Skattlagning happdrættisreksturs

Miðvikudaginn 21. febrúar 1996, kl. 13:57:57 (3217)

1996-02-21 13:57:57# 120. lþ. 94.3 fundur 299. mál: #A skattlagning happdrættisreksturs# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur

[13:57]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Vorið 1994 varð heilmikil umræða á Alþingi um rekstur happdrættis hér á landi. Umræðan varð til í kjölfar þess að óskað hafði verið eftir leyfi til þess að starfrækja hér svokallaða söfnunarkassa, spilakassa, þar sem möguleikar eru á verulega háum vinningum. Nokkrir þingmenn og reyndar mörg félagasamtök höfðu uppi ýmsar athugasemdir við það að slíkur rekstur yrði leyfður hér á landi sem engu að síður gerðist og lögin voru samþykkt 1994.

Inn í þessa umræðu um það hvort leyfa ætti þessa öflugu spilakassa hér og þær reglur sem um það ættu að gilda fléttaðist umræða um fleiri þætti er varða rekstur á happdrætti. Hins vegar hefur eftir að lögin voru samþykkt 1994 verið mjög hljótt um alla þessa umræðu. Ég hef reyndar oft velt því fyrir mér hvernig þeim reglum, sem þá voru samþykktar, væri framfylgt. Ef skoðaðar eru reglur sem gilda hjá öðrum þjóðum um rekstur happdrættis, þá virðast þær vera allt öðruvísi heldur en gertist hér. Happdrættisrekstur er mjög sérstakur atvinnurekstur að því leytinu til að auðlind þessara fyrirtækja er leyfisveitingin, leyfisveiting fyrir rekstri á einhverri tiltekinni afurð sem heldur öðrum frá rekstri af svipuðu tagi. Þessar leyfisveitingar hafa verið háðar duttlungum stjórnmálamanna og embættismanna og svo virðist sem þar hafi í raun engin markviss stefna ráðið ferðinni. Þetta er markaður þar sem veltan er talin vera um 5--6 milljarðar á ári hverju og skiptir þar af leiðandi verulegu máli í bókhaldi venjulegrar meðalfjölskyldu.

Á þskj. 538 hef ég beint fyrirspurn til hæstv. fjmrh. Fyrirspurnirnar eru eftirfarandi:

1. Hvernig er háttað skattlagningu á rekstur hvers konar happdrættis hér á landi, þar með talinn rekstur spilakassa?

2. Hvernig er staðið að slíkri skattlagningu annars staðar á Norðurlöndum?

3. Eru sambærileg skattaákvæði í gildi um svokallað Víkingalottó í löndum sem standa að því happdrætti? Ef ekki, hver er mismunurinn?

4. Hefur ráðherra í hyggju að beita sér fyrir breytingu á skattareglum um starfsemi happdrættis? Ef svo er, í hvaða veru?

Að lokum þætti mér fróðlegt að fá að heyra hjá hæstv. fjmrh. hvort honum finnst ekki vera kominn tími til að skoða happadrættismál í víðu samhengi og færa löggjöf í nútímalegra horf. Elstu lögin eru orðin margra áratuga gömul. Og einnig hvort hæstv. fjmrh. fyndist ekki tímabært að skoða þann möguleika að færa málefni happdrætta frá dómsmrn. til fjmrn. líkt og gerist með flestum öðrum þjóðum.