Fíkniefnasmygl

Miðvikudaginn 21. febrúar 1996, kl. 14:14:16 (3222)

1996-02-21 14:14:16# 120. lþ. 94.4 fundur 316. mál: #A fíkniefnasmygl# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur

[14:14]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda er tvíþætt, annars vegar hvort fjmrh. áformi að beita sér fyrir sérstökum aðgerðum vegna fíkniefnasmygls til landsins og hins vegar hvort fjmrh. hafi haft afskipti af málefnum þeirra tollvarða sem rætt var við um fíkniefnavarnir nýlega í fjölmiðlum, aðallega í DV.

Hvað fyrra atriðið varðar er rétt að taka fram að umræða undanfarinna vikna um fíkniefnainnflutning og fíkniefnaneyslu og reyndar fundi lögreglunnar í húsnæði hér í bænum nokkrar undanfarnar helgar hlýtur að vekja áhyggjur allra hugsandi manna. Þessi umræða hefur varpað ljósi á þá staðreynd að til landsins berst umtalsvert magn af fíkniefnum og neysla er allnokkur. Það sem upp úr umræðunni hefur staðið er neysla ungs fólks og félagslegar afleiðingar hennar. Fyrirspyrjendur spyrja hvernig fjmrh. hyggist beita sér fyrir úrbótum gagnvart fíkniefnasmygli. Jafnramt er fullyrt að tollgæslu sé ábótavant og vikið að viðtali við tollverði í DV 29. og 31. jan. sl. Ég vil nefna þrennt í þessu sambandi.

Í fyrsta lagi skipaði ríkisstjórnin nýverið nefnd til þess að fjalla um fíkniefnavandann. Verkefnið er víðtækt og mun einn þáttur starfsins áreiðanlega snerta innflutning og dreifingu fíkniefna. Í því sambandi hef ég skrifað ríkistollstjóra bréf og falið honum að vera nefndinni til aðstoðar á allan hátt. Örugglega má ná árangri með samstarfi allra aðila án þess að kostnaður fari úr böndum.

Í öðru lagi mun ég innan tíðar kynna ríkisstjórn og Alþingi frv. til laga um breytingu á tollalögum. Sú breyting sem þar er lögð til sprettur reyndar ekki af innflutningi og neyslu fíkniefna heldur af öðrum ástæðum en alþingismönnum ætti þá að gefast tækifæri til þess að fjalla sérstaklega um þennan þátt mála eins og aðra.

Í þriðja lagi stendur nú yfir sérstök athugun á skipulagi og starfsháttum tollstjóraembættisins í Reykjavík. Ástæðan er m.a. breyting á starfi tollyfirvalda í mörgum löndum. Ég hef óskað eftir því við starfshóp, sem að þessu verki vinnur að hann skili mér tillögum og ábendingum sínum fyrir aprílbyrjun nk. Ég vænti þess fastlega að sá hópur láti í ljós skoðun á því hvort meiri áherslu eigi að leggja á einn þátt í starfi tollyfirvalda fremur en annan. Enn fremur er afar brýnt að góð samvinna og samhæfing sé á starfi allra aðila sem að tolleftirliti koma og á ég þar við tollyfirvöld í Keflavík, í Reykjavík og víðar.

Ég vil taka það skýrt fram að ég tel að það sé rangt að tala um átak í þessu sambandi. Við þurfum að sýna árvekni og þetta verkefni, að hefta innflutning á fíkniefnum, hlýtur að vera stöðugt og sífellt verkefni.

Hvað varðar hins vegar síðari spurningu fyrirspyrjenda þá er því til að svara að fjmrh. hafði afskipti af máli þeirra tollvarða sem var rætt við í DV 29. og 31. jan. Þau afskipti voru með þeim hætti að ég og ráðuneytisstjóri fjmrn. ræddum við staðgengil tollstjórans í Reykjavík og skrifuðum tollstjóra bréf þar sem spurt var um hvaða starfsreglur giltu hjá embættinu í samskiptum við fjölmiðla og hvort hann teldi ummæli tollvarðanna viðeigandi. Tollstjórinn í Reykjavík ræddi við umrædda starfsmenn í framhaldi af svari tollstjórans í Reykjavík til fjmrh. Var honum skrifað bréf og honum falið að kynna starfsmönnum þeim er ræddu við fjölmiðla ásamt öllum öðrum starfsmönnum þær reglur sem gilda um samskipti við fjölmiðla og gefnar voru út 1960 af þáv. fjmrh. Þær reglur kveða ótvírætt á um að starfsmönnum er óheimilt að upplýsa fjölmiðla um mál sem eru á þeirra starfssviði. Jafnframt kom fram að fjmrh. taldi orð tollvarðanna óviðeigandi og að þeir hefðu farið út fyrir verksvið sitt. Þessi afstaða hefur nú verið kynnt starfsmönnum. Afskiptum fjmrh. af þessu tiltekna tilviki er þar með lokið.

Varðandi það sem hv. fyrirspyrjandi sagði um afstöðu Arnmundar Backmans til þessa máls, þá skal það tekið fram að Arnmundur Backman er ekki dómstóll í þessum málum. Hann hefur skilað áliti eins aðila og ég er ekki tilbúinn til þess að fallast á þá niðurstöðu þó hún komi þessu máli ekki við úr því sem komið er. Ég vil einungis benda á að það getur verið slæmt og mjög slæmt í baráttunni við fíkniefni þegar gefnar eru yfirlýsingar eins og þarna var gert. Ég vil benda á í því sambandi að ég held að það væri ekki gott og við mundum ekki fagna því, íbúar Reykjavíkur, ef lögreglumenn létu hafa eftir sér í blaðaviðtölum að það væri óhætt að brjótast inn í ákveðin hverfi Reykjavíkur því þeir gætu ekki verið þar á vakt allan sólarhringinn. Slíkar yfirlýsingar eru opinberum starfsmönnum alls ekki samboðnar og þess vegna tel ég að afskipti ráðuneytisins hafi verið hárrétt og að þeim staðið eins og lög gera ráð fyrir.