriki það.)